Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:33 • Sest 01:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:46 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:46 í Reykjavík

Hvenær var slátur fyrst búið til á Íslandi?

Hallgerður Gísladóttir (1952-2007)

Þegar talað er um að taka slátur er venjulega átt við allan innmat, svið og blóð. Hins vegar merkir orðið oft bara lifrarpylsa og blóðmör nú, til dæmis þegar talað er um að sjóða slátur eða borða slátur. Í elstu tíð merkti orðið einfaldlega allt kjötmeti af sláturdýrum.

Ef við gerum ráð fyrir að spyrjandi sé að grennslast fyrir um blóðmör og lifrarpylsu, þá er það um lifrarpylsu að segja að hún er fyrst nefnd í íslenskum heimildum á 18. öld en verður ekki algeng fyrr en í lok 19. aldar. Á nokkrum stöðum er greint frá því í heimildum að hún sé að byrja að sjást í ákveðnum héruðum upp úr miðri 19. öld.


Sláturgerð, blóðmör til vinstri og lifrarpylsa til hægri.

Eftir að hinn vinsæli Kvennafræðari Elínar Briem kom út um áramótin 1888-9 - en í honum var meðal annars uppskrift að lifrarpylsu - breiddist lifrarpylsan út með miklum hraða og um aldamót er hún gerð á allflestum sveitaheimilum á Íslandi. Áður var algengast að sjóða lifrar heilar og súrsa síðan. Fyrir daga hakkavélanna var lifrin ásamt nýrum marin með tréhnalli, svonefndum „lifrarhnalli“ eða söxuð með grasajárni þegar lifrarpylsa var gerð. Þá var lifrin hrærð með söxuðum mör, mjólk, salti og stundum ögn af mjöli. Sáralítið mjöl virðist hafa verið notað í lifrarpylsu um aldamótin 1900 og oft alls ekki neitt, enda spöruðu Íslendingar enn mjölmat á þeim tíma.

Blóð hefur verið notað í ýmiss konar rétti á Íslandi, meðal annars brauð, grauta og blóðmör. Stórgripablóð var stundum látið hlaupa og storkna óhrært, skorið í parta, snöggsoðið og súrsað. Algengast var að kalla þennan rétt steinblóð, en nöfnin skyndilifur, blóðhella, blóðhlaup, lifrarblóð og augnblóð eru einnig þekkt. Um aldamótin 1900 var orðið sjaldgæft að hleypa blóð á þennan hátt.

Úr íslenskum heimildum þekkist orðið blóðmör ekki fyrr en á 17. öld, en ekkert mælir gegn því að réttur með þessu nafni hafi verið til áður, því að matarrétta er ekki endilega getið í gömlum heimildum. Í Noregi er orðið til sem viðurnefni frá miðöldum. Áður fyrr var oft talað um iður í merkingunni slátur í keppum úr meltingarsekkjum. Í eignaskrá frá því um miðja 14. öld er talað um 20 iður feita mörs og hálfan sjötta tug megri mörs. Hér er væntanlega um að ræða keppi með einhverju sem er mismörvað, líklega blóðmör, því að minnsta kosti á seinni öldum var nær eingöngu blóðmör og lifrarpylsa í vambaiðrum.

Lítið eða ekkert mun hafa verið af mjöli í blóðmör á fyrri öldum, enda skortur á mjölmeti viðvarandi. Á 18. og fram eftir 19. öld var hann að mestu þykktur með fjallagrösum. Í byrjun 20. aldar er enn algengt að nota þriðjung af fjallagrösum á móti rúgmjöli þegar búinn var til blóðmör.

Sá háttur að nota vambakeppi (iður) undir slátur hér á landi kann að tengjast því að það var hentugra fyrir súrverkunina. Í nágrannalöndunum var hins vegar algengara að nota garnir undir mat af þessu tagi og salta hann til geymslu.

Á Vísindavefnum er hægt að lesa meira um matar- og drykkjarhefðir í svörum eftir sama höfund við spurningunum:

Mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

10.4.2002

Spyrjandi

Tómas Guðmundsson, f. 1988

Tilvísun

Hallgerður Gísladóttir (1952-2007). „Hvenær var slátur fyrst búið til á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 10. apríl 2002. Sótt 16. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2285.

