Sólin Sólin Rís 09:35 • sest 16:47 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:54 • Sest 21:49 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:43 • Síðdegis: 23:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:07 • Síðdegis: 17:18 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:35 • sest 16:47 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:54 • Sest 21:49 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:43 • Síðdegis: 23:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:07 • Síðdegis: 17:18 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjar eru helstu ástæður landnáms?

Orri Vésteinsson

Landnám köllum við það þegar fólk eða dýr setjast að þar sem þau hafa ekki verið áður. Í þessu svari verður fjallað um ástæður þess að fólk nemur land og tekin dæmi bæði af því þegar fólk nemur óbyggt land – eins og gerðist á Íslandi í lok 9. aldar – og þegar það ryður úr vegi fyrri íbúum og byggir nýtt samfélag að mestu eða öllu leyti óháð því eldra. Dæmi um hið síðarnefnda eru mun fleiri í seinni alda sögu, einkum í Ameríku og úr Suðurhöfum.

Þó að mikilvægur munur sé á þessu tvennu – ekki síst að fyrstu skref landnáms í löndum þar sem fólk bjó fyrir eru að jafnaði mun auðveldari vegna aðstoðar frumbyggjanna og vegna þess að átök við þá setja síðan meira eða minna mark á þróun landnámsins – er hvorttveggja ólíkt því þegar innflytjendur setjast að í rótgrónum samfélögum. Innflytjendur í rótgrónum samfélögum þurfa iðulega að kljást við fordóma og margs konar hindranir og örðugleika, og þeir eru fæstir í góðri aðstöðu til að eignast til dæmis land á hinum nýja stað. Þeir þurfa að finna sér stað í samfélaginu sem þeir flytja í en fólk sem nemur land þarf að byggja nýtt samfélag frá grunni. Í því geta falist ýmiskonar tækifæri, sem geta varpað ljósi á af hverju fólk leggur út í slík ævintýri, en ótvírætt er einnig að landnám er mun áhættusamara og erfiðara fyrir einstaklingana – landnemana – en fólksflutningar til rótgróinna samfélaga. Dánar- og brotthvarfstíðni fyrstu landnema á nýjum stað er oft 100% – flest landnám mistakast nefnilega – og mörg dæmi eru um landnám þar sem dánartíðni var margföld á við heimalöndin í marga áratugi áður en jafnvægi komst á. Þó ekki væri nema út af þessu einu – að þátttaka í landnámi felur í sér lífshættu – er áhugavert að reyna að skilja af hverju fólk leggur út í að nema ný lönd.

Fyrsti flotinn siglir inn í Port Jackson á Ástralíu 27. janúar 1788. Þar voru Bretar fyrstir Evrópubúa til að nema land og stofnuðu fanganýlendu. Málverk eftir William Bradley (1758–1833).

Þegar fjallað er um ástæður landnáms er gagnlegt að gera greinarmun á ástæðunum annarsvegar og hinsvegar forsendunum sem gera landnám mögulegt. Til þess að landnám geti átt sér stað þarf að vera til þekking á landinu sem nema á – hvar það er og hvaða kostum það er búið – og það þarf að vera til tækni til að flytja fólk þangað (til dæmis eldur sem gerði homo sapiens kleift að lifa af í Síberíu á síðustu ísöld). Oft er þessu blandað saman og talið til dæmis að ekki þurfi annarra skýringa við en að land hafi verið uppgötvað og þá hljóti landnám sjálfkrafa að fylgja í kjölfarið, eða að ný tækni sem gerir landnám kleift sé þar með orsök þess. Slíkar forsendur eru mikilvægar en þær duga ekki einar og sér til að skýra af hverju landnám á sér stað. Bæði landaþekking og tækni geta verið fyrir hendi án þess að landnám hljótist af og mjög oft er bæði landaleit og tækniþróun fremur afleiðing af því sem orsakar landnámið en forsenda. Því hefur til dæmis verið haldið fram með góðum rökum að landnám Íslands hafi leitt til tækniframfara í úthafssiglingum norrænna manna. Skipin sem voru notuð til að kanna landið og flytja fyrsta fólkið hingað út voru frumstæðari en þau sérhæfðu úthafssiglingaskip sem síðan voru smíðuð þegar reynsla var komin á þessar siglingar.

