Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Eru til reglur um það hvenær nafnorð er kk., kvk. eða hk.? Fyrir útlending dugir ekki að bæta við greini.

Guðrún Kvaran

Í íslensku hafa nafnorð nær alltaf fast kyn og sjaldnast er hægt að sjá af stofninum einum hvert kyn orðsins er. Aðeins fá dæmi eru þess að sama orðið sé til í fleiri en einu kyni. Það á þó til dæmis við um orð eins og hveiti og jógúrt, sem til eru bæði í hvorugkyni og kvenkyni, og regnskúr sem bæði er notað í karlkyni og kvenkyni.

Orðið kyn er málfræðilegt hugtak og engar fastar reglur eru til um það hvers kyns orð eigi að vera. Oft er þó samsvörun á milli málfræðilegs kyns og raunkyns, það er karlkyns vera er oft karlkyns, til dæmis maður, hestur, hrútur, grís, og kvenkyns vera oft kvenkyns, til dæmis kona, hryssa, ær, gylta. Dæmi á hinn veginn eru mýmörg, til dæmis er orðið naut hvorugkyns þótt um karlkyns skepnu sé að ræða, svanur á bæði við um karl- og kvenfugl, þótt orðið sé karlkynsorð, og sama gildir um fuglsheitið álft, það er bæði haft um karl- og kvenfugl þótt það sé kvenkynsorð.

Nafnorð beygjast á mismunandi hátt og hefð er fyrir því að þeim sé skipt í flokka eftir því hvernig beygingin er. Nokkuð er misjafnt hvernig beygingu er lýst og hversu mörg beygingardæmi eru nefnd. Jón Friðjónsson nefnir í bók sinni Íslensk beygingarfræði (1983) til dæmis 96 beygingadæmi fyrir nafnorð sem skiptast á 15 beygingarflokka.

Oft má sjá á beygingu orðs hvers kyns það muni vera þótt ekki sé það óbrigðult og oftast verður að læra kynið með orðinu. Þótt stundum geti verið erfitt að sjá kyn orðs þegar það stendur eitt og sér er hægt að nota nokkrar þumalfingursreglur sér til hjálpar við fjölmörg þeirra.

Einfaldast er að skipta nafnorðum fyrst í tvo meginflokka: sterka beygingu og veika beygingu. Orð af sterkri beygingu enda á samhljóði í nefnifalli en orð af veikri beygingu á sérhljóði (hestur - penni). Lítum fyrst á sterka beygingu karlkynsorða.

Orð, sem í nefnifalli eintölu enda á -r, eru langoftast karlkyns. Undantekningar eru fáar, en nefna má brúður og æður (= æðarfugl), sem eru kvenkynsorð, og verður að læra beygingu þeirra sérstaklega.

Fleiri þumalfingursreglur gilda sem nota má til að tileinka sér kyn og beygingu. Endi nafnorð í nefnifalli eintölu á -r höfum við séð að það er langoftast karlkyns. Þá getum við einnig dregið þá ályktun að þolfall sé án beygingarendingar. Dæmi: hestur - hest, vinur - vin, köttur - kött, mór - mó, læknir - lækni.

Frá þessu eru tiltölulega fáar undantekningar og þessar helstar: Ef um er að ræða orð sem hafa stofnlægt -r eins og akur eru nefnifall og þolfall eins, akur - akur og r-ið kemur einnig fram í þágufalli og eignarfalli (akri - akurs). Til undantekninga teljast einnig frændsemisorðin bróðir- bróður og faðir - föður, systir - systur, móðir - móður, dóttir - dóttur, og þarf að tileinka sér beygingu þeirra sérstaklega í eintölu og fleirtölu. Hvorugkynsorð geta einnig endað á stofnlægu -r-i eins og hreiður, eitur, en þau eru fá og þekkjast frá orðum eins og akur á því að nefnifall og þolfall fleirtölu er eins, eitt hreiður - mörg hreiður.

Ef nafnorð endar á -i í nefnifalli en -a í öðrum föllum eintölu er það karlkynsorð og beygist eftir veikri beygingu, kragi - kraga, sími - síma, penni - penna.

Um fleirtölu karlkynsorða er það að segja að endingarnar -ar og -ir eru langalgengastar í nefnifalli. Ekki er unnt að gefa örugga reglu um hvora endinguna skuli nota og verður því að leggja hana á minnið. Hestur er þannig í nefnifalli fleirtölu hestar en gestur er gestir. En þekkjum við nefnifallið vitum við með góðri vissu um þolfall fleirtölu. Sé endingin -ar endar þolfall fleirtölu á -a en sé endingin -ir endar þolfallið á -i.

