Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Landnám norrænna manna hófst á Íslandi 874. Um það leyti sem landið var að verða fullnumið var landnámsmaður að nafni Úlfljótur sendur til Noregs til að kynna sér lög. Átti hann að setja saman lög fyrir Ísland því menn sáu þörf á að ein lög giltu í landinu. Hann var þrjá vetur í Noregi og kom til baka með lögin um 921. Lögin voru formlega sett árið 930 og þar með var Alþingi stofnað og þjóðveldinu komið á. Þessi fyrstu lög þjóðveldisins voru nefnd Úlfljótslög. Lögin voru færð í letur veturinn 1117-18 á Breiðabólsstað í V-Húnavatnssýslu. Þjóðveldið stóð frá 930 allt þar til Íslendingar gengust undir Noregskonung á árunum 1262-4. Lög þjóðveldisins giltu þó lengur eða til 1271-4.
Tvö góð handrit af þjóðveldislögunum hafa varðveist auk handritabrota. Þessi handritasöfn af lögum þjóðveldisins hafa verið nefnd einu nafni Grágás. Upplagt hefði verið fyrir Úlfljót að opna framsögu sína á hinum nýju lögum fyrir Ísland með orðunum: „Með lögum skal land byggja“ en hann hefur trúlega ekki gert það því þessi ákvæði er ekki að finna í Grágás. Sennilega hefur þetta orðtak ekki verið komið inn í norsk lög á þessum tíma og þess vegna ekki borist í Grágás.
Staðarhólsbók Grágásar og Járnsíða.
Þar sem stjórnarhættir voru breyttir og Ísland komið undir Noregskonung þurfti að breyta lögum landsins. Noregskonungur lét því gera lögbók fyrir Íslendinga. Hún var nefnd Járnsíða og var lögtekin á árunum 1271-4. Þá fyrst kom umrætt orðatiltæki inn í íslenskan rétt en í 3. kafla þingfararbálks Járnsíðu segir:
… því að með lögum skal land vort byggja en eigi með ólögum eyða. En sá er eigi vill öðrum laga unna, hann skal eigi laga njóta.
Íslendingum fannst Járnsíða léleg lögbók. Magnús Hákonarson Noregskonungur (1238-1280) var mikill lagabætir og fékk hann Jón Einarsson lögmann og fleiri til að setja saman nýja lögbók fyrir Ísland. Jón Einarsson og Loðinn leppur sendimaður konungs lögðu lögbókina fyrir Íslendinga vorið 1280. Lögbókin var samþykkt á Alþingi árið eftir eða 1281. Snemma á 14. öld var farið að kenna hana við fyrrnefndan Jón og hún nefnd Jónsbók. Jónsbók byggði mun meira á Grágás en Járnsíða hafði gert. Íslendingar voru ánægðir með lögbókina og var hún gildandi réttur í 400 ár en þá fór að fjara undan henni en ekki meira en svo að ennþá er rúmur tíundi hluti hennar gildandi réttur á Íslandi.
Tilvitnað ákvæði Járnsíðu var ekki sett í Jónsbók. Orðtakið „með lögum skal land byggja“ var því skemur en 10 ár í íslenskum lögbókum og hefði áreiðanlega ekki fengið mikla festu hér á landi nema fyrir tilstilli Njálu. Í Njálssögu segir frá því að eftir að Mörður hafði sakað Gunnar um sáttarof hafi Njáll sagt: „Eigi er það sættarrof ... að hver hafi lög við annan því að með lögum skal land vort byggja en með ólögum eyða.“ Orðatiltækið fékk svo miklu síðar stóran frama þegar það var gert að einkunnarorðum íslensku lögreglunnar og sett í stjörnu hennar ásamt hefðbundnum vopnum Njáluverja.
Einkunnarorð Hjaltlandseyja eru 'með lögum skal land byggja' og koma þau fram í skjaldarmerki eyjanna.