Til að skilja betur hvað getur orsakað landnám er einnig gagnlegt að gera greinarmun á þeim sem fá hugmyndina og skipuleggja landnámið og þeim sem framkvæma það. Stundum er þetta sama fólkið en iðulega ekki og oft er mun auðveldara að skilja hvað skipuleggjendunum gekk til en hinum sem lögðu land undir fót. Einföld gróðavon er algeng ástæða þess að fólk skipuleggur landnám. Frægt dæmi er Jamestown í Virginíu sem er elsta varanlega byggð Englendinga á austurströnd Norður-Ameríku. Nýlendan var stofnuð 1607 af hlutafélagi sem kaupmenn og hirðgæðingar í London efndu til í því augnamiði að græða feitt á gulli og silfri sem þeir töldu líklegt að þar væri að finna. Svo reyndist ekki og allt gekk fyrirtækið mjög brösuglega. Það var á endanum lagt niður með stórtapi hluthafa þó nýlendan næði smátt og smátt vopnum sínum með því að sérhæfa sig í ræktun tóbaks.

Hugmynd listamanns um útlit Jamestown í Virginíu um 1614.

Jamestown-nýlendan var stofnuð með konunglegu leyfi og konunglegri velþóknun og að hluta til lá þar að baki áhugi enskra stjórnvalda á að stemma stigu við áhrifum Spánverja í Vesturheimi. Mjög oft er utanríkispólitísk hagsmunagæsla ástæða landnáms og oftast eru það þannig sjónarmið sem ráða þegar kóngar, ríkisvaldið eða hagsmunaaðilar sem eru eins og ríki í ríkinu, aðalsmenn, stríðsherrar eða fyrirtæki, stofna til landnáms. Það er þá gert undir þeim formerkjum að styrkja þurfi vígstöðuna gagnvart samkeppnisaðilum. Þannig stóð franska krúnan fyrir nýlendu í Québec 1608, árið eftir að Jamestown var stofnað, og hafði talsvert fyrir því að lokka þangað landnema á næstu árum og áratugum. Seinna á 17. öld reyndu bæði Hollendingar og Svíar fyrir sér með nýlendur á austurströnd Ameríku, en þessar þjóðir óttuðust að ef Englendingar og Frakkar fengju að vera einir um hituna myndu völd þeirra og áhrif í Evrópu aukast ótæpilega. Þó að nýlendur hafi iðulega verið stofnaðar í nafni þjóðaröryggis eru gjarnan ýmiskonar framámenn og spekúlantar sem kynda undir og leiða jafnvel aðgerðir á vettvangi. Þeir gera það þá til þess að styrkja sína eigin pólitísku stöðu í heimalandinu og þannig er landnám oft upphaflega tilkomið sem liður í valdabaráttu. Þeir sem standa fyrir því vonast þá til að góður árangur styrki stöðu þeirra gagnvart samkeppnisaðilum.

Saman við þetta blandast oft hugmyndafræðilegar og trúarlegar ástæður. Trúboð er oft aðalástæða fyrir stofnun nýlendna og trúboð hefur gjarnan verið notað til að réttlæta og göfga landnám, jafnvel á sama tíma og unnið var ötullega að því að útrýma hinum innfæddu. En mjög oft eru það hugmyndir um að búa tilteknum hópum, sem eru á einhvern hátt á skjön í heimalandinu, nýjan samastað í nýju landi sem leiða til landnáms. Dæmi má taka af Baltimore barón en hann stofnaði nýlenduna Maryland á austurströnd Norður-Ameríku árið 1632 til að vera athvarf fyrir kaþólikka sem áttu erfitt uppdráttar í Englandi um þær mundir. Í nágrannanýlendunni Pennsylvaníu vildi stofnandinn, William Penn, ekki aðeins búa til samastað fyrir kvekara, sem sættu ofsóknum í Englandi, heldur einnig setja á stofn fyrirmyndarríki sem byggði á skynsemi, réttlæti og jöfnum tækifærum. Útópískar hugmyndir af ýmsu tagi eru raunar áberandi í ráðagerðum um landnám og sér í lagi áróðri sem rekinn er fyrir landnámi.

Þrælar reknir til strandar í Afríku á 18. öld. Þrælar, fangar, hermenn og aðrir sem ekki réðu ferðum sínum sjálfir eru oft stór hluti þess fólks sem tók þátt í landnámi. Ekki þarf að spyrja að ástæðum þeirra. Lituð trérista eftir Frederic Shoberl (1775–1853).

Fjórðu meginástæðuna sem greina má hjá skipuleggjendum landnáms má einfaldlega kalla stjórnarstefnu. Það er þegar stjórnvöld telja sig geta leyst vandamál með því að flytja fólk á nýjan stað. Nauðungarflutningum – herleiðingum – á herteknu eða undirokuðu fólki, oft þjóðum eða ættbálkum, hefur verið beitt sem stjórntæki allt frá fornöld til okkar daga og nýlendur hafa verið stofnaðar sérstaklega til að taka við föngum og öðru fólki sem talið er óæskilegt heimafyrir. Oft og tíðum er landnám einnig bein afleiðing af hernaðaraðgerðum, skipulagt til að treysta tök á hernumdu landi. En stjórnvöld geta náð samskonar markmiðum með mildari aðferðum, með því að lokka fólk, oft tiltekna markhópa, til að koma sjálfviljugt á hinn nýja stað.

