
Ástæður þess að fólk kreistir tannkremstúpur að framan geta verið nokkrar. Hugsanlega er viðkomandi uppsigað við aðra á heimili sínu og gerir þetta til að angra þá. Annar möguleiki er að viðkomandi sé að lýsa frati á hefðir og venjur í samfélaginu. Á vísindamáli er það kallað andfélagsleg hegðun. Andfélagslega hegðun ber alltaf að reyna að hindra enda afar mikilvægt að allir geri hlutina eins. Meðal annarra mögulegra ástæðna má svo nefna sálræna galla úr fyrra lífi, sýkingu í litlutá (við henni skal leita læknishjálpar) og almennt óeðli. Auk þess hefur verið bent á þann möguleika að viðkomandi geti verið á mála hjá tannkremsframleiðendum þar sem ljóst er að tannkremið nýtist síður sé túpan að jafnaði kreist að framan, einkum þó ef aðferðinni er fylgt út í hörgul með því að skilja eftir tannkremið aftast í túpunni. Þeim sem búa með óeðlilegum einstaklingum eins og lýst er hér á undan hefur stundum verið ráðlagt að hafa eigin tannkremstúpu sem þeir geta kreist eftir sínu höfði (já) til að forðast árekstra á heimilinu. Þetta ráð má kannski notast við í neyð en það hlýtur þó að flokkast undir uppgjöf. Ritstjórn Vísindavefsins skorar á lesendur að beita sér fyrir því að sú stórskaðlega hegðun að kreista tannkremstúpur að framan verði gerð refsiverð með hæfilegum og vel völdum viðurlögum.

- Fyrri mynd: HB.
- Seinni mynd: Two way toothpaste | Variations on normal by Dominic Wilcox.
Við bendum þeim sem ekki hafa áttað sig á því að þetta svar er föstudagssvar og algjörlega á ábyrgð lesenda hversu mikið mark þeir vilja taka á því sem hér stendur.