Sólin Sólin Rís 10:47 • sest 15:46 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:25 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:26 • Síðdegis: 21:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:05 • Síðdegis: 15:48 í Reykjavík

Hefur flatormurinn Artioposthia triangulata fundist á Íslandi?

Arnþór Garðarsson (1938-2021)

Flatormar (Platyhelminthes) mynda sérstaka fylkingu dýra. Líkamsbygging þeirra er mjög einföld. Þeir eru flatvaxnir eins og nafnið bendir til og flestar tegundirnar eru smávaxnar. Meltingarkerfið er einfalt og vantar endaþarm. Líkaminn er myndaður úr þremur veflögum en ekkert eiginlegt lífhol er í flatormum. Þótt bygging flatorma sé einföld, er æxlun þeirra sérhæfð. Þeir eru samkynja (hermafrodít; bæði karlkyns og kvenkyns kynfæri eru virk í sama einstaklingi) og flestir eru með rauðumikil (forðarík) egg.

Fylkingin skiptist í þrjá meginflokka, bandorma, ögður og iðorma. Bandormar (Cestoda) og ögður (sogormar, Trematoda) eru vel þekkt sníkjudýr í hryggdýrum, meðal annars mönnum. Lífsferill þessara sníkjuorma er venjulega mjög flókinn. Iðormar (Turbellaria) eru rándýr sem lifa frjálsu lífi, aðallega í sjó og vötnum, en nokkrar tegundir lifa á rökum stöðum á landi, eins og tegund sú sem hér er til umræðu.

Hólmfríður Sigurðardóttir jarðvegslíffræðingur hefur nýlega ritað ítarlega grein í Náttúrufræðinginn (65. árg., bls. 15-18, 1995) um flatorminn Artioposthia triangulata og lifnaðarhætti hans, í tilefni þess að ormur þessi fannst í fyrsta skiptið á Íslandi, en það var í gróðurhúsi í Reykjavík árið 1990. Það sem hér fer á eftir er fengið úr ritgerð Hólmfríðar.

Flatormurinn Artioposthia triangulata er upprunninn á Nýja-Sjálandi, en hefur á síðari árum borist þaðan til vesturstranda Evrópu. Hann fannst fyrst árið 1963 utan Nýja-Sjálands og var það á Norður-Írlandi. Skömmu síðar fannst hann á Skotlandi, Orkneyjum og í Lundúnum. Árið 1982 fannst hann í Færeyjum. Á alla þessa staði er talið að ormurinn hafi borist með innfluttum plöntum. Enn sem komið er hefur tegundin eingöngu fundist í ræktarlandi, það er í gróðurhúsum, görðum og túnum. Artioposthia triangulata virðist þrífast vel í úthafsloftslagi Norðvestur-Evrópu. Kjörhitastig ormsins er 15°C, en hann er virkur niður í -2°C.

Artioposthia triangulata er stórvaxinn iðormur og getur orðið allt að 20 cm langur. Aðalfæða hans eru ánamaðkar, einkum tegundir sem halda sig nærri yfirborði jarðvegs, auk þess sem hann étur snigla. Í túnum á Írlandi og í færeyskum kartöflugörðum hefur ánamöðkum stórfækkað eftir að flatormurinn hélt innreið sína. Ánamaðkar eru mjög mikilvægir fyrir hringrás næringarefna og viðhald frjósemi í jarðvegi. Menn hafa því áhyggjur af hraðri útbreiðslu Artioposthia triangulata og er reynt að þróa aðferðir til þess að hefta útbreiðslu hans.

Höfundur

prófessor í líffræði við HÍ

Útgáfudagur

21.3.2000

Spyrjandi

Sigurður Arnarson

Tilvísun

Arnþór Garðarsson (1938-2021). „Hefur flatormurinn Artioposthia triangulata fundist á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 21. mars 2000. Sótt 2. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=267.

Arnþór Garðarsson (1938-2021). (2000, 21. mars). Hefur flatormurinn Artioposthia triangulata fundist á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=267

Arnþór Garðarsson (1938-2021). „Hefur flatormurinn Artioposthia triangulata fundist á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 21. mar. 2000. Vefsíða. 2. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=267>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hefur flatormurinn Artioposthia triangulata fundist á Íslandi?
Flatormar (Platyhelminthes) mynda sérstaka fylkingu dýra. Líkamsbygging þeirra er mjög einföld. Þeir eru flatvaxnir eins og nafnið bendir til og flestar tegundirnar eru smávaxnar. Meltingarkerfið er einfalt og vantar endaþarm. Líkaminn er myndaður úr þremur veflögum en ekkert eiginlegt lífhol er í flatormum. Þótt bygging flatorma sé einföld, er æxlun þeirra sérhæfð. Þeir eru samkynja (hermafrodít; bæði karlkyns og kvenkyns kynfæri eru virk í sama einstaklingi) og flestir eru með rauðumikil (forðarík) egg.

Fylkingin skiptist í þrjá meginflokka, bandorma, ögður og iðorma. Bandormar (Cestoda) og ögður (sogormar, Trematoda) eru vel þekkt sníkjudýr í hryggdýrum, meðal annars mönnum. Lífsferill þessara sníkjuorma er venjulega mjög flókinn. Iðormar (Turbellaria) eru rándýr sem lifa frjálsu lífi, aðallega í sjó og vötnum, en nokkrar tegundir lifa á rökum stöðum á landi, eins og tegund sú sem hér er til umræðu.

Hólmfríður Sigurðardóttir jarðvegslíffræðingur hefur nýlega ritað ítarlega grein í Náttúrufræðinginn (65. árg., bls. 15-18, 1995) um flatorminn Artioposthia triangulata og lifnaðarhætti hans, í tilefni þess að ormur þessi fannst í fyrsta skiptið á Íslandi, en það var í gróðurhúsi í Reykjavík árið 1990. Það sem hér fer á eftir er fengið úr ritgerð Hólmfríðar.

Flatormurinn Artioposthia triangulata er upprunninn á Nýja-Sjálandi, en hefur á síðari árum borist þaðan til vesturstranda Evrópu. Hann fannst fyrst árið 1963 utan Nýja-Sjálands og var það á Norður-Írlandi. Skömmu síðar fannst hann á Skotlandi, Orkneyjum og í Lundúnum. Árið 1982 fannst hann í Færeyjum. Á alla þessa staði er talið að ormurinn hafi borist með innfluttum plöntum. Enn sem komið er hefur tegundin eingöngu fundist í ræktarlandi, það er í gróðurhúsum, görðum og túnum. Artioposthia triangulata virðist þrífast vel í úthafsloftslagi Norðvestur-Evrópu. Kjörhitastig ormsins er 15°C, en hann er virkur niður í -2°C.

Artioposthia triangulata er stórvaxinn iðormur og getur orðið allt að 20 cm langur. Aðalfæða hans eru ánamaðkar, einkum tegundir sem halda sig nærri yfirborði jarðvegs, auk þess sem hann étur snigla. Í túnum á Írlandi og í færeyskum kartöflugörðum hefur ánamöðkum stórfækkað eftir að flatormurinn hélt innreið sína. Ánamaðkar eru mjög mikilvægir fyrir hringrás næringarefna og viðhald frjósemi í jarðvegi. Menn hafa því áhyggjur af hraðri útbreiðslu Artioposthia triangulata og er reynt að þróa aðferðir til þess að hefta útbreiðslu hans....