Mjög oft fara allar þessar ástæður saman að meira eða minna leyti en ljóst má vera af þessu yfirliti að margt af því fólki sem tók þátt í landnámi hafði sjálft enga ástæðu til þess – þeim var nauðugur einn kostur. Stórt hlutfall allra landnema er fólk sem ekkert hafði um ferðir sínar að segja. Það eru fangar og þrælar, og hermenn sem sjaldnast eru spurðir álits um hvert þeir eru sendir. En margar af þessum ástæðum byggja líka á því að til sé fólk sem er reiðubúið að flytja þegar tækifæri gefst.

Greina má þrennskonar meginástæður fyrir slíkum ákvörðunum einstaklinga og fjölskyldna: Í fyrsta lagi eru trúarlegar ástæður líka áberandi hjá landnemunum sjálfum. Þar sem landnám er skipulagt af trúarlegum ástæðum geta ástæður skipuleggjendanna og landnemanna farið saman, en trúarlegar eða hugmyndafræðilegar ástæður eru líka algengar meðal landnema yfirleitt. Stundum er það vegna ofsókna eða réttindaleysis í heimalandinu en stundum eru það fremur hugsjónir um betra samfélag sem eru drifkrafturinn.

Þátttaka í fyrstu skrefum landnáms á nýjum stað er slík áhættuhegðun að yfir það ná engar vel skiljanlegar ástæður aðrar en ævintýramennska. Iðulega eru þannig skref tekin af litlum hópum ungra karlmanna sem hafa flosnað upp úr sínum heimahögum og hafa litlu að tapa (öðru en lífinu sem tapast oft við slíkar aðstæður) en til margs að vinna. En þó að framlag ævintýramanna sé oft mikilvægt fyrir eftirleikinn eru þeir sjaldnast stórt hlutfall af heildarfjölda landnámsfólks á hverjum stað.

Franskar landnámskonur stíga á land í Quebec 1667. Þó meir en hálf öld væri liðin frá stofnun nýlendunnar var þar enn mikill kynjahalli, ein kona fyrir hverja 6 karla, sem þýddi að náttúruleg fjölgun var afar hæg. Til að kippa þessu í liðinn réðst Lúðvík XIV. í átak og útnefndi þær konur sem fengust til að sigla til Kanada filles du roi – dætur konungsins. Málverk eftir Eleanor Fortescue-Brickdale (1872–1945).

Það sem best lýsir aðstæðum og væntingum annarra landnámsmanna er að það sé fólk sem telur sig standa höllum fæti í heimalandinu og að það sé því áhættunnar virði að reyna að bæta stöðu sína með því að taka þátt í landnámi. Oftast er þetta fólk sem á nóg undir sér til að komast á nýja staðinn og geta vænst þess að koma undir sig fótunum þar. Það þarf ekki að vera meira en æska og góð heilsa, eitthvað til að spila úr sem fólk metur að sé líklegra að skili því, eða afkomendum þess, bættum aðstæðum á nýjum stað en í heimalandinu. Mjög oft fer landnám saman við uppgang í heimalandinu. Þegar efnahagsleg og félagsleg staða margra batnar þá er alltaf annað fólk sem nýtur ekki ávinningsins af uppganginum að sama skapi og það er úr þeim hópi sem landnemar eru líklegastir til að koma. Þó hinu gagnstæða sé oft haldið fram eru engin sérstök tengsl á milli landnáms og áfalla sem geta hrakið fólk á flótta (stríðs, hungursneyðar, náttúruhamfara, farsótta eða efnahagshruns). Fyrir tíma nútímasamgangna komst flóttafólk sjaldnast langt og aðeins það efnameira í þeim hópi var líklegt til að velja landnám sem lausn á sínum vanda.

Í lokin má velta fyrir sér hvernig við horfum á landnám Íslands í þessu ljósi. Bakgrunnurinn liggur í umróti víkingaaldar og forsendurnar eru auknar sjóferðir – fleiri skip, meiri reynsla af úthafssiglingum – og víðari sjóndeildarhringur sem gerði að verkum að fleira fólk sá tækifæri í að leggja land undir fót. Ævintýramennska var í meiri samfélagslegum metum en bæði fyrr og síðar og góð rök hafa verið færð fyrir því að það hafi verið ævintýramenn í leit að rostungstönnum – skjótfengnum gróða – sem fundu út úr því hvernig sigla mætti til Íslands, könnuðu landið og voru sennilega langt komnir með að eyða þeim rostungalátrum sem hér voru þegar annarskonar fólk byrjaði að reyna fyrir sér með fasta búsetu. Mjög erfitt er að festa hendur á hvað því fólki gekk til og hvort það var fólk sem kom hingað út á eigin forsendum – eins og höfundar Landnámabókar ímynduðu sér – eða hvort það var gert út af einhverjum skipuleggjendum. Líklegt er að slíkar tilraunir hafi að minnsta kosti þurft bakhjarla, einhverja sem lögðu til skip og búnað og studdu við fyrirtækið til dæmis með því að safna þátttakendum í leiðangurinn. Vel er hugsanlegt að þeir þátttakendur hafi ekki allir farið sjálfviljugir – að sumir hafi verið þrælar og aðrir hafi verið skuldbundið fólk sem hafði ekki raunverulegt val. Bakhjarlarnir hafa séð sér hag – líklega fremur pólitískan en fjárhagslegan – í því að stofna til landnáms. Það hefur getað styrkt stöðu þeirra í valdabaráttu þar sem þeir voru – hvort sem það var í Skandinavíu eða byggðum norrænna manna á Bretlandseyjum. Þegar fréttir fóru að berast af því að slíkar tilraunir væru farnar að bera árangur, að byggð væri farin að festast í sessi, þá hefur fjölgað öðrum mögulegum bakhjörlum sem hefur fundist þeir þyrftu að hoppa á sama vagn. Eins og Hollendingum og Svíum á 17. öld hefur þeim fundist óhyggilegt að leyfa öðrum að vera einir um hituna. Fleiri hafa viljað njóta mögulegs ábata, þó ekki væri nema til annars en að koma í veg fyrir að samkeppnisaðilar högnuðust of mikið. Með slíkum rökum má reyna að skýra ástæður þeirra sem lögðu til tæki, búnað og mannafla, og með sama hætti má leggja til að þeir landnemar sem komu til Íslands af sjálfsdáðum hafi verið fólk sem taldi sig ekki njóta sama ávinnings af uppgangi víkingaaldar og aðrir.

Heimildir og myndir:

  • Bailyn, Bernard 2012, The Barbarous Years. The Peopling of North America. The Conflict of Civilizations, 1600-1675, New York: Knopf.
  • Bailyn, Bernard & Barbara DeWolfe 1986, Voyages to the West. A Passage in the Peopling of America on the Eve of Revolution, New York: Knopf.
  • Fernandez-Armesto, Felipe 2006, Pathfinders. A global history of exploration, Oxford: Oxford University Press.
  • Ferro, Marc 1997, Colonization: A Global History, transl. K.D. Prithipaul, London: Routledge.
  • Gamble, Clive 1993, Timewalkers. The Prehistory of Global Colonization, Stroud: Alan Sutton.
  • Gunnar Karlsson 2016, Landnám Íslands, Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Ness, Immanuel ed. 2013, The Encyclopedia of Global Human Migration, Blackwell. DOI: 10.1002/9781444351071
  • Orri Vésteinsson 2010, ‘Landnám ímyndunaraflsins.’ Vísindavefur. Ritgerðasafn til heiðurs Þorsteini Vilhjálmssyni sjötugum, Einar H. Guðmundsson ofl. ritstj., Reykjavík, 185-94.
  • Orri Vésteinsson 2010, ‘Ethnicity and class in settlement period Iceland.’ The Viking Age: Ireland and the West. Papers from the Proceedings of the Fifteenth Viking Congress, Cork, 18-27 August 2005, J. Sheehan & D. Ó Corráin eds., Dublin: Four Courts Press, 494-510.
  • Orri Vésteinsson, Thomas H. McGovern & Christian Keller 2002, ‘Enduring Impacts: Social and Environmental Aspects of Viking Age Settlement in Iceland and Greenland.’ Archaeologia islandica 2, 98-136.
  • Rockman, Marcy & James Steele eds. 2003, Colonization of unfamiliar landscapes. The archaeology of adaptation, London/New York: Routledge.
  • First Fleet entering Sydney 1788 Bradley.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 26.10.2021).
  • Jamestown – Store norske leksikon. (Sótt 27.10.2021).
  • A Chain of Slaves travelling from the Interior - Encyclopediavirginia.org . (Sótt 26.10.2021).
  • Arrival of the Brides - Eleanor Fortescue-Brickdale.png - Wikimedia Commons. (Sótt 26.10.2021).

