Sólin Sólin Rís 04:53 • sest 22:11 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:29 • Sest 22:12 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:02 • Síðdegis: 13:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:20 • Síðdegis: 20:17 í Reykjavík

Hvernig fer nautaat fram?

Gunnar Þór Magnússon

Nautaat er athöfn sem tíðkast í sumum löndum Suður-Evrópu og Suður-Ameríku þar sem nautum og mönnum er att saman á leikvöngum og í hringleikahúsum. Til eru nokkur afbrigði nautaata sem eru breytileg eftir löndum og héruðum; til dæmis eru nautaöt í Portúgal, sumum héruðum Suður-Frakklands og í Baskalandi ekki sami hluturinn. Þessar tegundir nautaata eru svo aftur ólík því sem tíðkast á Spáni, en það er afbrigðið sem flestum dettur í hug þegar þeir heyra minnst á nautaat. Við gerum nánari grein fyrir því hér.

Spænskt nautaat er mjög formföst athöfn sem á sér ríka hefð. Í venjulegu ati berjast þrír nautabanar (sp. matador) við tvö naut hver og í heild taka öll sex ötin yfirleitt rúma tvo klukkutíma. Oftast fylgja sex aðstoðarmenn hverjum nautabana; tveir lensuknapar (picador) eru á hestbaki og vopnaðir spjótum, þrír örvasveinar (banderillo) bera hárbeitt ílöng fjaðurspjót, og sá síðasti er sverðsveinn (mozo de espada) sem sér um sverð nautabanans. Sameiginlegt spænskt heiti um alla þessa sjö menn sem berjast við nautið á leikvanginum er torero.Nautabanar og aðstoðarmenn þeirra ganga inn á leikvang. Örvasveinar eru til vinstri, lensuknapar í miðjunni og í bakgrunni til hægri má sjá óbreytta starfsmenn í rauðum treyjum.

Nautaatið byrjar á því að allir nautabanarnir og aðstoðarmenn þeirra ganga inn á leikvanginn, heilsa dómaranum sem situr ásamt öðrum embættismönnum í stúku, og ganga út aftur. Því næst hljómar trompet og fyrsta nautinu er sleppt inn á leikvanginn. Sérhver bardagi skiptist í þrjár lotur og sami trompet og tilkynnti innkomu nautsins lætur líka vita hvenær hver lota byrjar.

Fyrsta lotan gengur út á að leyfa nautabananum að meta nautið og sjá styrkleika þess og veikleika eru. Bæði nautabaninn og örvasveinarnir dreifa sér um jaðar leikvangsins með bleikar og bláar skikkjur sem þeir sveifla til að ná athygli nautsins. Ef nautið kemur of nálægt einhverjum þeirra þá ganga þeir út af leikvanginum gegnum lítil hlið sem er of þröngt til að nautið komist í gegn.Naut leggur til atlögu við lensuknapa á hesti sínum. Í bakgrunni er annar lensuknapi, örvasveinn og tveir aðstoðarmenn.

Eftir nokkrar mínútur ríða lensuknaparnir inn á leikvanginn á hestunum sínum. Þeir egna nautið til að ráðast á hestinn, stanga hann og reyna að velta honum. Frá árinu 1930 hafa hestarnir verið varðir með þykkum hlífum og það er bundið fyrir augun á þeim, en fyrir þann tíma risti nautið þá á hol. Á meðan nautið stangar og glímir við hestinn stingur knapinn það á milli herðanna með spjóti. Bæði sárin og glíman við hestinn þjóna þeim tilgangi að veikja og þreyta hálsvöðva nautsins svo það haldi hausnum nær jörðu síðar meir og sé ekki eins hættulegt nautabananum.

Önnur lota hefst á því að nautabaninn og lensuknapar yfirgefa leikvanginn en örvasveinarnir ná í fjaðurspjótin sín. Spjótin eru um 75 cm löng, skreytt með pappír í litum héraðsins og með litlum hvössum oddum á endanum. Hver örvasveinn reynir nú að ná athygli nautsins, bíður eftir að það geri árás á hann, forðar sér svo frá nautinu og stingur tveim fjaðurspjótum á milli herða þess. Þessi nýju sár veikja frekar herða- og hálsvöðva nautsins.Örvasveinn með spjót í litum Madríd reiðir til höggs.

Um leið og að örvasveinarnir hafa lokið sér af gefur trompetinn til kynna upphaf þriðju lotu og allir yfirgefa leikvanginn til að rýma fyrir nautabananum. Hann gengur nú inn með sverð og rauðu duluna sem margir kannast við. Útbreidd þjóðsaga er að dulan sé rauð af því að naut þoli þann lit ekki; staðreyndin er hins vegar sú að naut eru litblind og laðast einungis að því hvernig nautabaninn hreyfir duluna. Hún er rauð til að dylja nautablóðið á henni.