Hallgerður Gísladóttir (1952-2007). (2002, 10. apríl). Hvenær var slátur fyrst búið til á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2285

Hallgerður Gísladóttir (1952-2007). „Hvenær var slátur fyrst búið til á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 10. apr. 2002. Vefsíða. 16. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2285>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær var slátur fyrst búið til á Íslandi?
Þegar talað er um að taka slátur er venjulega átt við allan innmat, svið og blóð. Hins vegar merkir orðið oft bara lifrarpylsa og blóðmör nú, til dæmis þegar talað er um að sjóða slátur eða borða slátur. Í elstu tíð merkti orðið einfaldlega allt kjötmeti af sláturdýrum.

Ef við gerum ráð fyrir að spyrjandi sé að grennslast fyrir um blóðmör og lifrarpylsu, þá er það um lifrarpylsu að segja að hún er fyrst nefnd í íslenskum heimildum á 18. öld en verður ekki algeng fyrr en í lok 19. aldar. Á nokkrum stöðum er greint frá því í heimildum að hún sé að byrja að sjást í ákveðnum héruðum upp úr miðri 19. öld.


Sláturgerð, blóðmör til vinstri og lifrarpylsa til hægri.

Eftir að hinn vinsæli Kvennafræðari Elínar Briem kom út um áramótin 1888-9 - en í honum var meðal annars uppskrift að lifrarpylsu - breiddist lifrarpylsan út með miklum hraða og um aldamót er hún gerð á allflestum sveitaheimilum á Íslandi. Áður var algengast að sjóða lifrar heilar og súrsa síðan. Fyrir daga hakkavélanna var lifrin ásamt nýrum marin með tréhnalli, svonefndum „lifrarhnalli“ eða söxuð með grasajárni þegar lifrarpylsa var gerð. Þá var lifrin hrærð með söxuðum mör, mjólk, salti og stundum ögn af mjöli. Sáralítið mjöl virðist hafa verið notað í lifrarpylsu um aldamótin 1900 og oft alls ekki neitt, enda spöruðu Íslendingar enn mjölmat á þeim tíma.

Blóð hefur verið notað í ýmiss konar rétti á Íslandi, meðal annars brauð, grauta og blóðmör. Stórgripablóð var stundum látið hlaupa og storkna óhrært, skorið í parta, snöggsoðið og súrsað. Algengast var að kalla þennan rétt steinblóð, en nöfnin skyndilifur, blóðhella, blóðhlaup, lifrarblóð og augnblóð eru einnig þekkt. Um aldamótin 1900 var orðið sjaldgæft að hleypa blóð á þennan hátt.

Úr íslenskum heimildum þekkist orðið blóðmör ekki fyrr en á 17. öld, en ekkert mælir gegn því að réttur með þessu nafni hafi verið til áður, því að matarrétta er ekki endilega getið í gömlum heimildum. Í Noregi er orðið til sem viðurnefni frá miðöldum. Áður fyrr var oft talað um iður í merkingunni slátur í keppum úr meltingarsekkjum. Í eignaskrá frá því um miðja 14. öld er talað um 20 iður feita mörs og hálfan sjötta tug megri mörs. Hér er væntanlega um að ræða keppi með einhverju sem er mismörvað, líklega blóðmör, því að minnsta kosti á seinni öldum var nær eingöngu blóðmör og lifrarpylsa í vambaiðrum.

Lítið eða ekkert mun hafa verið af mjöli í blóðmör á fyrri öldum, enda skortur á mjölmeti viðvarandi. Á 18. og fram eftir 19. öld var hann að mestu þykktur með fjallagrösum. Í byrjun 20. aldar er enn algengt að nota þriðjung af fjallagrösum á móti rúgmjöli þegar búinn var til blóðmör.

Sá háttur að nota vambakeppi (iður) undir slátur hér á landi kann að tengjast því að það var hentugra fyrir súrverkunina. Í nágrannalöndunum var hins vegar algengara að nota garnir undir mat af þessu tagi og salta hann til geymslu.

Á Vísindavefnum er hægt að lesa meira um matar- og drykkjarhefðir í svörum eftir sama höfund við spurningunum:

Mynd:...