Sólin Sólin Rís 03:26 • sest 23:27 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:21 • Sest 11:47 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:44 • Síðdegis: 24:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:37 • Síðdegis: 17:48 í Reykjavík

Hvað er vitað um laxa?

Jón Már Halldórsson og Kristján Freyr Helgason

Atlantshafslaxinn (Salmo salar) lifir í norðanverðu Atlantshafi. Hann finnst við strendur Norður-Ameríku, við Labrador í Kanada og allt suður til Connecticut í Bandaríkjunum. Hann lifir við suður- og austurströnd Grænlands, umhverfis Ísland og Færeyjar og við Bretlandseyjar. Atlanshafslaxinn finnst einnig við strendur meginlands Evrópu, allt frá Portúgal norður á Kólaskaga í Rússlandi. Villtir stofnar af Atlantshafslaxi hafa verið ræktaðir upp á austurströnd Bandaríkjanna, syðst í Ástralíu og við Nýja-Sjáland.

Útbreiðsla atlantshafslaxins (Salmo salar).

Flokkunarfræðilega telst Atlantshafslaxinn til ættbálksins Salmoniformes og ættarinnar Salmonidae (laxaætt) en í þeirri ætt eru um 66 tegundir kröftugra ránfiska sem finnast í náttúrunni á norðurhveli jarðar. Lax sem gengur úr sjó í ferskvatn er yfirleitt stærri en laxar sem eru staðbundnir í ferskvatni. Stærsti lax sem veiðst hefur var rúm 39 kíló. Hann veiddist í Tanaánni í Noregi. Stærsti lax sem veiðst hefur á Íslandi er hinn svokallaði Grímseyjarlax. Hann veiddist árið 1957 og var um 20 kg. Aldursgreining á Grímseyjarlaxinum leiddi í ljós að hann var tíu ára gamall.

Eins og flestir vita leita laxar í ferskt vatn til hrygningar. Úr sjó gengur laxinn upp í ár og læki og leitar þar að hentugum stöðum, til dæmis grófum malarbotni þar sem nokkur straumur er, til að hrygna í. Auðvelt er að greina hvort laxinn sé nýgenginn með því að athuga hvort hann sé „lúsugur“. Það eru þó ekki lýs sem hanga á nýgengnum laxi heldur lítil krabbadýr. Þau detta fljótlega af laxinum þegar hann kemst í ferskvatn. Þegar laxinn gengur upp árnar hættir hann að éta og ver öllum kröftum sínum í að finna hentuga hrygningarstaði. Rannsóknir og reynsla veiðimanna hafa sýnt að hérlendis verða fyrstu göngurnar vestanlands snemma á sumrin (í maí og fyrri hluta júní) en fyrir norðan og austan gengur hann nokkru síðar.

Talsverðar litabreytingar verða á fisknum þegar hann kemur úr sjó. Í hafinu er hann dökkur á baki og silfurgljáandi á hliðum. Á hliðum og haus eru svartir deplar. Þegar laxarnir eru komnir í árnar verða þeir rauðleitir á kvið og deplarnir á hliðum hans stækka.

Atlantshafslax (Salmo salar).

Hér á landi hrygna laxarnir á haustin og fyrri hluta vetrar. Hrygningin fer þannig fram að laxinn grefur í malarbotninn litla rás sem hann hrygnir í og að lokum hylur hann hrognin. Næsta vor klekjast hrognin út. Í fyrstu eru seiðin á svokölluðu kviðpokastigi og lifa þá á eigin næringarforða. Þegar hann er uppurinn þurfa þau sjálf að afla sér matar. Í fyrstu er fæðan aðallega skordýralirfur. Við klak eru seiðin um 2,5 cm á lengd. Þau dveljast í ánni í 2-4 ár þar til þau eru orðin frá 12-15 cm á lengd. Stærðin er þó mjög háð umhverfisskilyrðum árinnar, til dæmis fæðuframboði og ýmsum eðlisþáttum eins og hita. Laxinn er ákaflega næmur fyrir mengun og súrefnisstyrk vatnsins í ánni. Hann er fljótur að hverfa ef mengun verður í á eða á vatnasviði hennar.

Menn hafa lengi velt því fyrir sér hvernig fullorðnir laxar rata aftur í ána þar sem þeir ólust upp. Hafa menn þá helst beint athyglinni að þefskyni laxsins sem er frábært. Þefskyn laxa er um þúsund sinnum næmara en þefskyn hunda! Svo virðist vera sem laxinn þekki ána þar sem hann ólst upp á lyktinni.

Stór hluti laxa drepst að lokinni hrygningu þar sem þeir nærast ekkert meðan þeir eru að leita að hrygningarstöðum. Þeir laxar sem lifa af dveljast í ánni yfir veturinn og ganga síðan til sjávar næsta vor. Þessir laxar lifa við mikið hungur en þegar þeir komast aftur til sjávar hlaða þeir á sig holdi að nýju. Eftir eitt til tvö ár í hafinu ganga þeir síðan aftur upp í ána.

Þar sem laxinn étur ekkert þegar hann syndir upp árnar í leit að hrygningarstöðum hafa menn velt vöngum yfir því af hverju hann bítur á hjá laxveiðimönnum. Skýringin er á huldu en hugsanlega er um einhvers konar árásaratferli að ræða.

Myndirnar:

Höfundar

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

sjávarútvegsfræðingur

Útgáfudagur

24.10.2002

Spyrjandi

Sæunn Björk Þorkelsdóttir
Helga Halblaub

Tilvísun

Jón Már Halldórsson og Kristján Freyr Helgason. „Hvað er vitað um laxa?“ Vísindavefurinn, 24. október 2002. Sótt 30. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2816.

