Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er meðalhófsregla?

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Til þess að svara þessari spurningu er vert að fjalla fyrst almennt um stjórnsýslu og stjórnsýslulög.

Íslensk stjórnskipun einkennist meðal annars af þrískiptingu ríkisvaldsins í löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald. Hlutverk stjórnvalda sem fara með framkvæmdavaldið er tvíþætt. Annars vegar sjá þau um framkvæmd laga sem sett eru af Alþingi og hins vegar sjá þau um nánari útfærslu laganna með svokölluðum stjórnsýslufyrirmælum, til dæmis reglugerðum og gjaldskrám. Valdsvið stjórnsýslunnar fer sívaxandi og afskipti stjórnvalda af borgurunum einnig. Með þróun sem upphófst við lok síðari heimsstyrjaldarinnar hafa kröfur til stjórnvalda farið vaxandi, með breyttu viðhorfi manna til samskipta stjórnvalda og borgaranna.

Stjórnsýslulögin, lög nr. 37/1993 kveða á um reglur sem stjórnvöldum ber að virða við töku ákvarðana um rétt eða skyldu borgaranna, það er að segja svokallaðar stjórnvaldsákvarðanir1. Þau gilda um alla opinbera stjórnsýslu, hvort sem hún er í höndum ríkis, sveitarfélaga, sérstakra stofnana, sjálfstæðra stjórnsýslunefnda eða annarra aðila á þeirra vegum. Lögin gilda aðeins um handhafa framkvæmdavaldsins, en hvorki um dómstóla (dómsvaldið) né Alþingi (löggjafarvaldið).

Um tilurð laganna

Svo virðist sem byrjað hafi verið að ræða þörfina á auknu réttaröryggi borgaranna gagnvart stjórnsýslunni á seinni hluta sjöunda áratugarins. Menn voru þó ekki allir sammála, og höfðu sumir áhyggjur af því að almenn stjórnsýslulög myndu draga úr skilvirkni stjórnsýslunnar. Brugðu menn þá á það ráð að setja reglur um tiltekna þætti stjórnsýslunnar, svo sem um aðgang almennings að gögnum í vörslum stjórnvalda.

Tillaga til þingsályktunar um upplýsingaskyldu stjórnvalda var fyrst lögð fyrir Alþingi vorið 1970. Árið 1987 var fyrst lagt fram frumvarp til stjórnsýslulaga. Sama ár voru samþykkt lög um umboðsmann Alþingis, nú lög nr. 85/1997, en segja má að umboðsmaður Alþingis sé einskonar réttargæslumaður borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Hann lætur í ljós álit sitt á lögum og framkvæmd stjórnvalda á þeim og gætir þannig hagsmuna borgaranna samkvæmt stjórnsýslulögunum. Álit umboðsmanns Alþingis eru ekki bindandi, en þau eru mikils metin og taka stjórnvöld oftast tillit til þeirra.

Hinn 27. apríl 1993 var frumvarp til almennra stjórnsýslulaga samþykkt samhljóða og tóku þau gildi 1. janúar 1994..

Meðalhófsreglan

Stundum veita lög stjórnvöldum svigrúm til mats við töku stjórnvaldsákvarðana. En það er ekki þar með sagt að stjórnvöld hafi algerlega frjálsar hendur við ákvarðanatökuna. Samkvæmt lögmætisreglunni svokölluðu þarf ákvörðunin að eiga sér stoð í lögum og vera í samræmi við lög, málefnaleg sjónarmið þurfa að liggja að baki ákvörðuninni og svo er stjórnvaldið einnig bundið við hina svonefndu meðalhófsreglu. Hún er lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaganna, en þar segir:
Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Inntak meðalhófsreglunnar er í megindráttum þríþætt. Í fyrsta lagi verður efni stjórnvaldsákvörðunar að vera til þess fallið að ná því markmiði sem að er stefnt. Þegar val stendur um fleiri úrræði en eitt til þess að þjóna settu markmiði, skal í öðru lagi velja það úrræði sem minnstri röskun veldur á hagsmunum borgarans. Í þriðja lagi skulu stjórnvöld gæta hófs við beitingu úrræðisins sem valið hefur verið. Ekki má beita úrræðinu á harkalegri hátt en nauðsynlegt er.

