Sólin Sólin Rís 09:35 • sest 16:47 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:54 • Sest 21:49 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:43 • Síðdegis: 23:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:07 • Síðdegis: 17:18 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:35 • sest 16:47 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:54 • Sest 21:49 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:43 • Síðdegis: 23:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:07 • Síðdegis: 17:18 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig fóru vísindamenn að því að tímasetja nákvæmlega hvenær víkingar voru í Ameríku?

Orri Vésteinsson

Um ferðir norrænna manna til austurstrandar Ameríku eru til heimildir skrifaðar á 13. öld – Eiríks saga rauða og Grænlendinga saga – en höfundar þeirra töldu að leiðangrarnir sem sagt er frá hefðu verið skipulagðir af fyrstu kynslóð landnema á Grænlandi, það er á áratugunum eftir 980 eða svo.

Fornleifafræðileg staðfesting á því að slíkir leiðangrar hafi átt sér stað fékkst þegar mannvistarleifar fundust í L’anse aux Meadows, á norðurenda Nýfundnalands, árið 1962. Byggingar úr torfi og grjóti, ummerki um járnsmíði og gripir með auðþekkjanlegu norrænu lagi sýndu að þarna hefði norrænt fólk haft viðdvöl. Gripsafnið er fátæklegt og fátt í því sem nota má til tímasetningar en þó er meðal annars einn hringprjónn af gerð sem fundist hefur í mannvistarleifum frá seinni hluta 10. aldar bæði á Írlandi og Íslandi. Tímasetning hans er þó ekki nákvæm og liggur á bilinu 950-1050 með allvíðum skekkjumörkum í báðar áttir.

Árið 1962 fundust mannvistarleifar norrænna manna í L’anse aux Meadows, á norðurenda Nýfundnalands. Á myndinni sjást leifar bygginga á svæðinu.

Uppgröftur stóð yfir í L’anse aux Meadows frá 1962 til 1976, einmitt á þeim árum þegar aldursgreiningar með geislakolsaðferð voru að ryðja sér til rúms innan fornleifafræðinnar. Mikill fjöldi sýna var tekinn og gerðar voru kolefnisaldursgreiningar á 55 sýnum. Sem heild gefa þau aldur á mjög víðu bili, frá um 600 til 1200 e.Kr. en stærsti hluti þeirra eru úr efnum sem reynslan hefur sýnt að henta ekki vel til að fá nákvæmar niðurstöður. Það eru einkum efni eins og trjáleifar með óþekktan eigin aldur – þar sem óvissa er um hversu gamall viðurinn var þegar hann lenti í mannvistarlögunum. Aðeins fjögur sýni voru á spýtum með rysju (ysta lag viðarins undir berkinum) – sem geta ekki hafa verið nema nokkurra ára gömul þegar þeim var hent – og þau gefa öll niðurstöður sem liggja á bilinu um 975 til 1050.

Ritheimildir, gripir og geislakolsaldusrgreiningar gefa því samskonar niðurstöðu: norrænir menn komu til Nýfundnalands í lok 10. eða á fyrri hluta 11. aldar.

Mynd sem fylgir grein um nýjar niðurstöður um aldur lífrænna leifa frá L‘anse aux Meadows og sýnir muninn á nákvæmni eldri greininga (a og b) og hinna nýju (c). Í a eru sýni með óþekktan eigin aldur (hvalbein (ljósblá lína), óbrenndur viður (rauð), brenndur viður (brún) og viðarkol (svört), b eru sýni með þekktan eigin aldur (byggingatorf (ljósgræn) og telgdar spýtur með rysju (ólívu). Línurnar tákna meðaltal líkindadreifingar fyrir hvern efnisflokk. c sýnir líkindadreifinguna fyrir yngsta árhringinn í sýnunum þremur sem nú hafa verið greind.

