Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Getur stéttarfélag afsalað sér verkfallsrétti svo að bindandi sé?

Lára V. Júlíusdóttir

Samkvæmt 14. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80 frá 1938 er stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum heimilt að beita verkföllum og verkbönnum til þess að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til að vernda þann rétt sem þeir hafa samkvæmt þessum sömu lögum. Þessi heimild er einungis háð þeim takmörkunum eða skilyrðum sem sett eru í landslögum.

Allir aðilar sem njóta þessa réttar eru taldir upp í greininni. Þeir eru í fyrsta lagi stéttarfélög, í öðru lagi félög atvinnurekenda og í þriðja lagi einstakir atvinnurekendur. Sambönd stéttarfélaga og atvinnurekendafélaga hafa þannig ekki rétt til að beita verkföllum eða verkbönnum. Einstakir launamenn eða starfshópar sem ekki njóta verndar stéttarfélags hafa heldur ekki rétt til að boða til verkfalls samkvæmt lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Ákveði þeir samt að leggja niður vinnu verður það ekki talið verkfall í skilningi laganna.

Í 5. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir að stéttarfélög séu lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að starfsemi þess skuli taka til slíkra málefna. Kjarasamningarnir sem stéttarfélag gerir fyrir hönd félagsmanna eru bindandi sem lágmarkskjör fyrir þá. Kjarasamningar eru bornir undir atkvæði í félaginu.

Dæmi eru um að stéttarfélög hafi með kjarasamningi samið um að takmarka verkfallsrétt sinn og jafnvel eru dæmi um að stéttarfélög hafi samið verkfallsréttinn af sér. Í kjarasamningi stéttarfélaganna við Íslenska álfélagið í Straumsvík eru til dæmis ákvæði sem tefja framkvæmd verkfalls. Stéttarfélög opinberra starfsmanna geta sennilega valið um leiðir í kjarabaráttu, óskað eftir því að vera tekin undir Kjaranefnd og afsalað sér þá verkfallsréttinum. Þetta verður að sjálfsögðu ekki gert án lagabreytingar.

Telja verður að stéttarfélög geti endurheimt verkfallsréttinn, með sama hætti og þau geta afsalað sér honum enda er verkfallsrétturinn ekki bara tryggður í lögum nr. 80 frá 1938 heldur líka staðfestur í samþykktum Alþjóðavinnumála- stofnunarinnar ILO (International Labour Organization) nr. 87 og 98. Ísland hefur staðfest þær svo þær hafa lagagildi hér á landi.

Ef stéttarfélag hefur afsalað sér eða takmarkað verkfallsrétt sinn með kjarasamningi, þá þarf að breyta þeim samningi til að félagið geti öðlast réttinn aftur. Um það verður að nást samkomulag við viðsemjendur. Hafi verkfallsrétti verið afsalað með lögum þarf lagabreytingu til að færa hann aftur til félagsins. Þar sem það er félagið sjálft sem fer með kjarasamningsréttinn er það félagið sem hlutast til um samningagerðina hvað þetta varðar.

Telji einstaklingar að brotið sé á rétti þeirra í þessu efni, er hugsanlegt að þeir geti farið með mál sín fyrir dómstóla. Það er að vísu vafamál að einstaklingur hafi af því lögvarða hagsmuni að stéttarfélagið hans endurheimti verkfallsrétt sem það hefur samið af sér, en slíkt er skilyrði fyrir því að hægt sé að leita með mál til dómstóla. Þó kunna þær aðstæður að koma upp.

Höfundur

hæstaréttarlögmaður

Útgáfudagur

5.6.2002

Spyrjandi

Guðmundur Bjarnason

Tilvísun

Lára V. Júlíusdóttir. „Getur stéttarfélag afsalað sér verkfallsrétti svo að bindandi sé?“ Vísindavefurinn, 5. júní 2002. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2461.

Lára V. Júlíusdóttir. (2002, 5. júní). Getur stéttarfélag afsalað sér verkfallsrétti svo að bindandi sé? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2461

Lára V. Júlíusdóttir. „Getur stéttarfélag afsalað sér verkfallsrétti svo að bindandi sé?“ Vísindavefurinn. 5. jún. 2002. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2461>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getur stéttarfélag afsalað sér verkfallsrétti svo að bindandi sé?
Samkvæmt 14. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80 frá 1938 er stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum heimilt að beita verkföllum og verkbönnum til þess að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til að vernda þann rétt sem þeir hafa samkvæmt þessum sömu lögum. Þessi heimild er einungis háð þeim takmörkunum eða skilyrðum sem sett eru í landslögum.

Allir aðilar sem njóta þessa réttar eru taldir upp í greininni. Þeir eru í fyrsta lagi stéttarfélög, í öðru lagi félög atvinnurekenda og í þriðja lagi einstakir atvinnurekendur. Sambönd stéttarfélaga og atvinnurekendafélaga hafa þannig ekki rétt til að beita verkföllum eða verkbönnum. Einstakir launamenn eða starfshópar sem ekki njóta verndar stéttarfélags hafa heldur ekki rétt til að boða til verkfalls samkvæmt lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Ákveði þeir samt að leggja niður vinnu verður það ekki talið verkfall í skilningi laganna.

Í 5. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir að stéttarfélög séu lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að starfsemi þess skuli taka til slíkra málefna. Kjarasamningarnir sem stéttarfélag gerir fyrir hönd félagsmanna eru bindandi sem lágmarkskjör fyrir þá. Kjarasamningar eru bornir undir atkvæði í félaginu.

Dæmi eru um að stéttarfélög hafi með kjarasamningi samið um að takmarka verkfallsrétt sinn og jafnvel eru dæmi um að stéttarfélög hafi samið verkfallsréttinn af sér. Í kjarasamningi stéttarfélaganna við Íslenska álfélagið í Straumsvík eru til dæmis ákvæði sem tefja framkvæmd verkfalls. Stéttarfélög opinberra starfsmanna geta sennilega valið um leiðir í kjarabaráttu, óskað eftir því að vera tekin undir Kjaranefnd og afsalað sér þá verkfallsréttinum. Þetta verður að sjálfsögðu ekki gert án lagabreytingar.

Telja verður að stéttarfélög geti endurheimt verkfallsréttinn, með sama hætti og þau geta afsalað sér honum enda er verkfallsrétturinn ekki bara tryggður í lögum nr. 80 frá 1938 heldur líka staðfestur í samþykktum Alþjóðavinnumála- stofnunarinnar ILO (International Labour Organization) nr. 87 og 98. Ísland hefur staðfest þær svo þær hafa lagagildi hér á landi.

Ef stéttarfélag hefur afsalað sér eða takmarkað verkfallsrétt sinn með kjarasamningi, þá þarf að breyta þeim samningi til að félagið geti öðlast réttinn aftur. Um það verður að nást samkomulag við viðsemjendur. Hafi verkfallsrétti verið afsalað með lögum þarf lagabreytingu til að færa hann aftur til félagsins. Þar sem það er félagið sjálft sem fer með kjarasamningsréttinn er það félagið sem hlutast til um samningagerðina hvað þetta varðar.

Telji einstaklingar að brotið sé á rétti þeirra í þessu efni, er hugsanlegt að þeir geti farið með mál sín fyrir dómstóla. Það er að vísu vafamál að einstaklingur hafi af því lögvarða hagsmuni að stéttarfélagið hans endurheimti verkfallsrétt sem það hefur samið af sér, en slíkt er skilyrði fyrir því að hægt sé að leita með mál til dómstóla. Þó kunna þær aðstæður að koma upp.

...