Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á miðöldum mátti finna mikil menntasetur víða um lönd kristinna manna og múslima. Má þar til dæmis nefna Bagdad á 9. öld, en fræðimenn frá öllum löndum streymdu þangað til að gerast hluti af því samfélagi sem myndaðist í kringum „hús viskunnar“ (ar. Bayt al-Hikmah). Í Konstantínópel á 11. öld myndaðist einnig fræðasamfélag í kringum nokkra afburðamenn, svo sem Jóhannes Mauropous, Mikhael Psellos og Jóhannes Ítalos.
Í Vestur-Evrópu var lengst af svipað kerfi í kringum óformlega menntun. Þar voru klausturskólar þar sem stundað var nám undir handleiðslu ábótans, en einnig dómskólar þar sem kenndar voru „hinar sjö frjálsu listir“ (lat. artes liberales; málfræði, rökfræði, mælskulist, reikningur, tónlist, rúmfræði og stjörnufræði) en einnig guðfræði og lög. Á 11. og 12. öld var fræðaiðkun í sókn víða í Evrópu. Guðfræði var stunduð í París, lögfræði í Bologna og læknislist í Salerno. Upp úr þessu starfi spruttu svo háskólarnir.
Hér má sjá tákn þriggja hinna sjö frjálsu lista. Til vinstri er stjörnufræði, efst fyrir miðju er málfræði og til hægri er mælskulist. Smellið á myndina til að sjá öll táknin.
Háskólamenntun
Fyrir daga siðbreytingarinnar var 81 háskóli stofnaður í Evrópu. Af þeim fengu 33 stofnskrá frá páfa, 15 frá konungum, 20 frá bæði konungi og páfa og 13 þróuðust smám saman eftir venjum (lat. ex consuetudine).
Hugtakið universitas er komið úr veraldlegum Rómarrétti (lat. Corpus juris civilis) og merkir félag sem taldist lögaðili. Á síðari hluta 13. aldar var algengt að sjá hugtakið notað yfir menntastofnanir. Háskólagráðu fylgdi réttur til kennslu hvar sem var (lat. jus ubique docendi) en elsta dæmið um notkun þessa hugtaks er í tilskipun páfa, svokallaðri bullu, frá 1233 fyrir háskólann í Toulouse.
Grundvöllur háskólakennslu var fyrirlestur (lat. praelectio) kennara upp úr textum sem síðan voru skýrðir og hugtök skilgreind. Efninu var skipt upp í meginatriði og rædd vandamál sem vöknuðu af lestri textans. Nemendur voru svo prófaðir með því að láta þá halda rökræðu (lat. disputatio) um tiltekin vandamál.
Frakkland
Í París í Frakklandi voru Roscellínus frá Amorícu (um 1050-1121) og Abelard (1079-1142) meistarar í rökfræði. Rökfræði varð síðar kjölfestugrein í Parísarháskóla. Notkun rökhenda (e. syllogisms) til að leysa guðfræðileg vandamál leiddi af sér nýja fræðigrein, skólaspeki. Þetta nýja kerfi var til dæmis notað í verkum heilags Tómasar af Aquino (1225-1274), svo sem Summa theologiae.
Þrír virtir skólar störfuðu í París á 12. öld: Skóli fyrir kanoka (munka með prestvígslu) í Viktorsklaustri, annar kanokaskóli sem nefndist Sainte-Geneviève-du-Mont og dómskóli Notre-Dame kirkjunnar. Talið er að Parísarháskóli hafi orðið til úr þessum þremur skólum enda þótt sumir fræðimenn bendi sérstaklega á dómskólann í Notre-Dame. Ljóst er að á síðasta fjórðungi 12. aldar mynduðu nokkrir kennarar í París sérstaka stofnun og telst það upphaf Parísarháskóla.
Í þessum hópi (lat. consortium magistorum) voru kennarar (lat. professores) í guðfræði, lögum, læknisfræði og hinum sjö frjálsu listum. Kennarar á sama sviði mynduðu sérstaka deild (lat. facultas), en það heiti kemur fram í bréfi Honoríusar III páfa til kennara í París 18. febrúar 1219. Þetta samstarf snerist um veitingu háskólaprófa og lagasetningu fyrir hverja deild til að sjá um innri málefni og afmarka valdsvið kennara. Í páfabullunni Parens scientarium frá 1231 er staða sérstakra deilda viðurkennd.
Stúdentar við Parísarháskóla skiptust í fjórar deildir, nationes, eftir uppruna, eða í Frakka, Picardíumenn, Normana og Englendinga (það er stúdenta utan Frakklands). Kennarar í hinum frjálsu listum tilheyrðu þessum stúdentadeildum en ekki kennarar í öðrum deildum. Hver deild kaus sér forseta (lat. proctor) úr hópi meistara og meistararnir fjórir völdu síðan rektor úr sínum röðum. Árið 1274 var rektorinn viðurkenndur sem yfirmaður deildar hinna frjálsu lista, laga- og læknisfræðideildar árið 1279 og guðfræðideildar 1341. Rektorinn var ekki valdamikill og fulltrúi páfa, kanslarinn, réði meiru um námsskipan og námsefni.
Parísarháskóli, eða la Sorbonne. Myndin er frá 17. öld.
Bretland
Í Oxford voru stúdentar á 12. öld og þeim fjölgaði 1167 þegar margir fóru þangað frá París. Stúdentar skiptust í tvær nationes, Boreales (meðal annars Englendingar og Skotar) og Australes (Írar og Walesmenn). Árið 1252 voru settar reglur fyrir háskólann og staðfestar af Innocentíusi IV árið 1254. Skyldi biskupinn í Lincoln skipa kanslara skólans.
Betlimunkareglurnar sem urðu til á 13. öld höfðu náin tengsl við háskólana. Dómínikanar settust að í París 1217 og í Oxford 1221. Fransiskanar komu til Oxford 1224 og til Parísar 1230.
Ítalía
Læknaskólinn í Salerno í Ítalíu var elsti og virtasti sinna tegundar en hafði lítil áhrif á þróun háskóla. Í Bologna var kunnur skóli þar sem kenndar voru hinar sjö frjálsu listir. Á 12. öld störfuðu frægir lagakennarar við skólann, svo sem Irneríus og Gratíanus, þannig að hann varð á skömmum tíma miðstöð laganáms. Irneríus hóf skipulegar rannsóknir á veraldlegum Rómarrétti. Gratíanus beitti hins vegar skólaspeki til þess að þróa sérstakan kirkjurétt. Samtök eða gildi (e. guild) þeirra stúdenta við Bolognaháskóla sem ekki voru borgarar nefndust universitates og voru upphaflega fjögur, en fækkaði síðan í tvö, universitas citramontanorum og universitas ultramontanorum. Kennarar og stúdentar frá Bologna tilheyrðu ekki þessum gildum. Kennarar fengu samt laun frá þeim og stjórnuðu námsskipan og framgangi. Þeir höfðu eigið gildi, collegia doctorum. Með tíð og tíma varð samvinna þessara gilda nánari. Árið 1219 veitti Honoríus III erkidjáknanum einkaleyfi til að veita doktorsgráðu. Henni fylgdi aðgangur að gildi kennara við háskólann.
Háskólinn í Bologna fékk vernd Friðriks I. keisara árið 1158 með sérstakri tilskipun (lat. habita). Aðrir skólar fengu svipuð réttindi. Til er samsvarandi skrá fyrir Parísarháskóla frá Filippusi Ágústi Frakkakonungi árið 1200, en sérstaða skólans kann að vera eldri.
Um árið 1200 voru sagðir vera 10.000 stúdentar í Bologna en þeir voru trúlega aldrei fleiri en 6000-7000. Svipaður fjöldi var í París en 1500-3000 í Oxford. Innan hins heilaga rómverska keisaradæmis virðist aðeins háskólinn í Prag hafa haft fleiri en 1000 stúdenta skömmu fyrir 1400.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Sverrir Jakobsson. „Hvernig var vísinda- og fræðaiðkun háttað í Evrópu á miðöldum?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2006, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5641.
Sverrir Jakobsson. (2006, 14. febrúar). Hvernig var vísinda- og fræðaiðkun háttað í Evrópu á miðöldum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5641
Sverrir Jakobsson. „Hvernig var vísinda- og fræðaiðkun háttað í Evrópu á miðöldum?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2006. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5641>.