Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Í hvaða heimsálfu er Mexíkó, Norður- eða Suður-Ameríku?

Landfræðilega er Mexíkó hluti Norður-Ameríku, en menningarlega á Mexíkó þó margt sameiginlegt með löndum Suður-Ameríku.

Samkvæmt hefð er þurrlendi jarðar skipt í sjö meginlönd eins og lesa má í svari EMB við spurningunni Hvað eru heimsálfurnar margar? og fylgja heimsálfurnar þeirri skiptingu. Í svari við spurningunni Hvernig eru nöfn heimsálfanna til komin? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur kemur fram að mörkin á milli Norður- og Suður-Ameríku eru yfirleitt talin liggja um Panamaeiði. Samkvæmt því er Mexíkó hluti af Norður-Ameríku.

Þó að lönd séu oft flokkuð saman eftir því hvaða heimsálfu þau tilheyra þá er einnig algengt að tala um ákveðin svæði sem ekki endilega fylgja mörkum heimsálfanna. Hugtakið Mið-Ameríka er til dæmis oft notað um syðsta hluta Norður-Ameríku eða það svæði sem tengir saman meginlönd Norður- og Suður-Ameríku. Landfræðileg skilgreining á Mið-Ameríku er svæðið frá Tahuantepec-þrengslunum í Suður-Mexíkó að Panamaeiðinu. Megin hluti Mexíkó er þá í Norður-Ameríku en lítill hluti í suðri tilheyrir Mið-Ameríku.

Annað hugtak sem gjarnan er notað er Rómanska Ameríka, en það tekur til Mexíkó, Mið- og Suður-Ameríku. Við skilgreiningu á Rómönsku Ameríku er það menning frekar en landfræðilegar aðstæður sem ákvarðar svæðið. Þó svo að Mexíkó sé landfræðilega í Norður-Ameríku þá á það menningarlega margt sameiginlegt með löndum Suður-Ameríku. Sem dæmi má nefna að rómönsk mál (spænska og portúgalska) eru ráðandi í Mið- og Suður-Ameríku og er opinbert tungumál í Mexíkó spænska. Líkt og í mörgum löndum Suður-Ameríku er mikill meirihluti Mexíkóa kaþólskrar trúar, en innan við helmingur íbúa Bandaríkjanna og Kanada aðhyllast kaþólska trú. Menning frumbyggja í Mexíkó setur mikinn svip á menningu landsins eins og í sumum löndum Suður-Ameríku, ólíkt því sem gerist norðan landamæranna.

Þetta eru einungis örfá dæmi um sameiginleg einkenni landa Rómönsku Ameríku en þau undirstrika að skilgreining svæða byggist oft á menningu ekki síður en landfræðilegum aðstæðum.Skoðið einnig svör við eftirfarandi spurningum:Heimild:

Britannica Online

Útgáfudagur

5.7.2002

Spyrjandi

Lárus Ragnarsson

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Í hvaða heimsálfu er Mexíkó, Norður- eða Suður-Ameríku?“ Vísindavefurinn, 5. júlí 2002. Sótt 5. desember 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=2570.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2002, 5. júlí). Í hvaða heimsálfu er Mexíkó, Norður- eða Suður-Ameríku? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2570

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Í hvaða heimsálfu er Mexíkó, Norður- eða Suður-Ameríku?“ Vísindavefurinn. 5. júl. 2002. Vefsíða. 5. des. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2570>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Þorvaldur Gylfason

1951

Þorvaldur Gylfason er prófessor í hagfræði í HÍ. Rannsóknir Þorvalds spanna allbreitt svið: þjóðhagfræði, hagþróun, náttúruauðlindir og auðlindastjórn og stjórnskipun og stjórnarskrár.