Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er það rétt að Noregur sé eina landið sem er skuldlaust og hvar stendur Ísland í þessum málum?

Strangt til tekið er Noregur ekki skuldlaus við útlönd. Það er hins vegar rétt að Norðmenn skulda lítið í útlöndum og eiga nokkuð digra sjóði erlendis. Hér munar mest um sjóð sem þeir hafa lagt til hliðar af tekjum af olíuútflutningi en verðmæti hans er nú yfir 4.400 milljarðar íslenskra króna sem gerir tæpa milljón á mann í Noregi.

Ekkert ríki er alveg skuldlaust við útlönd, öll skulda að minnsta kosti einhver skammtímalán. Hins vegar eiga mörg ríki meiri eignir í útlöndum en sem nemur erlendum skuldum þeirra og er Noregur eitt þeirra. Í raun liggur það í hlutarins eðli því að sérhvert erlent lán sem tekið er býr til skuld hjá einum aðila en eign hjá öðrum.

Mynd frá Þrándheimi í Noregi.

Íslendingar skulda mjög mikið erlendis. Erlendar skuldir Íslendinga voru alls 964 milljarðar króna í lok september árið 2001 eða um 3,4 milljónir króna á mann, sé eign útlendinga á hlutafé og öðru eigin fé fyrirtækja hérlendis talin með skuldum okkar. Séu einungis hefðbundnar skuldir taldar var talan aðeins lægri, 921 milljarður króna eða um 3,2 milljónir króna á mann. Á móti kemur þó að Íslendingar eiga nokkrar eignir í útlöndum og voru þær metnar á 358 milljarða króna á sama tíma.

Hrein staða Íslendinga gagnvart útlöndum, það er munurinn á skuldum Íslendinga við útlönd og eignum útlendinga hérlendis annars vegar og hins vegar eignum Íslendinga erlendis var því neikvæð um 606 milljarða króna eða um 2,1 milljónir króna á mann.

Í alþjóðlegum samanburði eru þessar upphæðir á mann mjög háar á Íslandi, ef ekki þær hæstu í heimi. Vegna þess að landsframleiðsla á mann á Íslandi er mjög há eru þessar skuldir þó ekki meðal þeirra hæstu í heimi í hlutfalli við hana. Þær eru þó einnig mjög háar á þann mælikvarða. Á þessum tíma var hrein staða Íslendinga gagnvart útlöndum neikvæð um sem svarar 78% af landsframleiðslu eins árs. Það hlutfall hefur versnað mjög hratt undanfarin tvö ár. Í lok ársins 1999 var hlutfallið neikvætt um 49% og hafði þá verið svipað í hálfan annan áratug. Skýringin er einkum mikill viðskiptahalli og gengisfall krónunnar undanfarin misseri.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Útgáfudagur

28.5.2002

Spyrjandi

Árni Grétarsson

Höfundur

Gylfi Magnússon

dósent í hagfræði við HÍ

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Er það rétt að Noregur sé eina landið sem er skuldlaust og hvar stendur Ísland í þessum málum?“ Vísindavefurinn, 28. maí 2002. Sótt 13. desember 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=2431.

Gylfi Magnússon. (2002, 28. maí). Er það rétt að Noregur sé eina landið sem er skuldlaust og hvar stendur Ísland í þessum málum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2431

Gylfi Magnússon. „Er það rétt að Noregur sé eina landið sem er skuldlaust og hvar stendur Ísland í þessum málum?“ Vísindavefurinn. 28. maí. 2002. Vefsíða. 13. des. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2431>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Davíð Ólafsson

1971

Davíð Ólafsson er aðjúnkt í menningarfræði við Íslensku- og menningardeild HÍ. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að virkni bóklegrar miðlunar út frá sjónarhóli hversdagsmenningar og hugmyndum um atbeina og iðkun.