Sólin Sólin Rís 11:12 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:42 • Sest 07:04 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:28 • Síðdegis: 15:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:48 • Síðdegis: 22:07 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:12 • sest 15:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:42 • Sest 07:04 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:28 • Síðdegis: 15:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:48 • Síðdegis: 22:07 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Magnus Olsen og hvert var framlag hans til norrænna fræða?

Svavar Sigmundsson

Magnus Bernhard Olsen var fæddur 28. nóvember 1878 í Arendal á Austur-Ögðum í Noregi, sonur kaupmanns þar og eiginkonu hans. Magnús ólst upp í Arendal, tók stúdentspróf 1896 og lagði síðan stund á fílólógíu (málfræði og bókmenntir) við háskólann í Kristíaníu (nú Ósló) og las latínu, grísku, þýsku og norsku. Hann lagði sig einnig eftir samanburðarmálfræði og var vel að sér í írsku. Hann lauk cand.philol prófi 1903.

Á námsárum sínum komst hann í kynni við tvo háskólakennara sem áttu eftir að setja mark sitt á viðfangsefni hans í fræðunum, fornleifafræðinginn og örnefnafræðinginn Oluf Rygh (1833-1899) og málfræðinginn Sophus Bugge (1833-1907). Magnus varð aðstoðarmaður við Háskólabókasafnið 1899, og síðan aðstoðarmaður Bugges, sem var næstum því blindur, frá 1902. Styrkþegi háskólans varð hann 1904. Hann dvaldi einnig námsdvölum í Kaupmannahöfn og í Leipzig. Í bréfi frá 1902 skrifaði Sophus Bugge til Adolfs Noreen kollega síns í Svíþjóð, að hann vildi gjarna kynna fyrir honum ungan stúdent, Magnus Olsen, með þessum orðum: „... hann sækir fyrirlestra mína og ég hugsa mér hann sem eftirmann minn.“ Það gekk líka eftir, og árið 1908 var hann útnefndur eftirmaður hans, eftir að Bugge lést 1907.

Magnus Olsen (1878-1963).

Prófessorsembættið var þá skilgreint sem prófessor í „gammalnorsk og islandsk språk og litteratur“ en 1921 var því breytt í „norrøn filologi“. Í fyrirlestri við embættistöku sína 1908 orðaði Magnus Olsen markmiðið með málfræðiiðkun þannig: „Selvsyn, grundet paa kilderne, av svundne tiders liv.“ Fyrirlesturinn nefndi hann „Fra gammelnorsk myte og kultus“ og fjallaði um eddukvæðið Skírnismál, sem hann túlkaði á sinn hátt (og birtist síðan í 1. hefti af Maal og Minne). Hugmyndina hafði hann fengið við að finna rúnaáletrun í stafkirkjunni í Borgund í Noregi, sem minnti hann á línur í kvæðinu. Einkenni Magnusar koma vel fram í þessum fyrirlestri hans, þar sem menningarsagan er í fyrirrúmi. Hann tengir saman þjóðfræði og norræna trúarbragðasögu, með sýn til klassískrar fornaldar í eina heild sem einkennist af ríku hugmyndaflugi og mikilli samtengingargáfu. Það sem einkenndi Magnus í fræðistörfum var þessi heildarsýn, hæfileiki sem síðar hefur verið minna metinn í fræðum með meiri sérhæfingu í öllum greinum.

Magnus Olsen skrifaði ekki um sína daga heildarverk um norrænan kveðskap, eddukvæði eða dróttkvæði, en hann skrifaði ýmsar greinar um túlkanir sínar á þessum kveðskap. Hann gaf út sjö hefti af Eddu- og dróttkvæðum með drögum að skýringum. Heildarrit um ásatrú skrifaði hann heldur ekki, en verk hans um norrænar bókmenntir, rúnafræði og nafnfræði bera mörg merki þessa áhugasviðs hans.

