Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í flestum löndum fyrr á tímum voru börn höfð á brjósti um lengri tíma. Sums staðar var þó algengt að nýfædd börn væru alls ekki lögð á brjóst eða þau væru vanin af brjósti mjög snemma. Þá var farið að gefa þeim ýmsa fljótandi og fasta fæðu strax eftir fæðingu og brjóstagjöf var þá hætt jafnvel innan nokkra vikna. Ísland var eitt þeirra svæða þar sem brjóstagjöf var afar sjaldgæf fyrr á tímum. Sennilega voru Þingeyjarsýslur og Reykjavík einu svæðin á Íslandi þar sem lítil börn voru almennt höfð á brjósti um miðbik 19. aldar.
Í sveitum utan Þingeyjarsýslna var algengt að börnin væru aldrei lögð á brjóst og var þá gefin kúamjólk strax og þau fæddust. Þá bundu konur yfirleitt upp brjóstin svo engin mjólk rynni til þeirra. Í sjávarplássum var hins vegar lítið til af kúamjólk og þess vegna gáfu konur oft brjóst í stuttan tíma eftir fæðinguna. Það var hins vegar sjaldgæft að börnin væru lengi á brjósti og þeim var gefin ýmiss konar fæða sem til féll í sjávarplássunum, hertan fisk, fisklifur og þar fram eftir götunum. Vegna þess hve lítil þekking var á smitleiðum sjúkdóma og á mikilvægi hreinlætis í meðferð ungbarnafæðu var mjög algengt að börn á þessum landssvæðum fengju hættulega magasjúkdóma og ungbarnadauði var þess vegna mjög hár á Íslandi á þessum tíma.
Það er erfitt að átta sig á því af hverju konur í fátækum þjóðfélögum þar sem matur var oft af skornum skammti kusu að hafa börnin sín ekki á brjósti. Sennilega hefur mikið vinnuálag skipt einhverju máli og svo sú staðreynd að konur í íslenskum sveitum voru oft einar með heimilin þegar eiginmenn þeirra fóru í verið. Þá gat oft verið skynsamlegt að láta eldri systkini eða afa og ömmu hugsa um litla barnið meðan mamman sinnti bústörfum.
Upp úr 1870 fór að verða algengara að lítil börn væru höfð á brjósti á Íslandi. Þá fjölgaði menntuðum ljósmæðrum hér á landi. Ljósmæður sinntu sængurkonum í um hálfan mánuð eftir fæðinguna og fræddu þær um barnauppeldi, meðal annars um brjóstagjöf. Sennilega má að stórum hluta þakka ljósmæðrum þann mikla árangur sem náðist í lækkun ungbarnadauða á Íslandi á seinni hluta 19. aldar.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
Ólöf Garðarsdóttir. „Voru lítil börn á brjósti í gamla daga?“ Vísindavefurinn, 26. júní 2002, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2531.
Ólöf Garðarsdóttir. (2002, 26. júní). Voru lítil börn á brjósti í gamla daga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2531
Ólöf Garðarsdóttir. „Voru lítil börn á brjósti í gamla daga?“ Vísindavefurinn. 26. jún. 2002. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2531>.