Íslenskir lögspekingar hafa áreiðanlega ekki getað sætt sig við ákvæðið sem spyrt er við orðtakið, það er „ ... sá er eigi vill öðrum laga unna hann skal eigi laga njóta“. Þetta þýðir að sá sem brýtur lögin er þar með ætíð orðinn réttlaus og getur ekki nýtt sér lögin, sem er ekki góð lögfræði. Orðin minna meira á óframkvæmanlegt fullyrðingasamt meint spakmæli en lagatexta. Slíkt er ekki heppilegt að hafa í lögum. Íslendingar vildu þessa setningu á brott og vel má vera að orðtakið, „með lögum skal land byggja“ hafi einfaldlega fengið að sigla sinn sjó í leiðinni vegna þess að það stóð í sömu málsgrein, enda er orðtakið ekki meira en almennt spakmæli sem hefur takmarkaðan lagalegan tilgang en er ef til vill ágæt fyrirsögn, yfirlýsing eða markmið. Magnús lagabætir virðist hafa verið sammála íslensku lögspekingunum því hann hafði þetta ákvæði ekki í norsku lögbókinni.
Uppruni utan Íslands
Orðtakið finnst í norrænum lögum. Það er trúlega elst í norsku Frostaþingslögunum sem eru frá tíð Magnúsar góða (1024-1047). Þar segir í þingfararbálki: „Med lov skal landet vårt byggjast, og ikkje med ulov öydast. Og den som ikkje vil unna andre lov, han skal ikkje nyta lov.“ Þessi lög eru til í handritabroti frá um 1250. Ákvæðið var í Jótalögum frá 1241 því í dönskum annálum segir að Valdemar konungur hafi gefið út lög sem byrja svo: „Med lov skal ein land byggja“. Í sænsku Upplandalögum segir: „Landi skal byggjast med lov og ikkje med valdsverk. Far då går det landi vel, når lovi vert fylgd.“
Það er mögulegt að rekja orðatiltækið til rómarréttar. Í lögum Jústiníanusar keisara (482-565), nánar tiltekið í hlutanum sem nefndur er Digesta er haft eftir Sextusi Pomponiusi, sem var uppi á 2. öld e.Kr.:
Postea, ne diutius hoc fieret, placuit publica auctoritate decem constitui viros, per quos peterentur leges a graecis civitatibus et civitas fundaretur legibus. [...]
Hér er verið að tala um ákvörðun, sem Rómverjar tóku um miðja 5. öld f.Kr., um að leita grískra fyrirmynda fyrir tólf taflna lögin, fyrstu skráðu lög Rómverja. Sæmilega orðrétt þýðing er á þessa leið:
Eftir [það], til þess að þetta gerðist ekki lengur, var ákveðið í samræmi við almenningsvilja að tíu menn væru valdir, til þess að fyrir atbeini þeirra væri leitað laga frá grískum borgum og til þess að landið væri með lögum byggt.
Svo mætti umorða örlítið til þess að gera þetta læsilegra án þess að inntakið breytist:
Að svo búnu – til að þetta gerðist ekki lengur – var ákveðið í samræmi við almenningsvilja að tíu menn væru valdir, til þess að leita laga frá grískum borgríkjum til þess að landið sé byggt með lögum.
Rómarréttur, lagakerfi Rómar til forna.
Orðin Civitas fundaretur legibus þýða því orðrétt: „Til þess að landið sé byggt með lögum.“ Ef sögninni fundaretur er breytt í nútíð, verður hún fundetur, og setningin þá „Civitas fundetur legibus“, sem þýðir nákvæmlega: „Með lögum skal land byggja.“ Hins vegar er ekki ljóst hvað sögnin að byggja merkir í orðtakinu. Sögnin getur þýtt ýmislegt, meðal annars að búa í eða nýta. Ef sú merking er lögð til grundvallar þýðir orðtakið að lög séu nauðsynleg til að búa í landinu. Að byggja gæti hins vegar líka þýtt að nema land, reisa, koma á laggirnar eða stofna. Þá mundi orðtakið þýða að lög séu nauðsynleg þegar stofnað er til ríkis eða landnáms. Sögnin fundetur þýðir einmitt eitthvað á þá leið að koma á laggirnar, koma á fót, stofna og er rótskyld latneska orðinu fundamentum og ensku orðunum fundamental og foundation. Í þessum skilningi hefði orðtakið fallið vel í ræðu Úlfljóts á Alþingi þegar þjóðveldið var stofnað. Fyrri skilningurinn fellur hins vegar betur að notkun Njáls á Bergþórshvoli á því og staðsetningu þess í Járnsíðu.