Starf Magnusar Olsen sem aðstoðarmanns Bugges fólst í því að gefa út norskar rúnaristur með eldri rúnum, sem Magnus síðan lauk við. Á árunum 1941-60 gaf hann út fimm stór bindi með áletrunum með yngri rúnum og hér nýttust áðurnefndir fræðilegir hæfileikar hans vel, við erfiðar túlkanir rúnanna, auk þess þekking hans á heimildum hverskonar. Meginhugmynd Magnusar var að rúnirnar hefðu haft töfrakraft, auk þess að vera samskiptatæki. Þessar hugmyndir hans hafa ekki alls kostar staðist tímans tönn í fræðunum og hafa seinni tíma fræðimenn talið hann hafa gengið of langt í leit sinni að yfirnáttúrulegu hlutverki rúnanna. En Magnus hafði að leiðarljósi orð meistara síns, Bugges, sem sagði einhvern tíma að fræðilega grundvölluð túlkun væri betri en engin.

Magnus Olsen gaf einsamall út tvö bindi (nr. 10 og 11) af hinu fræga norska örnefnaverki, Norske Gaardnavne, sem Oluf Rygh stofnaði til og var aðalhöfundur að, en hann lést 1899. Magnus var þar að auki meðútgefandi að 18. bindi þessa mikla ritverks. Hann var brautryðjandi í umfjöllun um trúarbrögð og samfélagshætti á heiðnum tíma í Noregi og Íslandi, með verkum sínum. Fyrsta ritverk hans um þau efni var heftið Det gamle norske ønavn Njarðarlög (1905) þar sem hann fjallar um örnefnin í Tysnes sem hann tengir við guðinn Njörð. Önnur meginverk hans eru Hedenske kultminder i norske stedsnavne (1915) og Ættegaard og helligdom. Norske stedsnavn sosialt og religionshistorisk belyst (1926), þar sem hann nýtir örnefni á margvíslegan hátt við túlkun sína. Þessi fræðiverk hafa skilað miklu í skilningi manna á þessum fornu samfélögum, þó að einstakar skýringar hans og niðurstöður geti orkað tvímælis. Það sem helst þykir veikja niðurstöður hans er að hann byggir kenningar sínar oft á helst til veikum grunni, einu örnefni eða ætluðu sambandi tveggja örnefna. Hann skrifaði greinina um norsk örnefni í bindið Stedsnavn í ritröðinni Nordisk kultur 5 (Sth. 1939) sem hann ritstýrði. Í tilefni af útkomu þeirrar greinar skrifaði Einar Ól. Sveinsson meðal annars
Hann [M.O.] hefur ekki til að bera lærdóminn einan, heldur er hann hverjum manni hugkvæmari og hefur gaman af að ráða rúnir, þetta er að skilja bæði eftir orðunum: hann er fremstur norskra rúnafræðinga, en líka óeiginlega, því að hann hefur mikið yndi af að glíma við það, sem torráðið er og vandasamt. Kemur þetta allt sér vel fyrir þá, sem vilja kryfja skandinavisk örnefni til mergjar. (Staðir og nöfn, bls. 63).
Auk þess flutti Magnus fyrirlestra í útvarpi og gaf út í riti fyrir norskan almenning, Hvad våre stedsnavn lærer oss (1934).

Magnus Olsen stofnaði tímaritið Maal og Minne árið 1909 og ritstýrði því í 40 ár á vegum Bymålslaget. Það kemur enn út og er í fullu fjöri. Greinar hans birtust bæði þar og í öðrum tímaritum og sjálfstæðar bækur skrifaði hann einnig, og eru skráð verk hans um 390 talsins. Tvö greinasöfn hans komu út í tilefni af merkisárum í lífi hans, Norrøne studier 1938 og Fra norrøn filologi 1949. Úrval úr greinum hans var gefið út af Hinu íslenska bókmenntafélagi 1963 undir heitinu Þættir um líf og ljóð norrænna manna í fornöld, í þýðingu Guðna Jónssonar prófessors og Árna Björnssonar þjóðháttafræðings.

