Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hægt að lækna malaríu? Í hverju felst meðferðin?

  • Hvernig smitast malaría og hvaða afleiðingar hefur hún? (Gunnhildur Björgvinsdóttir)
  • Er búið að finna bóluefni eða lækningu við malaríu? (Oddný Heimisdóttir)
Byrjunareinkenni í venjulegu malaríukasti geta verið hiti, höfuðverkur, ljósfælni, vöðvaverkir, ógleði, uppköst, niðurgangur og áblástur. Þessi einkenni geta varað í nokkra daga og í kjölfar þeirra fylgja hitatoppar, hrollur, skjálfti, stundum lifrar- eða miltisstækkun og vægt blóðleysi. Einkenni í alvarlegu malaríukasti eru hnakkastífleiki, minnkuð meðvitund, rugl, krampar, dá, nýrnabilun, lifrarstækkun, gula, alvarleg uppköst og niðurgangur, lungnabjúgur og blóðleysi.

Á hverju ári deyja á bilinu 1,5 til 2,7 milljónir manna af völdum malaríu eða mýraköldu. Þetta þýðir að einhver deyr af völdum malaríu á 12 sekúndna fresti að meðaltali. Níu af hverjum tíu fórnarlömbum sjúkdómsins eru í Afríku og stór hluti þeirra eru börn undir fimm ára aldri. Þessu til viðbótar eru 300 til 500 milljónir manna sýktar og þriðjungur mannkyns býr á svæðum þar sem hætta er á að smitast af malaríu.

Þetta ástand hefur farið versnandi síðustu 20 árin eða svo. Á sjötta áratugnum var gert mikið og árangursríkt átak í baráttunni við malaríu og var því stjórnað af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Markmið þessa átaks var að útrýma eða halda í skefjum moskítóflugunni sem ber sjúkdóminn og var það gert með skordýraeitri á borð við DDT. Um svipað leyti komu á markað ný og áhrifamikil malaríulyf. Nú eru flugurnar ýmist orðnar ónæmar fyrir skordýraeitrinu eða dregið hefur verið úr notkun þess vegna umhverfismengunar og sýklarnir eru hægt og bítandi að verða ónæmir fyrir lyfjunum.Sýklarnir sem valda malaríu eru einfrumungar af fjórum mismunandi tegundum. Þessir einfrumungar ganga í gegnum talsvert flókna hringrás í spendýrum og vissri tegund af moskítóflugum (sjá svar Hildar Jónsdóttur við spurningunni Geta fleiri en moskítóflugan borið malaríu?). Þegar smituð moskítófluga stingur mann berst sýkillinn með munnvatni flugunnar inn í blóðrás mannsins. Sýkillinn berst til lifrarinnar, smýgur inn í lifrarfrumurnar og nær þar nýju þroskastigi. Á þessu stigi berst sýkillinn aftur út í blóðið og inn í rauðu blóðkornin þar sem hann heldur áfram að þroskast og fjölga sér þar til blóðkornin springa. Á þessu stigi er talsvert mikið af sýklum í blóðinu og geta þeir nú smitað moskítóflugu sem sýgur blóð úr þessum einstaklingi. Í flugunni þroskast sýkillinn og fjölgar sér í munnvatnskirtlunum.

Til að vinna bug á malaríu verður að rjúfa þessa hringrás einhvers staðar og koma margir staðir til greina. Hingað til hafa tilraunir manna einkum beinst að því að útrýma umræddri tegund moskítóflugna, en það virðist vonlaust með þeim aðferðum sem beitt hefur verið, að hindra smit, til dæmis með flugnanetum, og að lækna þá sem hafa smitast.

Til þess að hægt sé að lækna smitaða einstaklinga þarf stöðugt að þróa ný lyf vegna þess að sýklarnir verða smám saman ónæmir fyrir eldri lyfjum. Þróun nýrra lyfja er mjög dýr og ekki á færi annarra en stórra lyfjaframleiðenda. Það einkennilega hefur nú gerst að allir lyfjaframleiðendur hafa hætt þróun nýrra malaríulyfja og er því engin slík þróunarvinna í gangi neins staðar.

Unnið hefur verið að þróun bóluefna við malaríu árum saman en nú hafa allir lyfjaframleiðendur nema tveir einnig hætt þeirri vinnu. Þróun bóluefna hefur gengið hægt og frekar illa. Eitthvað virðist þó vera að rofa til og tekist hefur að framleiða bóluefni sem gerir gagn í sumum dýrategundum þó svo að það hafi reynst gagnslítið í mönnum. Með nýjum aðferðum sem byggja á erfðatækni og sameindalíffræði gera menn sér vonir um árangur innan fárra ára. Að því loknu þarf að þróa nothæft og tiltölulega ódýrt lyf og mun það verða tímafrekt og dýrt.

Einnig er unnið að því að þróa erfðabreyttar moskítóflugur sem væru með ónæmi fyrir sýklunum og hefur það borið nokkurn árangur. Vitað er að ef slíkum flugum yrði sleppt mundi þessi erfðaeiginleiki breiðast hratt út í villtum flugum. Áður en slíkt yrði gert þarf að vinna mikið rannsóknastarf til að tryggja að erfðabreyttu flugurnar hafi ekki einhverja óheppilega eiginleika. Það er samt sem áður þetta tvennt, bóluefni og erfðabreyttar moskítóflugur, sem menn binda mestar vonir við.

Um baráttuna við malaríu gildir það sama og um allar aðrar framfarir; þær krefjast rannsókna sem þarf að fjármagna. Fjármagn til malaríurannsókna hefur verið skorið mikið niður á undanförnum áratugum og nú er veitt álíka fjármunum til slíkra rannsókna um allan heim eins og veitt er til krabbameinsrannsókna í Bretlandi einu saman. Menn eru þó sammála um það að margfalda verður rannsóknir á malaríu miðað við það sem nú er og að vísindamenn í Afríku þurfa að vera mjög virkir í þessum rannsóknum.

Frekari fróðleikur:Mynd af hringrás malaríu: Malaria Vaccine Initiative at path

Mynd af moskítóflugu: CSIRO Entomology

Útgáfudagur

29.7.2002

Spyrjandi

Þórgnýr Thoroddsen

Höfundur

prófessor í læknisfræði við HÍ

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Er hægt að lækna malaríu? Í hverju felst meðferðin?“ Vísindavefurinn, 29. júlí 2002. Sótt 23. september 2018. http://visindavefur.is/svar.php?id=2614.

Magnús Jóhannsson. (2002, 29. júlí). Er hægt að lækna malaríu? Í hverju felst meðferðin? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2614

Magnús Jóhannsson. „Er hægt að lækna malaríu? Í hverju felst meðferðin?“ Vísindavefurinn. 29. júl. 2002. Vefsíða. 23. sep. 2018. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2614>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Þórdís Þórðardóttir

1951

Þórdís Þórðardóttir er dósent í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar eru innan mennta,- menningar og kynjafræða.