Ef orðtakið er komið frá Civitas fundaretur legibus, þá hefur það snarlega gleymst því að í gegnum aldirnar hafa fræðimenn þýtt orðatiltækið yfir á latínu með allt öðrum hætti en með þessum orðum Pomponiusar. Knud Mikkelsen (1421-1478) biskup í Viborg og dr. juris, í geistlegum og veraldlegum rétti, skrifaði um Jótalög. Hann vissi ekki hver uppruni orðatiltækisins er en umskrifaði það svo á latínu: „Lex est ascistens honestum prohibens contrarium“ sem þýðir: „Lögin eru það sem stuðlar að heiðarleika en banna hið gagnstæða.” Í orðtakasafni Peder Laales (ca. 1300) er orðtakið þýtt svo á latínu: „A methodo legis terre status heret et egis.” sem þýðir: „Frá leið/aðferð laganna hefur ástand landsins einnig ægisskjöld/vörn” eða „lögin eru landsins vörn“. Í Járnsíðuútgáfu frá 1847 er orðtakið þýtt svo „Legibus enim terra nostra est moderanda” sem þýðir: „Því með lögum skal landi voru stýra.”
Orðtakið getur hafa borist í norskan rétt með ýmsum hætti, til dæmis með væringjum frá Býsans eða kirkjunnar mönnum, sem höfðu tengsl suður í álfuna og gegndu mikilvægu hlutverki í lagaendurbótum í Noregi, til dæmis erkibiskupinn Öystein Erlendsson (1161-88) og Peter frá Husstad sem var erkibiskup 1225-26. Svo gæti þetta einfaldlega hafa komið frá presti þeim sem falið var að bera fram lögbókina á Frostaþingi og lesa hana þar upp. Hann gæti hafa opnað ræðu sína á vel völdum upphafsorðum: „Með lögum skal land byggja og hefst svo lesturinn”. Orðatiltækið hafi svo síðar verið tekið inn í lagatextann sjálfan sem fyrirsögn.
Magnús Olsen prófessor (1878-1963) taldi að orðtakið gæti verið upprunnið úr orðum Þorgeirs Þorkelssonar ljósvetningagoða (f. 940) er hann sagði við kristnitökuna á Alþingi árið 1000:
En nú þykir mér það ráð að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvortveggju hafi nokkuð til síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.
Hugsun Þorgeirs er ef til vill nær sumum latínuþýðingum sem tilgreindar voru hér að framan en orðtakinu „með lögum skal land byggja”.
Orðtakið „með lögum skal land byggja” er aldagamall samnorrænn arfur, sem gæti átt sér upphaf í rómarrétti.
Frekara lesefni:
Knut Robberstad: To gamle Retts-ordtak, Tidsskrift for Rettsvitenskap, árgangur 1950 bls. 321-334.
Þorsteinn Hjaltason. „Hver er uppruni orðatiltækisins „með lögum skal land byggja“?“ Vísindavefurinn, 1. október 2014, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66565.
Þorsteinn Hjaltason. (2014, 1. október). Hver er uppruni orðatiltækisins „með lögum skal land byggja“? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66565
Þorsteinn Hjaltason. „Hver er uppruni orðatiltækisins „með lögum skal land byggja“?“ Vísindavefurinn. 1. okt. 2014. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66565>.