Nautabaninn þreytir nautið smátt og smátt með því að fá það til að leggja til atlögu við duluna. Fyrir utan að þreyta nautið er markmiðið að sýna bæði yfirráð nautabanans yfir nautinu og hugrekki hans í návist þess. Oft egnir baninn nautið til þriggja til fimm árásarlota, en á milli þeirra getur hann snúið baki sínu að nautinu til að leggja áherslu á yfirburði sína yfir því. Að lokum færir baninn sig mjög nálægt nautinu, teygir sig yfir höfuð þess og stingur sverði sínu á milli rifbeinanna í hjarta þess. Góður nautabani á að drepa nautið í einu höggi, en ef honum mistekst þarf hann að skera á mænu nautsins með öðru sverði.Nautabani glímir við naut.

Þó högg nautabanans sé yfirleitt banvænt getur það tekið nautið nokkurn tíma að deyja. Til að hlífa dýrinu við óþarfa sársauka sker aðstoðarmaður nautabanans því á mænu dýrsins með litlum hníf þegar það fellur til jarðar. Ef áhorfendum og dómaranum þykja nautabaninn hafa staðið sig sérstaklega vel geta þeir verðlaunað hann með öðru eða báðum eyrum nautsins eða hala þess. Ef nautabani fær tvö eða fleiri eyru er hann borinn út á öxlum aðdáenda sinna, og ef að minnsta kosti helmingur áhorfenda óskar eftir því má nautabaninn hlaupa sigurhring um leikvanginn. Því næst draga múldýr skrokk nautsins af leikvanginum, starfsmenn dreifa sandi yfir blóðið á jörðinni, og næsta naut og nautabanalið mætast í hringnum.

Tengt efni á Vísindavefnum:

Heimildir, frekara lesefni og myndir:

 • Nautaat á Wikipedia.
 • Spænskt nautaat á Wikipedia.
 • Death in the afternoon, frásögn Ernest Hemingway af nautaati og nautabönum.
 • Myndin af örvasveininum er af Flickr síðu chablis2008.
 • Myndin af nautabananum er af Flickr síðu Reid Gilman.
 • Allar aðrar myndir eru af Wikipedia.

Höfundur

Gunnar Þór Magnússon

stærðfræðingur

Útgáfudagur

17.7.2009

Spyrjandi

Nanna Kristjánsdóttir

Tilvísun

Gunnar Þór Magnússon. „Hvernig fer nautaat fram?“ Vísindavefurinn, 17. júlí 2009. Sótt 7. ágúst 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=25385.

Gunnar Þór Magnússon. (2009, 17. júlí). Hvernig fer nautaat fram? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=25385

Gunnar Þór Magnússon. „Hvernig fer nautaat fram?“ Vísindavefurinn. 17. júl. 2009. Vefsíða. 7. ágú. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=25385>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig fer nautaat fram?
Nautaat er athöfn sem tíðkast í sumum löndum Suður-Evrópu og Suður-Ameríku þar sem nautum og mönnum er att saman á leikvöngum og í hringleikahúsum. Til eru nokkur afbrigði nautaata sem eru breytileg eftir löndum og héruðum; til dæmis eru nautaöt í Portúgal, sumum héruðum Suður-Frakklands og í Baskalandi ekki sami hluturinn. Þessar tegundir nautaata eru svo aftur ólík því sem tíðkast á Spáni, en það er afbrigðið sem flestum dettur í hug þegar þeir heyra minnst á nautaat. Við gerum nánari grein fyrir því hér.

Spænskt nautaat er mjög formföst athöfn sem á sér ríka hefð. Í venjulegu ati berjast þrír nautabanar (sp. matador) við tvö naut hver og í heild taka öll sex ötin yfirleitt rúma tvo klukkutíma. Oftast fylgja sex aðstoðarmenn hverjum nautabana; tveir lensuknapar (picador) eru á hestbaki og vopnaðir spjótum, þrír örvasveinar (banderillo) bera hárbeitt ílöng fjaðurspjót, og sá síðasti er sverðsveinn (mozo de espada) sem sér um sverð nautabanans. Sameiginlegt spænskt heiti um alla þessa sjö menn sem berjast við nautið á leikvanginum er torero.Nautabanar og aðstoðarmenn þeirra ganga inn á leikvang. Örvasveinar eru til vinstri, lensuknapar í miðjunni og í bakgrunni til hægri má sjá óbreytta starfsmenn í rauðum treyjum.

Nautaatið byrjar á því að allir nautabanarnir og aðstoðarmenn þeirra ganga inn á leikvanginn, heilsa dómaranum sem situr ásamt öðrum embættismönnum í stúku, og ganga út aftur. Því næst hljómar trompet og fyrsta nautinu er sleppt inn á leikvanginn. Sérhver bardagi skiptist í þrjár lotur og sami trompet og tilkynnti innkomu nautsins lætur líka vita hvenær hver lota byrjar.