Jón Már Halldórsson og Kristján Freyr Helgason. (2002, 24. október). Hvað er vitað um laxa? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2816

Jón Már Halldórsson og Kristján Freyr Helgason. „Hvað er vitað um laxa?“ Vísindavefurinn. 24. okt. 2002. Vefsíða. 30. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2816>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er vitað um laxa?
Atlantshafslaxinn (Salmo salar) lifir í norðanverðu Atlantshafi. Hann finnst við strendur Norður-Ameríku, við Labrador í Kanada og allt suður til Connecticut í Bandaríkjunum. Hann lifir við suður- og austurströnd Grænlands, umhverfis Ísland og Færeyjar og við Bretlandseyjar. Atlanshafslaxinn finnst einnig við strendur meginlands Evrópu, allt frá Portúgal norður á Kólaskaga í Rússlandi. Villtir stofnar af Atlantshafslaxi hafa verið ræktaðir upp á austurströnd Bandaríkjanna, syðst í Ástralíu og við Nýja-Sjáland.

Útbreiðsla atlantshafslaxins (Salmo salar).

Flokkunarfræðilega telst Atlantshafslaxinn til ættbálksins Salmoniformes og ættarinnar Salmonidae (laxaætt) en í þeirri ætt eru um 66 tegundir kröftugra ránfiska sem finnast í náttúrunni á norðurhveli jarðar. Lax sem gengur úr sjó í ferskvatn er yfirleitt stærri en laxar sem eru staðbundnir í ferskvatni. Stærsti lax sem veiðst hefur var rúm 39 kíló. Hann veiddist í Tanaánni í Noregi. Stærsti lax sem veiðst hefur á Íslandi er hinn svokallaði Grímseyjarlax. Hann veiddist árið 1957 og var um 20 kg. Aldursgreining á Grímseyjarlaxinum leiddi í ljós að hann var tíu ára gamall.

Eins og flestir vita leita laxar í ferskt vatn til hrygningar. Úr sjó gengur laxinn upp í ár og læki og leitar þar að hentugum stöðum, til dæmis grófum malarbotni þar sem nokkur straumur er, til að hrygna í. Auðvelt er að greina hvort laxinn sé nýgenginn með því að athuga hvort hann sé „lúsugur“. Það eru þó ekki lýs sem hanga á nýgengnum laxi heldur lítil krabbadýr. Þau detta fljótlega af laxinum þegar hann kemst í ferskvatn. Þegar laxinn gengur upp árnar hættir hann að éta og ver öllum kröftum sínum í að finna hentuga hrygningarstaði. Rannsóknir og reynsla veiðimanna hafa sýnt að hérlendis verða fyrstu göngurnar vestanlands snemma á sumrin (í maí og fyrri hluta júní) en fyrir norðan og austan gengur hann nokkru síðar.

Talsverðar litabreytingar verða á fisknum þegar hann kemur úr sjó. Í hafinu er hann dökkur á baki og silfurgljáandi á hliðum. Á hliðum og haus eru svartir deplar. Þegar laxarnir eru komnir í árnar verða þeir rauðleitir á kvið og deplarnir á hliðum hans stækka.

Atlantshafslax (Salmo salar).

Hér á landi hrygna laxarnir á haustin og fyrri hluta vetrar. Hrygningin fer þannig fram að laxinn grefur í malarbotninn litla rás sem hann hrygnir í og að lokum hylur hann hrognin. Næsta vor klekjast hrognin út. Í fyrstu eru seiðin á svokölluðu kviðpokastigi og lifa þá á eigin næringarforða. Þegar hann er uppurinn þurfa þau sjálf að afla sér matar. Í fyrstu er fæðan aðallega skordýralirfur. Við klak eru seiðin um 2,5 cm á lengd. Þau dveljast í ánni í 2-4 ár þar til þau eru orðin frá 12-15 cm á lengd. Stærðin er þó mjög háð umhverfisskilyrðum árinnar, til dæmis fæðuframboði og ýmsum eðlisþáttum eins og hita. Laxinn er ákaflega næmur fyrir mengun og súrefnisstyrk vatnsins í ánni. Hann er fljótur að hverfa ef mengun verður í á eða á vatnasviði hennar.

Menn hafa lengi velt því fyrir sér hvernig fullorðnir laxar rata aftur í ána þar sem þeir ólust upp. Hafa menn þá helst beint athyglinni að þefskyni laxsins sem er frábært. Þefskyn laxa er um þúsund sinnum næmara en þefskyn hunda! Svo virðist vera sem laxinn þekki ána þar sem hann ólst upp á lyktinni.

Stór hluti laxa drepst að lokinni hrygningu þar sem þeir nærast ekkert meðan þeir eru að leita að hrygningarstöðum. Þeir laxar sem lifa af dveljast í ánni yfir veturinn og ganga síðan til sjávar næsta vor. Þessir laxar lifa við mikið hungur en þegar þeir komast aftur til sjávar hlaða þeir á sig holdi að nýju. Eftir eitt til tvö ár í hafinu ganga þeir síðan aftur upp í ána.

Þar sem laxinn étur ekkert þegar hann syndir upp árnar í leit að hrygningarstöðum hafa menn velt vöngum yfir því af hverju hann bítur á hjá laxveiðimönnum. Skýringin er á huldu en hugsanlega er um einhvers konar árásaratferli að ræða.

Myndirnar:

...