Þó meðalhófsreglan hafi fyrst verið lögfest með stjórnsýslulögunum nær uppruni hennar lengra. Áður gilti grundvallarregla um meðalhóf, til dæmis um valdbeitingu lögreglu. Meðalhófsregla stjórnsýslulaganna gildir sem áður segir um allar ákvarðanir sem stjórnvöld taka um réttindi og/eða skyldur borgaranna. Hún er því almenn regla. Meðalhófsregluna er þó einnig að finna í öðrum lögum, svo sem í 1. mgr. 101. gr. laga um meðferð opinberra mála, um að við handtöku skuli þess gætt að valda hinum handtekna ekki frekari óþægindum en nauðsynlegt sé.

Ef stjórnvöld brjóta gegn meðalhófsreglunni við ákvarðanatöku getur það leitt til þess að ákvörðunin sé ógildanleg. Borgararnir verða þó almennt að virða ákvörðunina þar til hún hefur fengist ógilt af þar til bæru stjórnvaldi. Verði menn fyrir tjóni vegna brots á meðalhófsreglunni geta þeir í mörgum tilfellum átt rétt til bóta. Um bótarétt vegna harðræðis við handtöku og fleira er til dæmis kveðið á í 176. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Heimildir og frekari lesning:
  • Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur. Háskólaútgáfan. Reykjavík 1999.
  • Dr. Jur. Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin, skýringarrit. Forsætisráðuneytið. Reykjavík 1994.


1 II. kafli laganna um sérstakt hæfi gildir þó einnig um einkaréttarlega samninga sem stjórnvöld gera.

Höfundur

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

doktorsnemi í mannréttindalögfræði við háskólann í Strassborg

Útgáfudagur

28.8.2008

Spyrjandi

Sunna Jóhannsdóttir

Tilvísun

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir. „Hvað er meðalhófsregla?“ Vísindavefurinn, 28. ágúst 2008, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=25423.

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir. (2008, 28. ágúst). Hvað er meðalhófsregla? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=25423

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir. „Hvað er meðalhófsregla?“ Vísindavefurinn. 28. ágú. 2008. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=25423>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er meðalhófsregla?
Til þess að svara þessari spurningu er vert að fjalla fyrst almennt um stjórnsýslu og stjórnsýslulög.

Íslensk stjórnskipun einkennist meðal annars af þrískiptingu ríkisvaldsins í löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald. Hlutverk stjórnvalda sem fara með framkvæmdavaldið er tvíþætt. Annars vegar sjá þau um framkvæmd laga sem sett eru af Alþingi og hins vegar sjá þau um nánari útfærslu laganna með svokölluðum stjórnsýslufyrirmælum, til dæmis reglugerðum og gjaldskrám. Valdsvið stjórnsýslunnar fer sívaxandi og afskipti stjórnvalda af borgurunum einnig. Með þróun sem upphófst við lok síðari heimsstyrjaldarinnar hafa kröfur til stjórnvalda farið vaxandi, með breyttu viðhorfi manna til samskipta stjórnvalda og borgaranna.

Stjórnsýslulögin, lög nr. 37/1993 kveða á um reglur sem stjórnvöldum ber að virða við töku ákvarðana um rétt eða skyldu borgaranna, það er að segja svokallaðar stjórnvaldsákvarðanir1. Þau gilda um alla opinbera stjórnsýslu, hvort sem hún er í höndum ríkis, sveitarfélaga, sérstakra stofnana, sjálfstæðra stjórnsýslunefnda eða annarra aðila á þeirra vegum. Lögin gilda aðeins um handhafa framkvæmdavaldsins, en hvorki um dómstóla (dómsvaldið) né Alþingi (löggjafarvaldið).

