Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi?

Sigurður Steinþórsson

Í svari Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni Hvað er vatnsrof? má lesa almenna skýringu á því hvað felst í orðunum veðrun og rof en orðið jökulrof vísar til þess náttúrufyrirbæris sem rofinu veldur, það er að segja skriðjökla.

Skriðjöklar eru stórvirkastir allra rofvalda á landi og merki um jökulrof sjást hvarvetna á Íslandi. Áhrif jöklanna á mótun landslags hafa verið tvíþætt. Annars vegar er jökulrof sem slípar berggrunninn og rýfur hann og hins vegar leiða eldgos undir jökli til háreistra móbergsfjalla sem setja sterkan svip á gosbelti landsins.

Á tertíera tímabilinu, áður en ísöld gekk í garð fyrir um 2,5 milljónum ára, var landið fremur sléttlent og einungis megineldstöðvar mynduðu háreist fjöll, líkt og Snæfell norðan Vatnajökuls. Sjávarhamrar hafa verið kringum landið, en firðir eða djúpir dalir varla verið til. Á ísöldinni, sem ríkti á Íslandi frá því fyrir um 2,5 milljónum ára þar til fyrir um 10.000 árum, var landið meira eða minna hulið jöklum hvað eftir annað, en á milli voru stutt hlýskeið. Sumir telja raunar að við lifum á hlýskeiði sem muni ljúka innan tíðar, og fimbulvetur ganga í garð að nýju, en hver veit nema iðnbyltingin og gróðurhúsaáhrifin hafi komið í veg fyrir það. En hvað sem því líður breyttu ísaldarjöklarnir sléttlendinu sem áður var, grófu hina djúpu dali og firði Austfjarða og Vestfjarða, slípuðu yfirborðið og „reistu“ jafnframt móbergsfjöllin.

Rofmáttur skriðjöklanna helgast af því að í botni jökulíssins er grjót sem jöklarnir aka fram og sverfa með því berggrunninn - ísinn sjálfur er of linur til að valda miklu rofi. Þrýstingurinn undir 100 m þykkum jökli er um 9 loftþyngdir. Á mestu kuldaskeiðunum var sjávarstaða lág vegna þess hve mikið vatn var bundið í jöklum. Þá náðu stærstu skriðjöklar allt fram á landgrunnsbrún áður en þeir flutu upp, enda eiga margir stærstu dalir landsins sér framhald neðansjávar í djúpum álum.

Skriðjöklar rjúfa landið einkum með tvennum hætti. Í fyrsta lagi sverfa þeir jökulbotninn og dýpka þannig dalina sem þeir skríða um, og í öðru lagi grafa þeir undan hlíðunum beggja megin þannig að þær verða óstöðugar og hrynja út yfir jökulinn. Skriðjökullinn ber grjótið síðan fram, en svarfið sem myndast í jökulbotninum skolast fram sem „gormur“ í jökulánum sem undan jöklinum falla.

Á hlýviðrisskeiðum ísaldar, og eftir að ísöld lauk, hafa hraunstraumar fylgt dölunum og leitast við að fylla þá. Í Esjunni má sjá mörg „drukknuð“ móbergsfjöll — fjöll sem eitt sinn risu hátt yfir yfirborð landsins en síðan runnu hraun í kringum þau uns þau hurfu í jörð. Mælingar sýna að á Þingvöllum eru fjöll eins og Ármannsfell og Tindaskagi einungis toppar miklu hærri fjalla og fjallgarða sem standa upp úr hraununum.

Sjá einnig svör sama höfundar við spurningunum:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

30.5.2002

Spyrjandi

Fanney Frímannsdóttir, f. 1984
Harpa Rún Eysteinsdóttir, f. 1988

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2002, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2440.

Sigurður Steinþórsson. (2002, 30. maí). Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2440

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2002. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2440>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi?
Í svari Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni Hvað er vatnsrof? má lesa almenna skýringu á því hvað felst í orðunum veðrun og rof en orðið jökulrof vísar til þess náttúrufyrirbæris sem rofinu veldur, það er að segja skriðjökla.

Skriðjöklar eru stórvirkastir allra rofvalda á landi og merki um jökulrof sjást hvarvetna á Íslandi. Áhrif jöklanna á mótun landslags hafa verið tvíþætt. Annars vegar er jökulrof sem slípar berggrunninn og rýfur hann og hins vegar leiða eldgos undir jökli til háreistra móbergsfjalla sem setja sterkan svip á gosbelti landsins.

Á tertíera tímabilinu, áður en ísöld gekk í garð fyrir um 2,5 milljónum ára, var landið fremur sléttlent og einungis megineldstöðvar mynduðu háreist fjöll, líkt og Snæfell norðan Vatnajökuls. Sjávarhamrar hafa verið kringum landið, en firðir eða djúpir dalir varla verið til. Á ísöldinni, sem ríkti á Íslandi frá því fyrir um 2,5 milljónum ára þar til fyrir um 10.000 árum, var landið meira eða minna hulið jöklum hvað eftir annað, en á milli voru stutt hlýskeið. Sumir telja raunar að við lifum á hlýskeiði sem muni ljúka innan tíðar, og fimbulvetur ganga í garð að nýju, en hver veit nema iðnbyltingin og gróðurhúsaáhrifin hafi komið í veg fyrir það. En hvað sem því líður breyttu ísaldarjöklarnir sléttlendinu sem áður var, grófu hina djúpu dali og firði Austfjarða og Vestfjarða, slípuðu yfirborðið og „reistu“ jafnframt móbergsfjöllin.

Rofmáttur skriðjöklanna helgast af því að í botni jökulíssins er grjót sem jöklarnir aka fram og sverfa með því berggrunninn - ísinn sjálfur er of linur til að valda miklu rofi. Þrýstingurinn undir 100 m þykkum jökli er um 9 loftþyngdir. Á mestu kuldaskeiðunum var sjávarstaða lág vegna þess hve mikið vatn var bundið í jöklum. Þá náðu stærstu skriðjöklar allt fram á landgrunnsbrún áður en þeir flutu upp, enda eiga margir stærstu dalir landsins sér framhald neðansjávar í djúpum álum.

Skriðjöklar rjúfa landið einkum með tvennum hætti. Í fyrsta lagi sverfa þeir jökulbotninn og dýpka þannig dalina sem þeir skríða um, og í öðru lagi grafa þeir undan hlíðunum beggja megin þannig að þær verða óstöðugar og hrynja út yfir jökulinn. Skriðjökullinn ber grjótið síðan fram, en svarfið sem myndast í jökulbotninum skolast fram sem „gormur“ í jökulánum sem undan jöklinum falla.

Á hlýviðrisskeiðum ísaldar, og eftir að ísöld lauk, hafa hraunstraumar fylgt dölunum og leitast við að fylla þá. Í Esjunni má sjá mörg „drukknuð“ móbergsfjöll — fjöll sem eitt sinn risu hátt yfir yfirborð landsins en síðan runnu hraun í kringum þau uns þau hurfu í jörð. Mælingar sýna að á Þingvöllum eru fjöll eins og Ármannsfell og Tindaskagi einungis toppar miklu hærri fjalla og fjallgarða sem standa upp úr hraununum.

Sjá einnig svör sama höfundar við spurningunum: