Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hver er lagaleg skilgreining á orðinu hjúskapur?

Halldór Gunnar Haraldsson

Í lögum er ekki að finna neina hnitmiðaða skilgreiningu á hjúskaparhugtakinu. Hins vegar má komast þannig að orði að hjúskapur sé samningur með stöðluðum samningsskilmálum.

Nú geta borgararnir gert margvíslega samninga sín í milli. Oft koma einstaklingar sér saman um samningsskilmála, ýmist skriflega eða munnlega. Hins vegar eru til staðlaðir skilmálar sem ýmist einstök fyrirtæki, félagasamtök eða ríkið býr til. Þeir stöðluðu skilmálar sem ríkið setur verða að vera lögfestir séu þeir ófrávíkjanlegir. Þannig gilda sérstök lög um þá tegund samninga sem kallast víxlar, sérstök lög gilda um löggerning þann sem kallast erfðaskrá og sérstök lög gilda um samning þann sem kallaður er hjúskapur. Lög geta að vísu verið frávíkjanleg þannig að borgurunum sé frjálst að semja sig undan þeim en oft eru samningsskilmálar aðeins stöðluð eyðublöð útgefin af ráðuneytum sem borgararnir geta svo notast við.

Hjúskapur er þá einfaldlega hver sá samningur sem uppfyllir formreglur hjúskaparlaga. Um hann gilda efnisreglur hjúskaparlaga nr. 31/1993 sem og annarra laga, til dæmis laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.

Nokkurs misskilnings hefur gjarnan gætt um hjúskap. Þannig telja margir að hjón eigi allt saman. Það er ekki rétt. Hvort þeirra á sínar eignir þótt um hjúskap sé að ræða. Misskilningurinn stafar vísast af því að við skipti (það er við andlát annars hjóna eða skilnað) gildir sú regla 103. gr. hjúskaparlaga oftast (þó ekki alltaf) að hvort hjóna eignast tilkall til helmings úr skýrri hjúskapareign hins. Ef eign á að vera séreign annars hjóna við skilnað eða andlát verður því að gera um það svokallaðan kaupmála. Það vill því miður allt of oft gleymast.

Þá telja margir að hjúskaparlögin eigi aðeins við um fjárhagslegar hliðar hjónabandsins en allar aðrar skyldur hjóna hvort við annað séu aðeins „siðferðislegar“. Þetta er líka misskilningur. Í 1. mgr. 2. gr. hjúskaparlaga er skýrt tekið fram að hjónum ber að sýna hvort öðru trúmennsku, styðja hvort annað og gæta sameiginlega hagsmuna heimilis og fjölskyldu. Þá segir í 2. mgr. að hjón eigi í sameiningu að annast uppeldi barna sinna, sjá þeim farborða og hjálpast að við að framfæra fjölskylduna með fjárframlögum, vinnu á heimili og á annan hátt.

Hjúskapur er þannig samningur sem bindur samningsaðila með mjög margvíslegum hætti og ekki bara fjárhagslega. Þau hjón sem kjósa að láta prest eða forstöðumanns trúfélags vígja sig öðlast auk þess skyldur gagnvart æðri máttarvöldum. Þeir sem bregðast slíkum skyldum verða þó tæplega látnir svara til saka fyrir veraldlegum dómstólum.

Höfundur

Útgáfudagur

19.9.2002

Spyrjandi

Kjartan Guðmundsson

Tilvísun

Halldór Gunnar Haraldsson. „ Hver er lagaleg skilgreining á orðinu hjúskapur?.“ Vísindavefurinn, 19. september 2002. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2718.

Halldór Gunnar Haraldsson. (2002, 19. september). Hver er lagaleg skilgreining á orðinu hjúskapur?. Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2718

Halldór Gunnar Haraldsson. „ Hver er lagaleg skilgreining á orðinu hjúskapur?.“ Vísindavefurinn. 19. sep. 2002. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2718>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er lagaleg skilgreining á orðinu hjúskapur?
Í lögum er ekki að finna neina hnitmiðaða skilgreiningu á hjúskaparhugtakinu. Hins vegar má komast þannig að orði að hjúskapur sé samningur með stöðluðum samningsskilmálum.

Nú geta borgararnir gert margvíslega samninga sín í milli. Oft koma einstaklingar sér saman um samningsskilmála, ýmist skriflega eða munnlega. Hins vegar eru til staðlaðir skilmálar sem ýmist einstök fyrirtæki, félagasamtök eða ríkið býr til. Þeir stöðluðu skilmálar sem ríkið setur verða að vera lögfestir séu þeir ófrávíkjanlegir. Þannig gilda sérstök lög um þá tegund samninga sem kallast víxlar, sérstök lög gilda um löggerning þann sem kallast erfðaskrá og sérstök lög gilda um samning þann sem kallaður er hjúskapur. Lög geta að vísu verið frávíkjanleg þannig að borgurunum sé frjálst að semja sig undan þeim en oft eru samningsskilmálar aðeins stöðluð eyðublöð útgefin af ráðuneytum sem borgararnir geta svo notast við.

Hjúskapur er þá einfaldlega hver sá samningur sem uppfyllir formreglur hjúskaparlaga. Um hann gilda efnisreglur hjúskaparlaga nr. 31/1993 sem og annarra laga, til dæmis laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.

Nokkurs misskilnings hefur gjarnan gætt um hjúskap. Þannig telja margir að hjón eigi allt saman. Það er ekki rétt. Hvort þeirra á sínar eignir þótt um hjúskap sé að ræða. Misskilningurinn stafar vísast af því að við skipti (það er við andlát annars hjóna eða skilnað) gildir sú regla 103. gr. hjúskaparlaga oftast (þó ekki alltaf) að hvort hjóna eignast tilkall til helmings úr skýrri hjúskapareign hins. Ef eign á að vera séreign annars hjóna við skilnað eða andlát verður því að gera um það svokallaðan kaupmála. Það vill því miður allt of oft gleymast.

Þá telja margir að hjúskaparlögin eigi aðeins við um fjárhagslegar hliðar hjónabandsins en allar aðrar skyldur hjóna hvort við annað séu aðeins „siðferðislegar“. Þetta er líka misskilningur. Í 1. mgr. 2. gr. hjúskaparlaga er skýrt tekið fram að hjónum ber að sýna hvort öðru trúmennsku, styðja hvort annað og gæta sameiginlega hagsmuna heimilis og fjölskyldu. Þá segir í 2. mgr. að hjón eigi í sameiningu að annast uppeldi barna sinna, sjá þeim farborða og hjálpast að við að framfæra fjölskylduna með fjárframlögum, vinnu á heimili og á annan hátt.

Hjúskapur er þannig samningur sem bindur samningsaðila með mjög margvíslegum hætti og ekki bara fjárhagslega. Þau hjón sem kjósa að láta prest eða forstöðumanns trúfélags vígja sig öðlast auk þess skyldur gagnvart æðri máttarvöldum. Þeir sem bregðast slíkum skyldum verða þó tæplega látnir svara til saka fyrir veraldlegum dómstólum....