Ef við gerum nú ráð fyrir að draumaprinsar og -prinsessur séu til væri líklegast til árangurs að byrja á að komast að því hvar slíkar verur halda sig. Það er þó ekki jafn einfalt og virðist í fyrstu því líklega ræðst það af hverri fyrir sig, hvar sá staður er. Ekki er hægt að nota sömu aðferðir og þegar leita skal að draugum eða álfum og menn kanna vænlega staði eins og gömul hús eða stóra steina.
Sumar draumaverur af þessu tagi halda sig eflaust á bókasöfnum, aðrar á knattspyrnuvöllum, enn aðrar í sundlaugum (og þá sérstaklega á sólríkum föstudögum), sumar á fjöllum og svo mætti lengi telja.
Væri ekki tilvalið að snúa bara dæminu við, hætta að leita að draumaprinsi eða prinsessu og vita hvort þessar eftirsóttu verur láti ekki sjá sig af sjálfsdáðum? Hins vegar má rifja upp orð meistara Megasar um að dyrnar opnist nú ekki nema bankað sé á þær.
Svo er náttúrlega þess að gæta að draumaprinsessa þín er sú sem þig dreymir um. Þess vegna þyrftum við kannski að vita meira um spyrjandann til að geta svarað en þá værum við líka komin út fyrir vettvang hins almenna sem vísindin hafa mestan áhuga á. Þó getum við bent spyrjanda á að kannski væri ráð að byrja leitina með sjálfsskoðun. Ef spyrjandi hefur til dæmis mikinn áhuga á fótbolta eykur hann líkurnar á góðum árangri með því að leita meðal kvenna á fótboltavöllum.
Rétt er þó að undirstrika að með slíkum aðferðum er einungis hægt að auka líkurnar en ekki að öðlast fullkomið öryggi um að finna það sem leitað er að. Slík staða mála er hins vegar alþekkt í vísindum, samanber umræðuna um óvissulögmál Heisenbergs og allt það.
Í spurningunni kemur ekki fram hvort spyrjandi vill giftast draumaprinsessunni og búa með henni til æviloka. Ef spyrjandi vill það getum við bent honum á að fjölskyldufræðin býr yfir ýmsum fróðleik um heppilegt makaval. Sömuleiðis bendum við honum á svar Sigrúnar Júlíusdóttur við spurningunni Hvað er ást? Er hún mælanleg?
Við eigum allt eins von á að spyrjandi sé litlu nær eftir lestur svarsins, enda varla hægt að ætlast til mikils af föstudagssvari.
Mynd: BlueHarvest:net - Star Wars Images