Sólin Sólin Rís 06:43 • sest 20:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:43 • Síðdegis: 25:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:01 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:43 • sest 20:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:43 • Síðdegis: 25:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:01 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna geta sumir reykt tóbak í 70-80 ár án þess að það hafi sýnileg áhrif til heilsubrests á þá?

Magnús Jóhannsson og Þorsteinn Vilhjálmsson

Þessi spurning varðar grundvallaratriði í skilningi okkar á sjúkdómum og áhrifum lífshátta á þá, sem og í beitingu tölfræði og líkindareiknings í heilbrigðisvísindum og víðar. Við skulum fyrst hugleiða það að líf manna er flókið og margþætt og býsna margt hefur áhrif á æviferil okkar.

Í fyrsta lagi ráða erfðirnar, arfgerðin, miklu um það hvernig okkur reiðir af í lífinu. Áhersla heilbrigðisvísindanna á þetta hefur verið að aukast að undanförnu eins og ljóst má vera af ýmiss konar fréttum í fjölmiðlum. Fer því þó fjarri að öll kurl séu komin til grafar, sér í lagi ekki á afmörkuðum sviðum eins og til dæmis gagnvart einstökum sjúkdómum eða dánarorsökum.

Í öðru lagi hafa alls konar ytri áhrif sem við verðum fyrir á ævinni mikil áhrif til dæmis á heilsuna, ýmist til góðs eða ills. Þetta sést glöggt af margs konar sjúkdómum og vanheilsu sem fylgja tilteknum störfum, en einnig eru þekkt dæmi þess að menn í tilteknum starfshópum séu marktækt langlífari en aðrir.

Þessir herramenn hafa eflaust orðið misgamlir
þrátt fyrir að þeir reyki allir.

Enn er ótalið að einstaklingar geta gert ýmislegt sér til heilsubótar eins og það er kallað. Sífellt fleiri rannsóknir sýna glöggt að lífshættir manna skipta máli bæði gagnvart almennri líðan, heilsufari á líðandi stund og gagnvart langlífi. Algengasta banamein sem tengist reykingum er hjartasjúkdómar. Rannsóknir sýna einmitt sérstaklega að hægt er vinna gegn þeim með skynsamlegu mataræði, hollri hreyfingu og streitulausum lífsháttum.

Hluti svarsins við spurningunni verður því sá að líklegt sé að langlífir reykingamenn hafi ef til vill haft arfgerð sem fól í sér líkur á langlífi (hafi haft það í genunum eins og sagt er), hafi ef til vill verið heppnir með önnur áreiti á ævinni og hafi kannski líka lifað lífinu skynsamlega að reykingunum undanskildum.

Annar hluti svarsins snýr að sjálfri rökfræðinni eða stærðfræðinni bak við meðaltöl annars vegar, til dæmis meðalævi, og einstök gildi hins vegar, til dæmis ævilengd einstakra manna. Rannsóknir segja okkur að meðalævi manna styttist um svo og svo mörg ár ef menn reykja verulega um ævina. Á hinn bóginn er ævilengd einstaklinganna talsvert mismunandi hvort eð er; staðalfrávik hennar er talsvert. Þannig getur til að mynda vel verið að reykingamaður sem dó áttræður hefði orðið níræður ef hann hefði ekki reykt, og auk þess hefði hann þá búið við betri heilsu á efri árum.

Eins er rétt að hafa hér í huga þá einföldu staðreynd að tiltekið meðaltal getur ekki náðst í tilteknum hópi nema einstaklingarnir í honum séu ýmist fyrir ofan það eða neðan.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundar

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

13.3.2000

Spyrjandi

Karl Björnsson

Tilvísun

Magnús Jóhannsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna geta sumir reykt tóbak í 70-80 ár án þess að það hafi sýnileg áhrif til heilsubrests á þá?“ Vísindavefurinn, 13. mars 2000, sótt 12. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=231.

Magnús Jóhannsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 13. mars). Hvers vegna geta sumir reykt tóbak í 70-80 ár án þess að það hafi sýnileg áhrif til heilsubrests á þá? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=231

Magnús Jóhannsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna geta sumir reykt tóbak í 70-80 ár án þess að það hafi sýnileg áhrif til heilsubrests á þá?“ Vísindavefurinn. 13. mar. 2000. Vefsíða. 12. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=231>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna geta sumir reykt tóbak í 70-80 ár án þess að það hafi sýnileg áhrif til heilsubrests á þá?
Þessi spurning varðar grundvallaratriði í skilningi okkar á sjúkdómum og áhrifum lífshátta á þá, sem og í beitingu tölfræði og líkindareiknings í heilbrigðisvísindum og víðar. Við skulum fyrst hugleiða það að líf manna er flókið og margþætt og býsna margt hefur áhrif á æviferil okkar.

Í fyrsta lagi ráða erfðirnar, arfgerðin, miklu um það hvernig okkur reiðir af í lífinu. Áhersla heilbrigðisvísindanna á þetta hefur verið að aukast að undanförnu eins og ljóst má vera af ýmiss konar fréttum í fjölmiðlum. Fer því þó fjarri að öll kurl séu komin til grafar, sér í lagi ekki á afmörkuðum sviðum eins og til dæmis gagnvart einstökum sjúkdómum eða dánarorsökum.

Í öðru lagi hafa alls konar ytri áhrif sem við verðum fyrir á ævinni mikil áhrif til dæmis á heilsuna, ýmist til góðs eða ills. Þetta sést glöggt af margs konar sjúkdómum og vanheilsu sem fylgja tilteknum störfum, en einnig eru þekkt dæmi þess að menn í tilteknum starfshópum séu marktækt langlífari en aðrir.

Þessir herramenn hafa eflaust orðið misgamlir
þrátt fyrir að þeir reyki allir.

Enn er ótalið að einstaklingar geta gert ýmislegt sér til heilsubótar eins og það er kallað. Sífellt fleiri rannsóknir sýna glöggt að lífshættir manna skipta máli bæði gagnvart almennri líðan, heilsufari á líðandi stund og gagnvart langlífi. Algengasta banamein sem tengist reykingum er hjartasjúkdómar. Rannsóknir sýna einmitt sérstaklega að hægt er vinna gegn þeim með skynsamlegu mataræði, hollri hreyfingu og streitulausum lífsháttum.

Hluti svarsins við spurningunni verður því sá að líklegt sé að langlífir reykingamenn hafi ef til vill haft arfgerð sem fól í sér líkur á langlífi (hafi haft það í genunum eins og sagt er), hafi ef til vill verið heppnir með önnur áreiti á ævinni og hafi kannski líka lifað lífinu skynsamlega að reykingunum undanskildum.

Annar hluti svarsins snýr að sjálfri rökfræðinni eða stærðfræðinni bak við meðaltöl annars vegar, til dæmis meðalævi, og einstök gildi hins vegar, til dæmis ævilengd einstakra manna. Rannsóknir segja okkur að meðalævi manna styttist um svo og svo mörg ár ef menn reykja verulega um ævina. Á hinn bóginn er ævilengd einstaklinganna talsvert mismunandi hvort eð er; staðalfrávik hennar er talsvert. Þannig getur til að mynda vel verið að reykingamaður sem dó áttræður hefði orðið níræður ef hann hefði ekki reykt, og auk þess hefði hann þá búið við betri heilsu á efri árum.

Eins er rétt að hafa hér í huga þá einföldu staðreynd að tiltekið meðaltal getur ekki náðst í tilteknum hópi nema einstaklingarnir í honum séu ýmist fyrir ofan það eða neðan.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...