Fyrsta lotan gengur út á að leyfa nautabananum að meta nautið og sjá styrkleika þess og veikleika eru. Bæði nautabaninn og örvasveinarnir dreifa sér um jaðar leikvangsins með bleikar og bláar skikkjur sem þeir sveifla til að ná athygli nautsins. Ef nautið kemur of nálægt einhverjum þeirra þá ganga þeir út af leikvanginum gegnum lítil hlið sem er of þröngt til að nautið komist í gegn.Naut leggur til atlögu við lensuknapa á hesti sínum. Í bakgrunni er annar lensuknapi, örvasveinn og tveir aðstoðarmenn.

Eftir nokkrar mínútur ríða lensuknaparnir inn á leikvanginn á hestunum sínum. Þeir egna nautið til að ráðast á hestinn, stanga hann og reyna að velta honum. Frá árinu 1930 hafa hestarnir verið varðir með þykkum hlífum og það er bundið fyrir augun á þeim, en fyrir þann tíma risti nautið þá á hol. Á meðan nautið stangar og glímir við hestinn stingur knapinn það á milli herðanna með spjóti. Bæði sárin og glíman við hestinn þjóna þeim tilgangi að veikja og þreyta hálsvöðva nautsins svo það haldi hausnum nær jörðu síðar meir og sé ekki eins hættulegt nautabananum.

Önnur lota hefst á því að nautabaninn og lensuknapar yfirgefa leikvanginn en örvasveinarnir ná í fjaðurspjótin sín. Spjótin eru um 75 cm löng, skreytt með pappír í litum héraðsins og með litlum hvössum oddum á endanum. Hver örvasveinn reynir nú að ná athygli nautsins, bíður eftir að það geri árás á hann, forðar sér svo frá nautinu og stingur tveim fjaðurspjótum á milli herða þess. Þessi nýju sár veikja frekar herða- og hálsvöðva nautsins.Örvasveinn með spjót í litum Madríd reiðir til höggs.

Um leið og að örvasveinarnir hafa lokið sér af gefur trompetinn til kynna upphaf þriðju lotu og allir yfirgefa leikvanginn til að rýma fyrir nautabananum. Hann gengur nú inn með sverð og rauðu duluna sem margir kannast við. Útbreidd þjóðsaga er að dulan sé rauð af því að naut þoli þann lit ekki; staðreyndin er hins vegar sú að naut eru litblind og laðast einungis að því hvernig nautabaninn hreyfir duluna. Hún er rauð til að dylja nautablóðið á henni.

Nautabaninn þreytir nautið smátt og smátt með því að fá það til að leggja til atlögu við duluna. Fyrir utan að þreyta nautið er markmiðið að sýna bæði yfirráð nautabanans yfir nautinu og hugrekki hans í návist þess. Oft egnir baninn nautið til þriggja til fimm árásarlota, en á milli þeirra getur hann snúið baki sínu að nautinu til að leggja áherslu á yfirburði sína yfir því. Að lokum færir baninn sig mjög nálægt nautinu, teygir sig yfir höfuð þess og stingur sverði sínu á milli rifbeinanna í hjarta þess. Góður nautabani á að drepa nautið í einu höggi, en ef honum mistekst þarf hann að skera á mænu nautsins með öðru sverði.Nautabani glímir við naut.

Þó högg nautabanans sé yfirleitt banvænt getur það tekið nautið nokkurn tíma að deyja. Til að hlífa dýrinu við óþarfa sársauka sker aðstoðarmaður nautabanans því á mænu dýrsins með litlum hníf þegar það fellur til jarðar. Ef áhorfendum og dómaranum þykja nautabaninn hafa staðið sig sérstaklega vel geta þeir verðlaunað hann með öðru eða báðum eyrum nautsins eða hala þess. Ef nautabani fær tvö eða fleiri eyru er hann borinn út á öxlum aðdáenda sinna, og ef að minnsta kosti helmingur áhorfenda óskar eftir því má nautabaninn hlaupa sigurhring um leikvanginn. Því næst draga múldýr skrokk nautsins af leikvanginum, starfsmenn dreifa sandi yfir blóðið á jörðinni, og næsta naut og nautabanalið mætast í hringnum.

Tengt efni á Vísindavefnum:

Heimildir, frekara lesefni og myndir:

 • Nautaat á Wikipedia.
 • Spænskt nautaat á Wikipedia.
 • Death in the afternoon, frásögn Ernest Hemingway af nautaati og nautabönum.
 • Myndin af örvasveininum er af Flickr síðu chablis2008.
 • Myndin af nautabananum er af Flickr síðu Reid Gilman.
 • Allar aðrar myndir eru af Wikipedia.

...