Þumalfingursreglur gilda einnig um kvenkyns- og hvorugkynsorð. Ef orð er til dæmis endingarlaust bæði í nefnifalli og þolfalli eintölu og fleirtölu er það hvorugkyns og beygist eftir sterkri beygingu, til dæmis land - land/mörg lönd -lönd, torg - torg/mörg torg - torg.

Orð, sem eru endingarlaus í nefnifalli og þolfalli eintölu en fá aftur á móti beygingarendingar í nefnifalli og þolfalli fleirtölu, eru kvenkyns og beygjast einnig eftir sterkri beygingu, til dæmis skál -skál/skálar-skálar, borg - borg/borgir - borgir.

Orð sem endar á -a í öllum föllum eintölu en -u í öllum föllum fleirtölu er hvorugkyns og beygist eftir veikri beygingu, til dæmis eyra/eyru, auga/augu, hjarta/hjörtu.

Orð sem enda á -a í nefnifalli eintölu en -u í öðrum föllum eintölu er aftur á móti kvenkyns, til dæmis kápa - kápu, sápa - sápu, kirkja - kirkju, kona - konu.

Orð sem enda á -i í öllum föllum eintölu en hafa beygingarendingu í nefnifalli og þolfalli fleirtölu eru kvenkyns, til dæmis lygi, keppni.

Og góð þumalfingursregla um beygingu er að þágufall og eignarfall fleirtölu nær allra nafnorða hefur sömu endingar, það er -um í þágufalli og -a í eignarfalli: hestum -hesta, gestum - gesta, læknum - lækna, pennum - penna, vinum - vina, bræðrum - bræðra, mæðrum - mæðra, börnum - barna, borgum - borga og svo framvegis. Endi stofninn á tvíhljóði (á, ó) er þágufallsendingin hins vegar aðeins -m, móm-móa, krám - kráa.

Þótt þessar reglur nái ekki yfir öll orð í íslensku taka þær þó til mikils hluta nafnorðaforðans og geta hjálpað byrjendum, innlendum sem erlendum, að ná tökum á kyni íslenskra nafnorða.

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

4.6.2002

Spyrjandi

Chús M. Barja

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Eru til reglur um það hvenær nafnorð er kk., kvk. eða hk.? Fyrir útlending dugir ekki að bæta við greini..“ Vísindavefurinn, 4. júní 2002. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2455.

Guðrún Kvaran. (2002, 4. júní). Eru til reglur um það hvenær nafnorð er kk., kvk. eða hk.? Fyrir útlending dugir ekki að bæta við greini.. Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2455

Guðrún Kvaran. „Eru til reglur um það hvenær nafnorð er kk., kvk. eða hk.? Fyrir útlending dugir ekki að bæta við greini..“ Vísindavefurinn. 4. jún. 2002. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2455>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru til reglur um það hvenær nafnorð er kk., kvk. eða hk.? Fyrir útlending dugir ekki að bæta við greini.
Í íslensku hafa nafnorð nær alltaf fast kyn og sjaldnast er hægt að sjá af stofninum einum hvert kyn orðsins er. Aðeins fá dæmi eru þess að sama orðið sé til í fleiri en einu kyni. Það á þó til dæmis við um orð eins og hveiti og jógúrt, sem til eru bæði í hvorugkyni og kvenkyni, og regnskúr sem bæði er notað í karlkyni og kvenkyni.

Orðið kyn er málfræðilegt hugtak og engar fastar reglur eru til um það hvers kyns orð eigi að vera. Oft er þó samsvörun á milli málfræðilegs kyns og raunkyns, það er karlkyns vera er oft karlkyns, til dæmis maður, hestur, hrútur, grís, og kvenkyns vera oft kvenkyns, til dæmis kona, hryssa, ær, gylta. Dæmi á hinn veginn eru mýmörg, til dæmis er orðið naut hvorugkyns þótt um karlkyns skepnu sé að ræða, svanur á bæði við um karl- og kvenfugl, þótt orðið sé karlkynsorð, og sama gildir um fuglsheitið álft, það er bæði haft um karl- og kvenfugl þótt það sé kvenkynsorð.

Nafnorð beygjast á mismunandi hátt og hefð er fyrir því að þeim sé skipt í flokka eftir því hvernig beygingin er. Nokkuð er misjafnt hvernig beygingu er lýst og hversu mörg beygingardæmi eru nefnd. Jón Friðjónsson nefnir í bók sinni Íslensk beygingarfræði (1983) til dæmis 96 beygingadæmi fyrir nafnorð sem skiptast á 15 beygingarflokka.

Oft má sjá á beygingu orðs hvers kyns það muni vera þótt ekki sé það óbrigðult og oftast verður að læra kynið með orðinu. Þótt stundum geti verið erfitt að sjá kyn orðs þegar það stendur eitt og sér er hægt að nota nokkrar þumalfingursreglur sér til hjálpar við fjölmörg þeirra.

