Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Getur komið jarpt afkvæmi undan brúnni meri og rauðum hesti?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Í mjög stuttu máli er svarið við þessari spurningu já: Það getur komið jarpt afkvæmi undan brúnu og rauðu. En skoðum málið aðeins nánar til að skilja hvers vegna.

Aðallitir í hrossum og jafnframt þeir algengustu eru brúnn, jarpur og rauður. Tvö aðalefni ráða litnum, annað svart en hitt rautt eða rauðgult.

Hestar sem eru svartir að lit eru ýmist kallaðir svartir eða brúnir og fer það eftir ýmsu, meðal annars málvenju, hvort verður ofan á. Svartur litur í hrossum stafar af litarefninu eumelanin sem frumur í húðinni framleiða og hárin taka í sig niðri í hársekkjunum.

Jarpur litur er skyldur brúna litum og má segja að hann sé afleiddur af honum. Á bol á jörpum hrossum er litarefnið phaeomelanin komið til sögunnar þannig að bollitur er meira eða minna rauðleitur en ennistoppur, fax, tagl og fætur yfirleitt með svartan lit.

Í hári á rauðum hrossum er fyrst og fremst rautt litarefni, en svart litarefni kemur sjaldan eða ekki fyrir. Rauð hross eru því ekki með neitt svart litarefni, hvorki í faxi, tagli né bol.

Litur hrossa ræðst af því hvers konar litaerfðavísa eða gen þau fá frá hvoru foreldri. Hvert gen hefur sitt sérstaka sæti á litningi og vitað er um 15 sæti fyrir litaerfðavísa í hrossum. Hér verður stuttlega gerð grein fyrir þeim tveimur sætum sem skipta mestu máli með tilliti til spurningarinnar um jarpa folaldið. Umfjöllunin er byggð á skrifum Dr. Stefáns Aðalsteinssonar um liti og erfðir íslenska hestsins.

Í svokölluðu E-sæti sitja gen sem ákvarða hvort hross verða að öllu leyti rauð eða hvort þau verða með svartan lit að einhverju eða öllu leyti. Ríkjandi gen í þessu sæti, E, veldur brúnum eða svörtum lit en víkjandi genið, e, orsakar rauðan lit. Þetta þýðir að folald verður brúnt eða jarpt hvort sem það fær E frá báðum foreldrum og er þá arfhreint, eða fær E frá öðru foreldri en e frá hinu og er þá arfblendið. Til þess að folaldið verði rautt verður e-erfðavísirinn að koma frá báðum foreldrum og það hefur þá arfgerðina ee.

Í A-sæti eru gen sem ráða jörpum lit og ákveða hvort bollitur á hrossinu verður svartur eða rauður. Ríkjandi gen, A, breytir svörtum bollit í rauðan en hreyfir ekki við svarta litnum á faxi og tagli. Jörp hross geta verið arfhrein jörp með arfgerðina AA eða arfblendin jörp með arfgerðina Aa. Þar sem ríkjandi gen A veldur rauðum bol kemur ekki fram svartur eða brúnn bollitur nema hross hafi arfgerðina aa, það er að segja hafi fengið víkjandi gen í A-sæti frá báðum foreldrum.

Út frá þessum upplýsingum um ríkjandi og víkjandi gen er hægt að svara upphaflegu spurningunni um hvort jarpt afkvæmi getur komið undan brúnni meri og rauðum fola.

Brúna hryssan hlýtur að vera með arfgerðina aa í A-sætinu því annars kæmi brúni liturinn ekki fram. Til þess að fá fram svartan eða brúnan lit þarf einnig að hafa arfgerð EE eða Ee og því hlýtur hryssan að hafa að minnsta kosti eitt ríkjandi gen í E-sæti.

Rauði hesturinn verður að hafa arfgerðina ee í E-sætinu til að rauði liturinn komi fram. Hann getur hins vegar gengið með jarpan erfðavísi, það er verið með arfgerðina AA eða Aa, án þess að bera þess nein merki þar sem ríkjandi A veldur rauðum bollit sem hesturinn hefur hvort sem er vegna arfgerðarinnar ee.

Ef folald undan þessum tveimur hrossum hefur fengið kynfrumu með formúlunni Ae frá folanum og kynfrumu með aE frá hryssunni verður það með arfgerðina AaEe og er jarpt þar sem ríkjandi gen A ræður því að bollitur er rauður en ríkjandi gen E veldur svörtum eða brúnum lit á ennistopp, faxi, tagli og fótum.

Heimild:

Stefán Aðalsteinsson, 2001. Íslenski hesturinn - litir og erfðir. Reykjavík: Ormstunga.

Sjá einnig svar við spurningunni Hvað er ríkjandi gen og víkjandi gen? eftir Guðmund Eggertsson.



