Fangelsistölur sýna muninn einkar vel en kvenfangar á Íslandi eru innan við 10 prósent. Ástæður eru margvíslegar og hafa fræðimenn sett fram bæði félags- og líffræðilegar skýringar á ólíkri hlutdeild karla og kvenna í afbrotum.
Ef við skoðum alvarleg afbrot er nærtækt að taka ofbeldisbrot. Þolendarannsóknir hafa sýnt að fleiri karlar verði fyrir ofbeldi í samfélaginu en konur (Rannveig Þórisdóttir, Helgi Gunnlaugsson og Vilborg Magnúsdóttir, 2005). Algengara er að karlar verði fyrir ofbeldi af hálfu ókunnugra en konur af hálfu nákominna.
Kunnur félagsfræðingur Eric Goode (1997) hefur greint ofbeldi karla og kvenna nánar í þessu samhengi. Hann heldur því fram að rannsóknir sýni að konur séu ekki síður gerendur ofbeldis í garð maka en karlar. Ofbeldi karla á hendur maka sé hins vegar bæði alvarlegra og tíðara en ofbeldi kvenna í garð maka síns.
Goode álítur að ofbeldi kvenna í garð maka megi í mörgum tilfellum skýra sem viðbrögð konunnar við ofbeldi makans; konan verji sig fyrir ofbeldi makans og svari stundum á ofbeldisfullan hátt með alvarlegum afleiðingum. Hér hefur hugtakið battered wife´s syndrome komið fram sem lýsir djúpri streitu eiginkonu sem býr í ofbeldissambandi. Það getur annars vegar lýst sér í sálrænum afleiðingum langvarandi kúgunar sem eiginkonan hefur búið við af hálfu maka síns eða vegna alvarlegra ofbeldisverka sem hún hefur sætt í æsku eða af hálfu hans. Í ástandi af þessu tagi hafi eiginkonur stundum svarað fyrir sig og framið alvarleg ofbeldisverk á maka sínum.
Heimildir og mynd:- Rannveig Þórisdóttir, Helgi Gunnlaugsson og Vilborg Magnúsdóttir, (2005). Brotaþolar, lögreglan og öryggi borgaranna. Reykjavík: Ríkislögreglustjórinn og Háskólaútgáfan.
- Goode, Eric (1997). Deviant Behavior Fifth Edition. London: Prentice-Hall International.
- Mynd: MailOnline
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Er það rétt að alvarlegustu afbrot kvenna séu oftast ástríðuglæpir? Hvers vegna?