Höfundur

Orri Vésteinsson

prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

2.11.2021

Spyrjandi

Hafdís Alda Hafdal

Tilvísun

Orri Vésteinsson. „Hverjar eru helstu ástæður landnáms?“ Vísindavefurinn, 2. nóvember 2021, sótt 8. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82323.

Orri Vésteinsson. (2021, 2. nóvember). Hverjar eru helstu ástæður landnáms? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82323

Orri Vésteinsson. „Hverjar eru helstu ástæður landnáms?“ Vísindavefurinn. 2. nóv. 2021. Vefsíða. 8. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82323>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjar eru helstu ástæður landnáms?
Landnám köllum við það þegar fólk eða dýr setjast að þar sem þau hafa ekki verið áður. Í þessu svari verður fjallað um ástæður þess að fólk nemur land og tekin dæmi bæði af því þegar fólk nemur óbyggt land – eins og gerðist á Íslandi í lok 9. aldar – og þegar það ryður úr vegi fyrri íbúum og byggir nýtt samfélag að mestu eða öllu leyti óháð því eldra. Dæmi um hið síðarnefnda eru mun fleiri í seinni alda sögu, einkum í Ameríku og úr Suðurhöfum.

Þó að mikilvægur munur sé á þessu tvennu – ekki síst að fyrstu skref landnáms í löndum þar sem fólk bjó fyrir eru að jafnaði mun auðveldari vegna aðstoðar frumbyggjanna og vegna þess að átök við þá setja síðan meira eða minna mark á þróun landnámsins – er hvorttveggja ólíkt því þegar innflytjendur setjast að í rótgrónum samfélögum. Innflytjendur í rótgrónum samfélögum þurfa iðulega að kljást við fordóma og margs konar hindranir og örðugleika, og þeir eru fæstir í góðri aðstöðu til að eignast til dæmis land á hinum nýja stað. Þeir þurfa að finna sér stað í samfélaginu sem þeir flytja í en fólk sem nemur land þarf að byggja nýtt samfélag frá grunni. Í því geta falist ýmiskonar tækifæri, sem geta varpað ljósi á af hverju fólk leggur út í slík ævintýri, en ótvírætt er einnig að landnám er mun áhættusamara og erfiðara fyrir einstaklingana – landnemana – en fólksflutningar til rótgróinna samfélaga. Dánar- og brotthvarfstíðni fyrstu landnema á nýjum stað er oft 100% – flest landnám mistakast nefnilega – og mörg dæmi eru um landnám þar sem dánartíðni var margföld á við heimalöndin í marga áratugi áður en jafnvægi komst á. Þó ekki væri nema út af þessu einu – að þátttaka í landnámi felur í sér lífshættu – er áhugavert að reyna að skilja af hverju fólk leggur út í að nema ný lönd.

Fyrsti flotinn siglir inn í Port Jackson á Ástralíu 27. janúar 1788. Þar voru Bretar fyrstir Evrópubúa til að nema land og stofnuðu fanganýlendu. Málverk eftir William Bradley (1758–1833).

Þegar fjallað er um ástæður landnáms er gagnlegt að gera greinarmun á ástæðunum annarsvegar og hinsvegar forsendunum sem gera landnám mögulegt. Til þess að landnám geti átt sér stað þarf að vera til þekking á landinu sem nema á – hvar það er og hvaða kostum það er búið – og það þarf að vera til tækni til að flytja fólk þangað (til dæmis eldur sem gerði homo sapiens kleift að lifa af í Síberíu á síðustu ísöld). Oft er þessu blandað saman og talið til dæmis að ekki þurfi annarra skýringa við en að land hafi verið uppgötvað og þá hljóti landnám sjálfkrafa að fylgja í kjölfarið, eða að ný tækni sem gerir landnám kleift sé þar með orsök þess. Slíkar forsendur eru mikilvægar en þær duga ekki einar og sér til að skýra af hverju landnám á sér stað. Bæði landaþekking og tækni geta verið fyrir hendi án þess að landnám hljótist af og mjög oft er bæði landaleit og tækniþróun fremur afleiðing af því sem orsakar landnámið en forsenda. Því hefur til dæmis verið haldið fram með góðum rökum að landnám Íslands hafi leitt til tækniframfara í úthafssiglingum norrænna manna. Skipin sem voru notuð til að kanna landið og flytja fyrsta fólkið hingað út voru frumstæðari en þau sérhæfðu úthafssiglingaskip sem síðan voru smíðuð þegar reynsla var komin á þessar siglingar.

