Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.Inntak meðalhófsreglunnar er í megindráttum þríþætt. Í fyrsta lagi verður efni stjórnvaldsákvörðunar að vera til þess fallið að ná því markmiði sem að er stefnt. Þegar val stendur um fleiri úrræði en eitt til þess að þjóna settu markmiði, skal í öðru lagi velja það úrræði sem minnstri röskun veldur á hagsmunum borgarans. Í þriðja lagi skulu stjórnvöld gæta hófs við beitingu úrræðisins sem valið hefur verið. Ekki má beita úrræðinu á harkalegri hátt en nauðsynlegt er. Þó meðalhófsreglan hafi fyrst verið lögfest með stjórnsýslulögunum nær uppruni hennar lengra. Áður gilti grundvallarregla um meðalhóf, til dæmis um valdbeitingu lögreglu. Meðalhófsregla stjórnsýslulaganna gildir sem áður segir um allar ákvarðanir sem stjórnvöld taka um réttindi og/eða skyldur borgaranna. Hún er því almenn regla. Meðalhófsregluna er þó einnig að finna í öðrum lögum, svo sem í 1. mgr. 101. gr. laga um meðferð opinberra mála, um að við handtöku skuli þess gætt að valda hinum handtekna ekki frekari óþægindum en nauðsynlegt sé. Ef stjórnvöld brjóta gegn meðalhófsreglunni við ákvarðanatöku getur það leitt til þess að ákvörðunin sé ógildanleg. Borgararnir verða þó almennt að virða ákvörðunina þar til hún hefur fengist ógilt af þar til bæru stjórnvaldi. Verði menn fyrir tjóni vegna brots á meðalhófsreglunni geta þeir í mörgum tilfellum átt rétt til bóta. Um bótarétt vegna harðræðis við handtöku og fleira er til dæmis kveðið á í 176. gr. laga um meðferð opinberra mála. Heimildir og frekari lesning:
- Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur. Háskólaútgáfan. Reykjavík 1999.
- Dr. Jur. Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin, skýringarrit. Forsætisráðuneytið. Reykjavík 1994.
1 II. kafli laganna um sérstakt hæfi gildir þó einnig um einkaréttarlega samninga sem stjórnvöld gera.