Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:01 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:01 • Sest 02:01 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:44 • Síðdegis: 13:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:39 í Reykjavík

Er siðferðilega rétt að veiða lax í þeim eina tilgangi að sleppa honum?

Henry Alexander Henrysson

Á undanförnum árum hefur orðið mikil viðhorfsbreyting á því hvernig við teljum æskilegt að koma fram við umhverfi okkar. Margt af því sem áður þótti eðlilegt þykir núna fullkomlega óásættanlegt. Stærstu breytingarnar tengjast líklega því hvernig við förum með úrgang og rusl, en á síðustu árum hafa viðhorf okkar til annarra lífvera sem deila með okkur jörðinni einnig breyst verulega. Samband okkar við dýr hefur þannig tekið grundvallarbreytingum – svo miklum raunar að við höfum tekið þau að einhverju leyti inn á svið siðferðismála í þeim skilningi að við teljum að okkur beri skylda til að taka tillit til hagsmuna þeirra.

Til einföldunar má gera greinarmun milli þeirra sem í samtímanum aðhyllast dýraverndarsjónarmið og þeirra sem telja sig huga að dýravelferð. Í fyrri flokkinn falla þau sem eru þeirrar skoðunar að dýr hafi til að bera helgi svipaða og manneskjur. Okkur beri að vernda tilveru þeirra á nákvæmlega sama hátt og við leitumst við að tryggja líf samborgara okkar. Mikill stuðningur við grænkerahyggju í samtímanum er dæmi um þessa þróun. Almennt eru hins vegar lög (og meðfylgjandi reglugerðir) ennþá þeirrar gerðar að þau huga fyrst og fremst að velferð dýra. Dýr njóta ekki verndar nema þá vegna þess að þau eru í útrýmingarhættu eða í undantekningartilvikum þegar tilvera þeirra snertir tiltekna strengi í hugum fólks. Löggjöfin snýst fyrst og fremst um að við höfum velferð dýra sem mest í huga þegar við nýtum þau okkur til félagsskapar, í landbúnaði eða á öðrum vettvangi.

Spurningin sem barst Vísindavefnum óskar eftir því að lagt sé mat á hvort aðferð í stangveiðum, sem gjarnan er kennd við „veiða-sleppa“, teljist siðferðilega réttmæt.

Spurningin sem barst Vísindavefnum óskar eftir því að lagt sé mat á hvort aðferð í stangveiðum, sem gjarnan er kennd við „veiða-sleppa“, teljist siðferðilega réttmæt. Í spurningunni felst jafnvel önnur spurning um hvort neikvætt svar við henni leiði til þess að aðferðin teljist siðferðilega ámælisverð. Einnig mætti skilja spurninguna þannig að gefið sé í skyn að þessi veiðiaðferð gæti talist eftirsóknarverð, eða jafnvel hrósverð, í siðferðilegum skilningi.

Svar við spurningunni hlýtur raunar að byggja að einhverju leyti á þeim ástæðum sem gefnar eru fyrir því hvers vegna fólk leggur agn fyrir lax (yfirleitt veiðiflugu) og sleppir honum strax eftir löndun. Og þá getur einnig verið áhugavert að skoða hver sé tilgangurinn með þessari veiði. Tilgangur veiðanna getur varla verið sá að sleppa fiskinum, tilgangurinn hlýtur að vera að setja í fisk. En markmiðið með því að sleppa laxinum getur verið harla mismunandi. Við skulum skoða hér að neðan nokkrar þær ástæður sem fólk gefur upp þegar það er beðið um að útskýra hvað því gengur til með þessari nálgun á stangveiði.

Ein algeng skýring er einfaldlega sú að fólki finnst sniðugt að hafa möguleikann á því að fiskur veiðist oftar en einu sinni og haldi þannig aflatölum uppi. Sumir hafa alls ekki velferð einstakra laxa í huga en horfa til þess að halda laxastofninum sterkum með því að sjá til þess að sem flestir laxar nái að hrygna. Og svo sér maður einnig fagurfræðileg rök fyrir því að veiða með agni sem gerir það mögulegt að sleppa laxinum aftur. Járnrusl í árbotni, maðkaleifar og plast sé ekki umgengni sem er eftirsóknarverð í samtímanum þar sem slíkt skemmir ásýnd veiða og umhverfis.

Það er heldur ekki svo að aðeins sé um að ræða eina tiltekna aðferð eða skoðun í þessu máli. Fólk getur til dæmis stutt það að sleppa fiskum yfir tiltekinni stærð aftur í árnar en viljað halda öðrum sér til matar. Algengt er í íslenskum ám að miða við 69 cm. Svo er yfirleitt haft með í slíkum reglum að illa særðum fiskum sé ekki sleppt aftur út í árnar. Bæði atriðin eru matskennd. Það má örugglega færa rök fyrir öðrum lengdarmörkum og svo þarf alltaf að skoða í hvert skipti hvort laxinn sé í ástandi til að synda aftur út í ána eftir mælingar og myndatökur – hvoru tveggja getur verið býsna tímafrekt (ekki síst það síðarnefnda).