Nú hafa verið birtar niðurstöður rannsókna á viðarsýnum úr uppgreftinum á L‘anse aux Meadows þar sem notast er við nýja aðferð. Sýnt hefur verið fram á að sólstormur árið 993 orsakaði snögga breytingu í hlutfalli geislavirks kolefnis í andrúmsloftinu og að ummerki um þessa breytingu sjást í trjám um alla jörð. Þar sem tré mynda árlega vaxtahringi er mögulegt að finna hringinn þar sem breytingin verður og telja síðan hringina sem mynduðust þangað til tréð dó. Til að finna sólstormsárið getur þurft að mæla hlutfall geislavirka efnisins (samsæturnar) í mörgum árhringjum og tréð verður auðvitað að hafa verið á lífi þegar stormurinn varð til að þetta sé hægt. Þetta tókst með þrjú viðarsýni frá L‘anse aux Meadows og var niðurstaðan sú að þau eru öll úr trjám sem dóu árið 1021. Þau geta hafa verið felld þetta ár af leiðangursmönnum sem voru að byggja búðir sínar eða gera við skip sín en ekki er hægt að útiloka að trén hafi dáið á sama tíma af náttúrulegum orsökum og þá segir niðurstaðan okkur að mannaferðin hafi átt sér stað eftir þennan tíma.

Heimildir og myndir:

  • Kuitems, M., Wallace, B.L., Lindsay, C. ofl. 2021, Evidence for European presence in the Americas in ad 1021. Nature. (Sótt 21.10.2021).
  • Wallace, Birgitta L. 2003, ‘L’anse aux Meadows and Vinland. An abandoned experiment.’ J. Barrett ritstj. Contact, Continuity, and Collapse: the Norse Colonization of the North Atlantic, Turnhout: Brepols, bls. 207–38.
  • Mynd frá L’Anse aux Meadows: LanseAuxMeadows LargeBuilding.JPG. Höfundur myndar: Clinton Pierce. Birt undir CC BY-SA 3.0 leyfi. (Sótt 21.10.2021).
  • Graf: Kuitems, M. o.fl. - sjá hér fyrir ofan. (Sótt 21.10.2021).

Höfundur

Orri Vésteinsson

prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

22.10.2021

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Orri Vésteinsson. „Hvernig fóru vísindamenn að því að tímasetja nákvæmlega hvenær víkingar voru í Ameríku?“ Vísindavefurinn, 22. október 2021, sótt 8. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82626.

Orri Vésteinsson. (2021, 22. október). Hvernig fóru vísindamenn að því að tímasetja nákvæmlega hvenær víkingar voru í Ameríku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82626

Orri Vésteinsson. „Hvernig fóru vísindamenn að því að tímasetja nákvæmlega hvenær víkingar voru í Ameríku?“ Vísindavefurinn. 22. okt. 2021. Vefsíða. 8. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82626>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig fóru vísindamenn að því að tímasetja nákvæmlega hvenær víkingar voru í Ameríku?
Um ferðir norrænna manna til austurstrandar Ameríku eru til heimildir skrifaðar á 13. öld – Eiríks saga rauða og Grænlendinga saga – en höfundar þeirra töldu að leiðangrarnir sem sagt er frá hefðu verið skipulagðir af fyrstu kynslóð landnema á Grænlandi, það er á áratugunum eftir 980 eða svo.

Fornleifafræðileg staðfesting á því að slíkir leiðangrar hafi átt sér stað fékkst þegar mannvistarleifar fundust í L’anse aux Meadows, á norðurenda Nýfundnalands, árið 1962. Byggingar úr torfi og grjóti, ummerki um járnsmíði og gripir með auðþekkjanlegu norrænu lagi sýndu að þarna hefði norrænt fólk haft viðdvöl. Gripsafnið er fátæklegt og fátt í því sem nota má til tímasetningar en þó er meðal annars einn hringprjónn af gerð sem fundist hefur í mannvistarleifum frá seinni hluta 10. aldar bæði á Írlandi og Íslandi. Tímasetning hans er þó ekki nákvæm og liggur á bilinu 950-1050 með allvíðum skekkjumörkum í báðar áttir.

Árið 1962 fundust mannvistarleifar norrænna manna í L’anse aux Meadows, á norðurenda Nýfundnalands. Á myndinni sjást leifar bygginga á svæðinu.