Til að skilja betur hvað getur orsakað landnám er einnig gagnlegt að gera greinarmun á þeim sem fá hugmyndina og skipuleggja landnámið og þeim sem framkvæma það. Stundum er þetta sama fólkið en iðulega ekki og oft er mun auðveldara að skilja hvað skipuleggjendunum gekk til en hinum sem lögðu land undir fót. Einföld gróðavon er algeng ástæða þess að fólk skipuleggur landnám. Frægt dæmi er Jamestown í Virginíu sem er elsta varanlega byggð Englendinga á austurströnd Norður-Ameríku. Nýlendan var stofnuð 1607 af hlutafélagi sem kaupmenn og hirðgæðingar í London efndu til í því augnamiði að græða feitt á gulli og silfri sem þeir töldu líklegt að þar væri að finna. Svo reyndist ekki og allt gekk fyrirtækið mjög brösuglega. Það var á endanum lagt niður með stórtapi hluthafa þó nýlendan næði smátt og smátt vopnum sínum með því að sérhæfa sig í ræktun tóbaks.

Hugmynd listamanns um útlit Jamestown í Virginíu um 1614.

Jamestown-nýlendan var stofnuð með konunglegu leyfi og konunglegri velþóknun og að hluta til lá þar að baki áhugi enskra stjórnvalda á að stemma stigu við áhrifum Spánverja í Vesturheimi. Mjög oft er utanríkispólitísk hagsmunagæsla ástæða landnáms og oftast eru það þannig sjónarmið sem ráða þegar kóngar, ríkisvaldið eða hagsmunaaðilar sem eru eins og ríki í ríkinu, aðalsmenn, stríðsherrar eða fyrirtæki, stofna til landnáms. Það er þá gert undir þeim formerkjum að styrkja þurfi vígstöðuna gagnvart samkeppnisaðilum. Þannig stóð franska krúnan fyrir nýlendu í Québec 1608, árið eftir að Jamestown var stofnað, og hafði talsvert fyrir því að lokka þangað landnema á næstu árum og áratugum. Seinna á 17. öld reyndu bæði Hollendingar og Svíar fyrir sér með nýlendur á austurströnd Ameríku, en þessar þjóðir óttuðust að ef Englendingar og Frakkar fengju að vera einir um hituna myndu völd þeirra og áhrif í Evrópu aukast ótæpilega. Þó að nýlendur hafi iðulega verið stofnaðar í nafni þjóðaröryggis eru gjarnan ýmiskonar framámenn og spekúlantar sem kynda undir og leiða jafnvel aðgerðir á vettvangi. Þeir gera það þá til þess að styrkja sína eigin pólitísku stöðu í heimalandinu og þannig er landnám oft upphaflega tilkomið sem liður í valdabaráttu. Þeir sem standa fyrir því vonast þá til að góður árangur styrki stöðu þeirra gagnvart samkeppnisaðilum.

Saman við þetta blandast oft hugmyndafræðilegar og trúarlegar ástæður. Trúboð er oft aðalástæða fyrir stofnun nýlendna og trúboð hefur gjarnan verið notað til að réttlæta og göfga landnám, jafnvel á sama tíma og unnið var ötullega að því að útrýma hinum innfæddu. En mjög oft eru það hugmyndir um að búa tilteknum hópum, sem eru á einhvern hátt á skjön í heimalandinu, nýjan samastað í nýju landi sem leiða til landnáms. Dæmi má taka af Baltimore barón en hann stofnaði nýlenduna Maryland á austurströnd Norður-Ameríku árið 1632 til að vera athvarf fyrir kaþólikka sem áttu erfitt uppdráttar í Englandi um þær mundir. Í nágrannanýlendunni Pennsylvaníu vildi stofnandinn, William Penn, ekki aðeins búa til samastað fyrir kvekara, sem sættu ofsóknum í Englandi, heldur einnig setja á stofn fyrirmyndarríki sem byggði á skynsemi, réttlæti og jöfnum tækifærum. Útópískar hugmyndir af ýmsu tagi eru raunar áberandi í ráðagerðum um landnám og sér í lagi áróðri sem rekinn er fyrir landnámi.

Þrælar reknir til strandar í Afríku á 18. öld. Þrælar, fangar, hermenn og aðrir sem ekki réðu ferðum sínum sjálfir eru oft stór hluti þess fólks sem tók þátt í landnámi. Ekki þarf að spyrja að ástæðum þeirra. Lituð trérista eftir Frederic Shoberl (1775–1853).