Einfaldast er að skipta nafnorðum fyrst í tvo meginflokka: sterka beygingu og veika beygingu. Orð af sterkri beygingu enda á samhljóði í nefnifalli en orð af veikri beygingu á sérhljóði (hestur - penni). Lítum fyrst á sterka beygingu karlkynsorða.

Orð, sem í nefnifalli eintölu enda á -r, eru langoftast karlkyns. Undantekningar eru fáar, en nefna má brúður og æður (= æðarfugl), sem eru kvenkynsorð, og verður að læra beygingu þeirra sérstaklega.

Fleiri þumalfingursreglur gilda sem nota má til að tileinka sér kyn og beygingu. Endi nafnorð í nefnifalli eintölu á -r höfum við séð að það er langoftast karlkyns. Þá getum við einnig dregið þá ályktun að þolfall sé án beygingarendingar. Dæmi: hestur - hest, vinur - vin, köttur - kött, mór - mó, læknir - lækni.

Frá þessu eru tiltölulega fáar undantekningar og þessar helstar: Ef um er að ræða orð sem hafa stofnlægt -r eins og akur eru nefnifall og þolfall eins, akur - akur og r-ið kemur einnig fram í þágufalli og eignarfalli (akri - akurs). Til undantekninga teljast einnig frændsemisorðin bróðir- bróður og faðir - föður, systir - systur, móðir - móður, dóttir - dóttur, og þarf að tileinka sér beygingu þeirra sérstaklega í eintölu og fleirtölu. Hvorugkynsorð geta einnig endað á stofnlægu -r-i eins og hreiður, eitur, en þau eru fá og þekkjast frá orðum eins og akur á því að nefnifall og þolfall fleirtölu er eins, eitt hreiður - mörg hreiður.

Ef nafnorð endar á -i í nefnifalli en -a í öðrum föllum eintölu er það karlkynsorð og beygist eftir veikri beygingu, kragi - kraga, sími - síma, penni - penna.

Um fleirtölu karlkynsorða er það að segja að endingarnar -ar og -ir eru langalgengastar í nefnifalli. Ekki er unnt að gefa örugga reglu um hvora endinguna skuli nota og verður því að leggja hana á minnið. Hestur er þannig í nefnifalli fleirtölu hestar en gestur er gestir. En þekkjum við nefnifallið vitum við með góðri vissu um þolfall fleirtölu. Sé endingin -ar endar þolfall fleirtölu á -a en sé endingin -ir endar þolfallið á -i.

Þumalfingursreglur gilda einnig um kvenkyns- og hvorugkynsorð. Ef orð er til dæmis endingarlaust bæði í nefnifalli og þolfalli eintölu og fleirtölu er það hvorugkyns og beygist eftir sterkri beygingu, til dæmis land - land/mörg lönd -lönd, torg - torg/mörg torg - torg.

Orð, sem eru endingarlaus í nefnifalli og þolfalli eintölu en fá aftur á móti beygingarendingar í nefnifalli og þolfalli fleirtölu, eru kvenkyns og beygjast einnig eftir sterkri beygingu, til dæmis skál -skál/skálar-skálar, borg - borg/borgir - borgir.

Orð sem endar á -a í öllum föllum eintölu en -u í öllum föllum fleirtölu er hvorugkyns og beygist eftir veikri beygingu, til dæmis eyra/eyru, auga/augu, hjarta/hjörtu.

Orð sem enda á -a í nefnifalli eintölu en -u í öðrum föllum eintölu er aftur á móti kvenkyns, til dæmis kápa - kápu, sápa - sápu, kirkja - kirkju, kona - konu.

Orð sem enda á -i í öllum föllum eintölu en hafa beygingarendingu í nefnifalli og þolfalli fleirtölu eru kvenkyns, til dæmis lygi, keppni.

Og góð þumalfingursregla um beygingu er að þágufall og eignarfall fleirtölu nær allra nafnorða hefur sömu endingar, það er -um í þágufalli og -a í eignarfalli: hestum -hesta, gestum - gesta, læknum - lækna, pennum - penna, vinum - vina, bræðrum - bræðra, mæðrum - mæðra, börnum - barna, borgum - borga og svo framvegis. Endi stofninn á tvíhljóði (á, ó) er þágufallsendingin hins vegar aðeins -m, móm-móa, krám - kráa.

Þótt þessar reglur nái ekki yfir öll orð í íslensku taka þær þó til mikils hluta nafnorðaforðans og geta hjálpað byrjendum, innlendum sem erlendum, að ná tökum á kyni íslenskra nafnorða.

...