Magnus Olsen var helsti fræðimaður í norrænum fræðum í Noregi um sína daga, dáður kennari og hafði þannig viðmót að hann var oft auknefndur Magnús góði. Hann leit svo á að hann gerði ættjörð sinni mest gagn með því að stunda fræðistörf, og hann átti þátt í þeirri þjóðaruppbyggingu sem átti sér stað um hans daga með því að auka veg norsku í skólakerfinu. Hann lét fræðistörf ganga fyrir stjórnsýslu en lét þó til leiðast að verða deildarforseti (dekanus) í stríðinu, árið 1941, eftir að Francis Bull hafði verið handtekinn. Til þess var hann talinn hafa nauðsynlegan myndugleik og siðferðisþrek (Harald Schjelderup prófessor).

Magnus hlaut ýmsar nafnbætur um ævina, varð heiðursdoktor við ýmsa erlenda háskóla og félagi í vísindafélögum, meðal annars bréfafélagi í Vísindafélag Íslendinga 1959. Hann hlaut meðal annars stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu.

Magnus var gistikennari við heimspekideild Háskóla Íslands í sex vikur á vormisseri 1929 og hélt fyrirlestra um forsögu og fornan átrúnað Norðurlandabúa og veitti auk þess norrænunemendum tilsögn í rúnalestri. Hann var í vinfengi og bréfasambandi við ýmsa Íslendinga, fyrst og fremst Ólaf Lárusson, Sigurð Nordal og Björn M. Ólsen, kollega sína í Háskóla Íslands, og Finn Jónsson prófessor í Kaupmannahöfn, og ýmsa aðra, og eru bréf Íslendinga til hans líklega á fjórða hundrað. Þau er að finna í bréfasafni hans í Nasjonalbiblioteket í Ósló.

Magnus var prófessor í 40 ár, lét af starfi 1948, varð statsstipendiat 1952 og lést í Ósló 16. janúar 1963, á 85. aldursári. Kona hans (1912) var Gjertrud Mathilde Kjær (f. 1890).

Eftirmælin eftir Magnus Olsen voru öll á einn veg. Hann naut einstakrar virðingar sem fræðimaður allt frá ungum aldri, og myndugleiki hans var ekki fenginn með yfirlæti eða þörf á að vekja athygli á sér. Hann var góður leiðbeinandi, ekki uppáþrengjandi, en vekjandi og hvetjandi og það langt út fyrir hóp hinna lærðu manna.

Heimildir:

  • Einar Ól. Sveinsson: Formáli. Magnus Olsen. Þættir um líf og ljóð norrænna manna í fornöld. Guðni Jónsson prófessor og Árni Björnsson lektor sneru á íslenzku. Reykjavík 1973. Bls. 5-7.
  • Einar Ól. Sveinsson: Staðir og nöfn á Norðurlöndum. Ferð og förunautar. Greinasafn II. Reykjavík 1963. Bls. 58-69. Pr. í Vísi í desember 1939.
  • Ingi Sigurðsson prófessor. Munnlegar heimildir um bréfasafn Magnusar Olsen.
  • Ole-Jørgen Johannessen: Magnus Olsen. En bibliografi. Oslo 1977.
  • Jon Gunnar Jørgensen: Magnus Olsen som filolog. Namn og nemne. Tidsskrift for norsk namnegransking. Årgang 27 – 2010. Bls. 47-62.
  • Trygve Knudsen: Minneord om Magnus Olsen. Maal og Minne 1963. Bls. 1-2.
  • Magnus Rindal: Magnus Olsen. Norsk biografisk leksikon. (2011-10-20) I Store norske leksikon.
  • Safn sérprenta eftir Magnus Olsen í bókasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – nafnfræðisviði, undir heitinu Opuscula.
  • Inge Særheim: Magnus Olsens forsking om dei norske staðir- og land-namna. Namn og nemne. Tidsskrift for norsk namnegransking. Årgang 27 – 2010. Bls. 63-72.
  • Per Vikstrand: Magnus Olsen som sakralnamnsforskare. Namn og nemne. Tidsskrift for norsk namnegransking. Årgang 27 - 2010. Bls. 29-46.

Mynd:

Höfundur

Svavar Sigmundsson

fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar

Útgáfudagur

9.11.2011

Síðast uppfært

9.11.2020

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Svavar Sigmundsson. „Hver var Magnus Olsen og hvert var framlag hans til norrænna fræða?“ Vísindavefurinn, 9. nóvember 2011, sótt 12. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61140.

Svavar Sigmundsson. (2011, 9. nóvember). Hver var Magnus Olsen og hvert var framlag hans til norrænna fræða? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61140

Svavar Sigmundsson. „Hver var Magnus Olsen og hvert var framlag hans til norrænna fræða?“ Vísindavefurinn. 9. nóv. 2011. Vefsíða. 12. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61140>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Magnus Olsen og hvert var framlag hans til norrænna fræða?
Magnus Bernhard Olsen var fæddur 28. nóvember 1878 í Arendal á Austur-Ögðum í Noregi, sonur kaupmanns þar og eiginkonu hans. Magnús ólst upp í Arendal, tók stúdentspróf 1896 og lagði síðan stund á fílólógíu (málfræði og bókmenntir) við háskólann í Kristíaníu (nú Ósló) og las latínu, grísku, þýsku og norsku. Hann lagði sig einnig eftir samanburðarmálfræði og var vel að sér í írsku. Hann lauk cand.philol prófi 1903.

Á námsárum sínum komst hann í kynni við tvo háskólakennara sem áttu eftir að setja mark sitt á viðfangsefni hans í fræðunum, fornleifafræðinginn og örnefnafræðinginn Oluf Rygh (1833-1899) og málfræðinginn Sophus Bugge (1833-1907). Magnus varð aðstoðarmaður við Háskólabókasafnið 1899, og síðan aðstoðarmaður Bugges, sem var næstum því blindur, frá 1902. Styrkþegi háskólans varð hann 1904. Hann dvaldi einnig námsdvölum í Kaupmannahöfn og í Leipzig. Í bréfi frá 1902 skrifaði Sophus Bugge til Adolfs Noreen kollega síns í Svíþjóð, að hann vildi gjarna kynna fyrir honum ungan stúdent, Magnus Olsen, með þessum orðum: „... hann sækir fyrirlestra mína og ég hugsa mér hann sem eftirmann minn.“ Það gekk líka eftir, og árið 1908 var hann útnefndur eftirmaður hans, eftir að Bugge lést 1907.

Magnus Olsen (1878-1963).

Prófessorsembættið var þá skilgreint sem prófessor í „gammalnorsk og islandsk språk og litteratur“ en 1921 var því breytt í „norrøn filologi“. Í fyrirlestri við embættistöku sína 1908 orðaði Magnus Olsen markmiðið með málfræðiiðkun þannig: „Selvsyn, grundet paa kilderne, av svundne tiders liv.“ Fyrirlesturinn nefndi hann „Fra gammelnorsk myte og kultus“ og fjallaði um eddukvæðið Skírnismál, sem hann túlkaði á sinn hátt (og birtist síðan í 1. hefti af Maal og Minne). Hugmyndina hafði hann fengið við að finna rúnaáletrun í stafkirkjunni í Borgund í Noregi, sem minnti hann á línur í kvæðinu. Einkenni Magnusar koma vel fram í þessum fyrirlestri hans, þar sem menningarsagan er í fyrirrúmi. Hann tengir saman þjóðfræði og norræna trúarbragðasögu, með sýn til klassískrar fornaldar í eina heild sem einkennist af ríku hugmyndaflugi og mikilli samtengingargáfu. Það sem einkenndi Magnus í fræðistörfum var þessi heildarsýn, hæfileiki sem síðar hefur verið minna metinn í fræðum með meiri sérhæfingu í öllum greinum.

Magnus Olsen skrifaði ekki um sína daga heildarverk um norrænan kveðskap, eddukvæði eða dróttkvæði, en hann skrifaði ýmsar greinar um túlkanir sínar á þessum kveðskap. Hann gaf út sjö hefti af Eddu- og dróttkvæðum með drögum að skýringum. Heildarrit um ásatrú skrifaði hann heldur ekki, en verk hans um norrænar bókmenntir, rúnafræði og nafnfræði bera mörg merki þessa áhugasviðs hans.