Um tilurð laganna

Svo virðist sem byrjað hafi verið að ræða þörfina á auknu réttaröryggi borgaranna gagnvart stjórnsýslunni á seinni hluta sjöunda áratugarins. Menn voru þó ekki allir sammála, og höfðu sumir áhyggjur af því að almenn stjórnsýslulög myndu draga úr skilvirkni stjórnsýslunnar. Brugðu menn þá á það ráð að setja reglur um tiltekna þætti stjórnsýslunnar, svo sem um aðgang almennings að gögnum í vörslum stjórnvalda.

Tillaga til þingsályktunar um upplýsingaskyldu stjórnvalda var fyrst lögð fyrir Alþingi vorið 1970. Árið 1987 var fyrst lagt fram frumvarp til stjórnsýslulaga. Sama ár voru samþykkt lög um umboðsmann Alþingis, nú lög nr. 85/1997, en segja má að umboðsmaður Alþingis sé einskonar réttargæslumaður borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Hann lætur í ljós álit sitt á lögum og framkvæmd stjórnvalda á þeim og gætir þannig hagsmuna borgaranna samkvæmt stjórnsýslulögunum. Álit umboðsmanns Alþingis eru ekki bindandi, en þau eru mikils metin og taka stjórnvöld oftast tillit til þeirra.

Hinn 27. apríl 1993 var frumvarp til almennra stjórnsýslulaga samþykkt samhljóða og tóku þau gildi 1. janúar 1994..

Meðalhófsreglan

Stundum veita lög stjórnvöldum svigrúm til mats við töku stjórnvaldsákvarðana. En það er ekki þar með sagt að stjórnvöld hafi algerlega frjálsar hendur við ákvarðanatökuna. Samkvæmt lögmætisreglunni svokölluðu þarf ákvörðunin að eiga sér stoð í lögum og vera í samræmi við lög, málefnaleg sjónarmið þurfa að liggja að baki ákvörðuninni og svo er stjórnvaldið einnig bundið við hina svonefndu meðalhófsreglu. Hún er lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaganna, en þar segir:
Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Inntak meðalhófsreglunnar er í megindráttum þríþætt. Í fyrsta lagi verður efni stjórnvaldsákvörðunar að vera til þess fallið að ná því markmiði sem að er stefnt. Þegar val stendur um fleiri úrræði en eitt til þess að þjóna settu markmiði, skal í öðru lagi velja það úrræði sem minnstri röskun veldur á hagsmunum borgarans. Í þriðja lagi skulu stjórnvöld gæta hófs við beitingu úrræðisins sem valið hefur verið. Ekki má beita úrræðinu á harkalegri hátt en nauðsynlegt er.

Þó meðalhófsreglan hafi fyrst verið lögfest með stjórnsýslulögunum nær uppruni hennar lengra. Áður gilti grundvallarregla um meðalhóf, til dæmis um valdbeitingu lögreglu. Meðalhófsregla stjórnsýslulaganna gildir sem áður segir um allar ákvarðanir sem stjórnvöld taka um réttindi og/eða skyldur borgaranna. Hún er því almenn regla. Meðalhófsregluna er þó einnig að finna í öðrum lögum, svo sem í 1. mgr. 101. gr. laga um meðferð opinberra mála, um að við handtöku skuli þess gætt að valda hinum handtekna ekki frekari óþægindum en nauðsynlegt sé.

Ef stjórnvöld brjóta gegn meðalhófsreglunni við ákvarðanatöku getur það leitt til þess að ákvörðunin sé ógildanleg. Borgararnir verða þó almennt að virða ákvörðunina þar til hún hefur fengist ógilt af þar til bæru stjórnvaldi. Verði menn fyrir tjóni vegna brots á meðalhófsreglunni geta þeir í mörgum tilfellum átt rétt til bóta. Um bótarétt vegna harðræðis við handtöku og fleira er til dæmis kveðið á í 176. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Heimildir og frekari lesning:
  • Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur. Háskólaútgáfan. Reykjavík 1999.
  • Dr. Jur. Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin, skýringarrit. Forsætisráðuneytið. Reykjavík 1994.


1 II. kafli laganna um sérstakt hæfi gildir þó einnig um einkaréttarlega samninga sem stjórnvöld gera. ...