Mynd: horse.is

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

12.4.2002

Spyrjandi

Sóley Þórðardóttir, f. 1984

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Getur komið jarpt afkvæmi undan brúnni meri og rauðum hesti?“ Vísindavefurinn, 12. apríl 2002. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2293.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2002, 12. apríl). Getur komið jarpt afkvæmi undan brúnni meri og rauðum hesti? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2293

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Getur komið jarpt afkvæmi undan brúnni meri og rauðum hesti?“ Vísindavefurinn. 12. apr. 2002. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2293>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getur komið jarpt afkvæmi undan brúnni meri og rauðum hesti?
Í mjög stuttu máli er svarið við þessari spurningu já: Það getur komið jarpt afkvæmi undan brúnu og rauðu. En skoðum málið aðeins nánar til að skilja hvers vegna.

Aðallitir í hrossum og jafnframt þeir algengustu eru brúnn, jarpur og rauður. Tvö aðalefni ráða litnum, annað svart en hitt rautt eða rauðgult.

Hestar sem eru svartir að lit eru ýmist kallaðir svartir eða brúnir og fer það eftir ýmsu, meðal annars málvenju, hvort verður ofan á. Svartur litur í hrossum stafar af litarefninu eumelanin sem frumur í húðinni framleiða og hárin taka í sig niðri í hársekkjunum.

Jarpur litur er skyldur brúna litum og má segja að hann sé afleiddur af honum. Á bol á jörpum hrossum er litarefnið phaeomelanin komið til sögunnar þannig að bollitur er meira eða minna rauðleitur en ennistoppur, fax, tagl og fætur yfirleitt með svartan lit.

Í hári á rauðum hrossum er fyrst og fremst rautt litarefni, en svart litarefni kemur sjaldan eða ekki fyrir. Rauð hross eru því ekki með neitt svart litarefni, hvorki í faxi, tagli né bol.

Litur hrossa ræðst af því hvers konar litaerfðavísa eða gen þau fá frá hvoru foreldri. Hvert gen hefur sitt sérstaka sæti á litningi og vitað er um 15 sæti fyrir litaerfðavísa í hrossum. Hér verður stuttlega gerð grein fyrir þeim tveimur sætum sem skipta mestu máli með tilliti til spurningarinnar um jarpa folaldið. Umfjöllunin er byggð á skrifum Dr. Stefáns Aðalsteinssonar um liti og erfðir íslenska hestsins.

Í svokölluðu E-sæti sitja gen sem ákvarða hvort hross verða að öllu leyti rauð eða hvort þau verða með svartan lit að einhverju eða öllu leyti. Ríkjandi gen í þessu sæti, E, veldur brúnum eða svörtum lit en víkjandi genið, e, orsakar rauðan lit. Þetta þýðir að folald verður brúnt eða jarpt hvort sem það fær E frá báðum foreldrum og er þá arfhreint, eða fær E frá öðru foreldri en e frá hinu og er þá arfblendið. Til þess að folaldið verði rautt verður e-erfðavísirinn að koma frá báðum foreldrum og það hefur þá arfgerðina ee.

Í A-sæti eru gen sem ráða jörpum lit og ákveða hvort bollitur á hrossinu verður svartur eða rauður. Ríkjandi gen, A, breytir svörtum bollit í rauðan en hreyfir ekki við svarta litnum á faxi og tagli. Jörp hross geta verið arfhrein jörp með arfgerðina AA eða arfblendin jörp með arfgerðina Aa. Þar sem ríkjandi gen A veldur rauðum bol kemur ekki fram svartur eða brúnn bollitur nema hross hafi arfgerðina aa, það er að segja hafi fengið víkjandi gen í A-sæti frá báðum foreldrum.

Út frá þessum upplýsingum um ríkjandi og víkjandi gen er hægt að svara upphaflegu spurningunni um hvort jarpt afkvæmi getur komið undan brúnni meri og rauðum fola.

Brúna hryssan hlýtur að vera með arfgerðina aa í A-sætinu því annars kæmi brúni liturinn ekki fram. Til þess að fá fram svartan eða brúnan lit þarf einnig að hafa arfgerð EE eða Ee og því hlýtur hryssan að hafa að minnsta kosti eitt ríkjandi gen í E-sæti.

Rauði hesturinn verður að hafa arfgerðina ee í E-sætinu til að rauði liturinn komi fram. Hann getur hins vegar gengið með jarpan erfðavísi, það er verið með arfgerðina AA eða Aa, án þess að bera þess nein merki þar sem ríkjandi A veldur rauðum bollit sem hesturinn hefur hvort sem er vegna arfgerðarinnar ee.

Ef folald undan þessum tveimur hrossum hefur fengið kynfrumu með formúlunni Ae frá folanum og kynfrumu með aE frá hryssunni verður það með arfgerðina AaEe og er jarpt þar sem ríkjandi gen A ræður því að bollitur er rauður en ríkjandi gen E veldur svörtum eða brúnum lit á ennistopp, faxi, tagli og fótum.

Heimild:

Stefán Aðalsteinsson, 2001. Íslenski hesturinn - litir og erfðir. Reykjavík: Ormstunga.

Sjá einnig svar við spurningunni Hvað er ríkjandi gen og víkjandi gen? eftir Guðmund Eggertsson.



Mynd: horse.is...