Starf Magnusar Olsen sem aðstoðarmanns Bugges fólst í því að gefa út norskar rúnaristur með eldri rúnum, sem Magnus síðan lauk við. Á árunum 1941-60 gaf hann út fimm stór bindi með áletrunum með yngri rúnum og hér nýttust áðurnefndir fræðilegir hæfileikar hans vel, við erfiðar túlkanir rúnanna, auk þess þekking hans á heimildum hverskonar. Meginhugmynd Magnusar var að rúnirnar hefðu haft töfrakraft, auk þess að vera samskiptatæki. Þessar hugmyndir hans hafa ekki alls kostar staðist tímans tönn í fræðunum og hafa seinni tíma fræðimenn talið hann hafa gengið of langt í leit sinni að yfirnáttúrulegu hlutverki rúnanna. En Magnus hafði að leiðarljósi orð meistara síns, Bugges, sem sagði einhvern tíma að fræðilega grundvölluð túlkun væri betri en engin.

Magnus Olsen gaf einsamall út tvö bindi (nr. 10 og 11) af hinu fræga norska örnefnaverki, Norske Gaardnavne, sem Oluf Rygh stofnaði til og var aðalhöfundur að, en hann lést 1899. Magnus var þar að auki meðútgefandi að 18. bindi þessa mikla ritverks. Hann var brautryðjandi í umfjöllun um trúarbrögð og samfélagshætti á heiðnum tíma í Noregi og Íslandi, með verkum sínum. Fyrsta ritverk hans um þau efni var heftið Det gamle norske ønavn Njarðarlög (1905) þar sem hann fjallar um örnefnin í Tysnes sem hann tengir við guðinn Njörð. Önnur meginverk hans eru Hedenske kultminder i norske stedsnavne (1915) og Ættegaard og helligdom. Norske stedsnavn sosialt og religionshistorisk belyst (1926), þar sem hann nýtir örnefni á margvíslegan hátt við túlkun sína. Þessi fræðiverk hafa skilað miklu í skilningi manna á þessum fornu samfélögum, þó að einstakar skýringar hans og niðurstöður geti orkað tvímælis. Það sem helst þykir veikja niðurstöður hans er að hann byggir kenningar sínar oft á helst til veikum grunni, einu örnefni eða ætluðu sambandi tveggja örnefna. Hann skrifaði greinina um norsk örnefni í bindið Stedsnavn í ritröðinni Nordisk kultur 5 (Sth. 1939) sem hann ritstýrði. Í tilefni af útkomu þeirrar greinar skrifaði Einar Ól. Sveinsson meðal annars
Hann [M.O.] hefur ekki til að bera lærdóminn einan, heldur er hann hverjum manni hugkvæmari og hefur gaman af að ráða rúnir, þetta er að skilja bæði eftir orðunum: hann er fremstur norskra rúnafræðinga, en líka óeiginlega, því að hann hefur mikið yndi af að glíma við það, sem torráðið er og vandasamt. Kemur þetta allt sér vel fyrir þá, sem vilja kryfja skandinavisk örnefni til mergjar. (Staðir og nöfn, bls. 63).
Auk þess flutti Magnus fyrirlestra í útvarpi og gaf út í riti fyrir norskan almenning, Hvad våre stedsnavn lærer oss (1934).

Magnus Olsen stofnaði tímaritið Maal og Minne árið 1909 og ritstýrði því í 40 ár á vegum Bymålslaget. Það kemur enn út og er í fullu fjöri. Greinar hans birtust bæði þar og í öðrum tímaritum og sjálfstæðar bækur skrifaði hann einnig, og eru skráð verk hans um 390 talsins. Tvö greinasöfn hans komu út í tilefni af merkisárum í lífi hans, Norrøne studier 1938 og Fra norrøn filologi 1949. Úrval úr greinum hans var gefið út af Hinu íslenska bókmenntafélagi 1963 undir heitinu Þættir um líf og ljóð norrænna manna í fornöld, í þýðingu Guðna Jónssonar prófessors og Árna Björnssonar þjóðháttafræðings.