Fjórðu meginástæðuna sem greina má hjá skipuleggjendum landnáms má einfaldlega kalla stjórnarstefnu. Það er þegar stjórnvöld telja sig geta leyst vandamál með því að flytja fólk á nýjan stað. Nauðungarflutningum – herleiðingum – á herteknu eða undirokuðu fólki, oft þjóðum eða ættbálkum, hefur verið beitt sem stjórntæki allt frá fornöld til okkar daga og nýlendur hafa verið stofnaðar sérstaklega til að taka við föngum og öðru fólki sem talið er óæskilegt heimafyrir. Oft og tíðum er landnám einnig bein afleiðing af hernaðaraðgerðum, skipulagt til að treysta tök á hernumdu landi. En stjórnvöld geta náð samskonar markmiðum með mildari aðferðum, með því að lokka fólk, oft tiltekna markhópa, til að koma sjálfviljugt á hinn nýja stað.

Mjög oft fara allar þessar ástæður saman að meira eða minna leyti en ljóst má vera af þessu yfirliti að margt af því fólki sem tók þátt í landnámi hafði sjálft enga ástæðu til þess – þeim var nauðugur einn kostur. Stórt hlutfall allra landnema er fólk sem ekkert hafði um ferðir sínar að segja. Það eru fangar og þrælar, og hermenn sem sjaldnast eru spurðir álits um hvert þeir eru sendir. En margar af þessum ástæðum byggja líka á því að til sé fólk sem er reiðubúið að flytja þegar tækifæri gefst.

Greina má þrennskonar meginástæður fyrir slíkum ákvörðunum einstaklinga og fjölskyldna: Í fyrsta lagi eru trúarlegar ástæður líka áberandi hjá landnemunum sjálfum. Þar sem landnám er skipulagt af trúarlegum ástæðum geta ástæður skipuleggjendanna og landnemanna farið saman, en trúarlegar eða hugmyndafræðilegar ástæður eru líka algengar meðal landnema yfirleitt. Stundum er það vegna ofsókna eða réttindaleysis í heimalandinu en stundum eru það fremur hugsjónir um betra samfélag sem eru drifkrafturinn.

Þátttaka í fyrstu skrefum landnáms á nýjum stað er slík áhættuhegðun að yfir það ná engar vel skiljanlegar ástæður aðrar en ævintýramennska. Iðulega eru þannig skref tekin af litlum hópum ungra karlmanna sem hafa flosnað upp úr sínum heimahögum og hafa litlu að tapa (öðru en lífinu sem tapast oft við slíkar aðstæður) en til margs að vinna. En þó að framlag ævintýramanna sé oft mikilvægt fyrir eftirleikinn eru þeir sjaldnast stórt hlutfall af heildarfjölda landnámsfólks á hverjum stað.

Franskar landnámskonur stíga á land í Quebec 1667. Þó meir en hálf öld væri liðin frá stofnun nýlendunnar var þar enn mikill kynjahalli, ein kona fyrir hverja 6 karla, sem þýddi að náttúruleg fjölgun var afar hæg. Til að kippa þessu í liðinn réðst Lúðvík XIV. í átak og útnefndi þær konur sem fengust til að sigla til Kanada filles du roi – dætur konungsins. Málverk eftir Eleanor Fortescue-Brickdale (1872–1945).

Það sem best lýsir aðstæðum og væntingum annarra landnámsmanna er að það sé fólk sem telur sig standa höllum fæti í heimalandinu og að það sé því áhættunnar virði að reyna að bæta stöðu sína með því að taka þátt í landnámi. Oftast er þetta fólk sem á nóg undir sér til að komast á nýja staðinn og geta vænst þess að koma undir sig fótunum þar. Það þarf ekki að vera meira en æska og góð heilsa, eitthvað til að spila úr sem fólk metur að sé líklegra að skili því, eða afkomendum þess, bættum aðstæðum á nýjum stað en í heimalandinu. Mjög oft fer landnám saman við uppgang í heimalandinu. Þegar efnahagsleg og félagsleg staða margra batnar þá er alltaf annað fólk sem nýtur ekki ávinningsins af uppganginum að sama skapi og það er úr þeim hópi sem landnemar eru líklegastir til að koma. Þó hinu gagnstæða sé oft haldið fram eru engin sérstök tengsl á milli landnáms og áfalla sem geta hrakið fólk á flótta (stríðs, hungursneyðar, náttúruhamfara, farsótta eða efnahagshruns). Fyrir tíma nútímasamgangna komst flóttafólk sjaldnast langt og aðeins það efnameira í þeim hópi var líklegt til að velja landnám sem lausn á sínum vanda.