Uppgröftur stóð yfir í L’anse aux Meadows frá 1962 til 1976, einmitt á þeim árum þegar aldursgreiningar með geislakolsaðferð voru að ryðja sér til rúms innan fornleifafræðinnar. Mikill fjöldi sýna var tekinn og gerðar voru kolefnisaldursgreiningar á 55 sýnum. Sem heild gefa þau aldur á mjög víðu bili, frá um 600 til 1200 e.Kr. en stærsti hluti þeirra eru úr efnum sem reynslan hefur sýnt að henta ekki vel til að fá nákvæmar niðurstöður. Það eru einkum efni eins og trjáleifar með óþekktan eigin aldur – þar sem óvissa er um hversu gamall viðurinn var þegar hann lenti í mannvistarlögunum. Aðeins fjögur sýni voru á spýtum með rysju (ysta lag viðarins undir berkinum) – sem geta ekki hafa verið nema nokkurra ára gömul þegar þeim var hent – og þau gefa öll niðurstöður sem liggja á bilinu um 975 til 1050.

Ritheimildir, gripir og geislakolsaldusrgreiningar gefa því samskonar niðurstöðu: norrænir menn komu til Nýfundnalands í lok 10. eða á fyrri hluta 11. aldar.

Mynd sem fylgir grein um nýjar niðurstöður um aldur lífrænna leifa frá L‘anse aux Meadows og sýnir muninn á nákvæmni eldri greininga (a og b) og hinna nýju (c). Í a eru sýni með óþekktan eigin aldur (hvalbein (ljósblá lína), óbrenndur viður (rauð), brenndur viður (brún) og viðarkol (svört), b eru sýni með þekktan eigin aldur (byggingatorf (ljósgræn) og telgdar spýtur með rysju (ólívu). Línurnar tákna meðaltal líkindadreifingar fyrir hvern efnisflokk. c sýnir líkindadreifinguna fyrir yngsta árhringinn í sýnunum þremur sem nú hafa verið greind.

Nú hafa verið birtar niðurstöður rannsókna á viðarsýnum úr uppgreftinum á L‘anse aux Meadows þar sem notast er við nýja aðferð. Sýnt hefur verið fram á að sólstormur árið 993 orsakaði snögga breytingu í hlutfalli geislavirks kolefnis í andrúmsloftinu og að ummerki um þessa breytingu sjást í trjám um alla jörð. Þar sem tré mynda árlega vaxtahringi er mögulegt að finna hringinn þar sem breytingin verður og telja síðan hringina sem mynduðust þangað til tréð dó. Til að finna sólstormsárið getur þurft að mæla hlutfall geislavirka efnisins (samsæturnar) í mörgum árhringjum og tréð verður auðvitað að hafa verið á lífi þegar stormurinn varð til að þetta sé hægt. Þetta tókst með þrjú viðarsýni frá L‘anse aux Meadows og var niðurstaðan sú að þau eru öll úr trjám sem dóu árið 1021. Þau geta hafa verið felld þetta ár af leiðangursmönnum sem voru að byggja búðir sínar eða gera við skip sín en ekki er hægt að útiloka að trén hafi dáið á sama tíma af náttúrulegum orsökum og þá segir niðurstaðan okkur að mannaferðin hafi átt sér stað eftir þennan tíma.

Heimildir og myndir:

  • Kuitems, M., Wallace, B.L., Lindsay, C. ofl. 2021, Evidence for European presence in the Americas in ad 1021. Nature. (Sótt 21.10.2021).
  • Wallace, Birgitta L. 2003, ‘L’anse aux Meadows and Vinland. An abandoned experiment.’ J. Barrett ritstj. Contact, Continuity, and Collapse: the Norse Colonization of the North Atlantic, Turnhout: Brepols, bls. 207–38.
  • Mynd frá L’Anse aux Meadows: LanseAuxMeadows LargeBuilding.JPG. Höfundur myndar: Clinton Pierce. Birt undir CC BY-SA 3.0 leyfi. (Sótt 21.10.2021).
  • Graf: Kuitems, M. o.fl. - sjá hér fyrir ofan. (Sótt 21.10.2021).

...