Magnus Olsen var helsti fræðimaður í norrænum fræðum í Noregi um sína daga, dáður kennari og hafði þannig viðmót að hann var oft auknefndur Magnús góði. Hann leit svo á að hann gerði ættjörð sinni mest gagn með því að stunda fræðistörf, og hann átti þátt í þeirri þjóðaruppbyggingu sem átti sér stað um hans daga með því að auka veg norsku í skólakerfinu. Hann lét fræðistörf ganga fyrir stjórnsýslu en lét þó til leiðast að verða deildarforseti (dekanus) í stríðinu, árið 1941, eftir að Francis Bull hafði verið handtekinn. Til þess var hann talinn hafa nauðsynlegan myndugleik og siðferðisþrek (Harald Schjelderup prófessor).

Magnus hlaut ýmsar nafnbætur um ævina, varð heiðursdoktor við ýmsa erlenda háskóla og félagi í vísindafélögum, meðal annars bréfafélagi í Vísindafélag Íslendinga 1959. Hann hlaut meðal annars stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu.

Magnus var gistikennari við heimspekideild Háskóla Íslands í sex vikur á vormisseri 1929 og hélt fyrirlestra um forsögu og fornan átrúnað Norðurlandabúa og veitti auk þess norrænunemendum tilsögn í rúnalestri. Hann var í vinfengi og bréfasambandi við ýmsa Íslendinga, fyrst og fremst Ólaf Lárusson, Sigurð Nordal og Björn M. Ólsen, kollega sína í Háskóla Íslands, og Finn Jónsson prófessor í Kaupmannahöfn, og ýmsa aðra, og eru bréf Íslendinga til hans líklega á fjórða hundrað. Þau er að finna í bréfasafni hans í Nasjonalbiblioteket í Ósló.

Magnus var prófessor í 40 ár, lét af starfi 1948, varð statsstipendiat 1952 og lést í Ósló 16. janúar 1963, á 85. aldursári. Kona hans (1912) var Gjertrud Mathilde Kjær (f. 1890).

Eftirmælin eftir Magnus Olsen voru öll á einn veg. Hann naut einstakrar virðingar sem fræðimaður allt frá ungum aldri, og myndugleiki hans var ekki fenginn með yfirlæti eða þörf á að vekja athygli á sér. Hann var góður leiðbeinandi, ekki uppáþrengjandi, en vekjandi og hvetjandi og það langt út fyrir hóp hinna lærðu manna.

Heimildir:

  • Einar Ól. Sveinsson: Formáli. Magnus Olsen. Þættir um líf og ljóð norrænna manna í fornöld. Guðni Jónsson prófessor og Árni Björnsson lektor sneru á íslenzku. Reykjavík 1973. Bls. 5-7.
  • Einar Ól. Sveinsson: Staðir og nöfn á Norðurlöndum. Ferð og förunautar. Greinasafn II. Reykjavík 1963. Bls. 58-69. Pr. í Vísi í desember 1939.
  • Ingi Sigurðsson prófessor. Munnlegar heimildir um bréfasafn Magnusar Olsen.
  • Ole-Jørgen Johannessen: Magnus Olsen. En bibliografi. Oslo 1977.
  • Jon Gunnar Jørgensen: Magnus Olsen som filolog. Namn og nemne. Tidsskrift for norsk namnegransking. Årgang 27 – 2010. Bls. 47-62.
  • Trygve Knudsen: Minneord om Magnus Olsen. Maal og Minne 1963. Bls. 1-2.
  • Magnus Rindal: Magnus Olsen. Norsk biografisk leksikon. (2011-10-20) I Store norske leksikon.
  • Safn sérprenta eftir Magnus Olsen í bókasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – nafnfræðisviði, undir heitinu Opuscula.
  • Inge Særheim: Magnus Olsens forsking om dei norske staðir- og land-namna. Namn og nemne. Tidsskrift for norsk namnegransking. Årgang 27 – 2010. Bls. 63-72.
  • Per Vikstrand: Magnus Olsen som sakralnamnsforskare. Namn og nemne. Tidsskrift for norsk namnegransking. Årgang 27 - 2010. Bls. 29-46.

Mynd:

...