Í lokin má velta fyrir sér hvernig við horfum á landnám Íslands í þessu ljósi. Bakgrunnurinn liggur í umróti víkingaaldar og forsendurnar eru auknar sjóferðir – fleiri skip, meiri reynsla af úthafssiglingum – og víðari sjóndeildarhringur sem gerði að verkum að fleira fólk sá tækifæri í að leggja land undir fót. Ævintýramennska var í meiri samfélagslegum metum en bæði fyrr og síðar og góð rök hafa verið færð fyrir því að það hafi verið ævintýramenn í leit að rostungstönnum – skjótfengnum gróða – sem fundu út úr því hvernig sigla mætti til Íslands, könnuðu landið og voru sennilega langt komnir með að eyða þeim rostungalátrum sem hér voru þegar annarskonar fólk byrjaði að reyna fyrir sér með fasta búsetu. Mjög erfitt er að festa hendur á hvað því fólki gekk til og hvort það var fólk sem kom hingað út á eigin forsendum – eins og höfundar Landnámabókar ímynduðu sér – eða hvort það var gert út af einhverjum skipuleggjendum. Líklegt er að slíkar tilraunir hafi að minnsta kosti þurft bakhjarla, einhverja sem lögðu til skip og búnað og studdu við fyrirtækið til dæmis með því að safna þátttakendum í leiðangurinn. Vel er hugsanlegt að þeir þátttakendur hafi ekki allir farið sjálfviljugir – að sumir hafi verið þrælar og aðrir hafi verið skuldbundið fólk sem hafði ekki raunverulegt val. Bakhjarlarnir hafa séð sér hag – líklega fremur pólitískan en fjárhagslegan – í því að stofna til landnáms. Það hefur getað styrkt stöðu þeirra í valdabaráttu þar sem þeir voru – hvort sem það var í Skandinavíu eða byggðum norrænna manna á Bretlandseyjum. Þegar fréttir fóru að berast af því að slíkar tilraunir væru farnar að bera árangur, að byggð væri farin að festast í sessi, þá hefur fjölgað öðrum mögulegum bakhjörlum sem hefur fundist þeir þyrftu að hoppa á sama vagn. Eins og Hollendingum og Svíum á 17. öld hefur þeim fundist óhyggilegt að leyfa öðrum að vera einir um hituna. Fleiri hafa viljað njóta mögulegs ábata, þó ekki væri nema til annars en að koma í veg fyrir að samkeppnisaðilar högnuðust of mikið. Með slíkum rökum má reyna að skýra ástæður þeirra sem lögðu til tæki, búnað og mannafla, og með sama hætti má leggja til að þeir landnemar sem komu til Íslands af sjálfsdáðum hafi verið fólk sem taldi sig ekki njóta sama ávinnings af uppgangi víkingaaldar og aðrir.

Heimildir og myndir:

  • Bailyn, Bernard 2012, The Barbarous Years. The Peopling of North America. The Conflict of Civilizations, 1600-1675, New York: Knopf.
  • Bailyn, Bernard & Barbara DeWolfe 1986, Voyages to the West. A Passage in the Peopling of America on the Eve of Revolution, New York: Knopf.
  • Fernandez-Armesto, Felipe 2006, Pathfinders. A global history of exploration, Oxford: Oxford University Press.
  • Ferro, Marc 1997, Colonization: A Global History, transl. K.D. Prithipaul, London: Routledge.
  • Gamble, Clive 1993, Timewalkers. The Prehistory of Global Colonization, Stroud: Alan Sutton.
  • Gunnar Karlsson 2016, Landnám Íslands, Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Ness, Immanuel ed. 2013, The Encyclopedia of Global Human Migration, Blackwell. DOI: 10.1002/9781444351071
  • Orri Vésteinsson 2010, ‘Landnám ímyndunaraflsins.’ Vísindavefur. Ritgerðasafn til heiðurs Þorsteini Vilhjálmssyni sjötugum, Einar H. Guðmundsson ofl. ritstj., Reykjavík, 185-94.
  • Orri Vésteinsson 2010, ‘Ethnicity and class in settlement period Iceland.’ The Viking Age: Ireland and the West. Papers from the Proceedings of the Fifteenth Viking Congress, Cork, 18-27 August 2005, J. Sheehan & D. Ó Corráin eds., Dublin: Four Courts Press, 494-510.
  • Orri Vésteinsson, Thomas H. McGovern & Christian Keller 2002, ‘Enduring Impacts: Social and Environmental Aspects of Viking Age Settlement in Iceland and Greenland.’ Archaeologia islandica 2, 98-136.
  • Rockman, Marcy & James Steele eds. 2003, Colonization of unfamiliar landscapes. The archaeology of adaptation, London/New York: Routledge.
  • First Fleet entering Sydney 1788 Bradley.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 26.10.2021).
  • Jamestown – Store norske leksikon. (Sótt 27.10.2021).
  • A Chain of Slaves travelling from the Interior - Encyclopediavirginia.org . (Sótt 26.10.2021).
  • Arrival of the Brides - Eleanor Fortescue-Brickdale.png - Wikimedia Commons. (Sótt 26.10.2021).

...