Ef við skoðum rökin fyrir því að sleppa löxum aftur þá má greina þau í þrennt. Fyrstu rökin getum við kennt við hagkvæmni. Þau ganga út á að þessi veiðiaðferð hámarki magn einhvers þar sem reynt sé að ganga eins lítið nærri stofninum og mögulegt er. Það sem reynt er að hámarka getur hvort sem er verið það fé sem fæst fyrir leigu á ánum til langframa eða sú ánægja sem stangveiðimenn geta notið í framtíðinni. Vandamálið hér er að ef það kemur í ljós að aðferðin styður takmarkað við viðgang stofns þá er ekki gott að sjá hvers vegna veiðimenn mættu bara ekki drepa þá fiska sem þeir vilja. Og þá er siðferðisvídd þessara raka ekki sérstaklega sannfærandi. Önnur rökin eru menningarleg. Þau snúast um þá menningu sem veiðimenn vilja skapa í kringum sportið. Slíkir talsmenn eru ekki háðir því að aðferðin beri árangur til að fjölga fiskum. Markmiðið er að skapa nokkurs konar kjörmynd stangveiðimannsins sem stundar veiðar í sem mestri sátt við umhverfi sitt og eykur þannig gæði ánægju sinnar fremur en magn. Vandamálið er að sitt sýnist hverjum um hvað sé til fyrirmyndar í veiðum og að sumu leyti gefa slík rök sér óhjákvæmilega það sem þeim er ætlað að sanna. Að lokum má svo finna þau rök að fiskurinn sé saklaus lífvera sem við höfum engan rétt á að deyða. Það er einfaldlega fisksins sjálfs vegna sem veiðimanni ber að sleppa honum aftur út í ána. Vandamálið sem þetta viðhorf glímir við er að hér virðist í fljótu bragði skjóta skökku við að beita agni út í ána yfir höfuð fyrst hagsmunir fisksins eru hafðir í fyrirrúmi.

Vissulega eru margir sem hafna allri siðferðilegri réttlætingu á veiðum. Flestir umbera þó veiðar í siðferðilegum skilningi og eru rökin fyrir því af þrennu tagi. Í fyrsta lagi eru það rök sem draga fram þörf mannsins fyrir næringu úr dýraríkinu. Forsvarsmenn slíkra viðhorfa segja að ef stofn dýra sé ásættanlega stór eigi ekkert að standa í vegi fyrir því að við sækjum okkur næringu með veiðum. Landbúnaði fylgi einnig siðferðileg álitamál og umhverfisleg vandamál. Í öðru lagi hafa veiðar svo verið réttlættar með því að stundum þurfi einfaldlega að grisja stofna með veiðum. Aðgerðir okkar eins og það að girða land af og að hafa hrakið rándýr á burt geri það að verkum okkur beri siðferðileg skylda til að sinna stofnum villtra dýra á ákveðnum svæðum. Að lokum eru veiðar taldar siðferðilega réttmætar ef þær eru stundaðar á dýrum sem fólki stendur hætta af eða þá að þau valda usla í viðkvæmum vistkerfum. Erum við þá býsna rösk í að flokkar tilteknar dýrategundir sem meindýr.

Hógvær fluguveiði þar sem hverjum laxi er sleppt eftir átökin er ótvírætt meira aðlaðandi heldur en aðfarir sem fela í sér blóðgun og plöstun afla. Og hún getur verið til fyrirmyndar í þeim skilningi þótt hún sé ekki endilega siðferðilega rétt fyrir vikið.

Hættan af laxfiskum hefur aldrei verið talin mikil þannig að síðastnefndu rökin eiga varla við um stangveiðar. En tvö hin fyrri gætu átt við. Grisjun stofna á þó ekki við um sjógengna fiska heldur mögulega í vatnaveiði og í staðbundnum stofnum þar offjölgunar getur orðið vart. Það er því vandséð hvaða rök hníga að stangveiðum þar sem ekki er ætlunin að nýta veiðina sem fæðu. Siðferðileg rök hafa þvert á móti komið fram um að okkur beri að fullnýta öll þau dýr sem við veiðum ef þau eru veidd á annað borð og valda ekki skaða að óþörfu. Það er þar af leiðandi ekki auðvelt að koma auga jákvætt svar við spurningunni hvort það sé siðferðilega rétt að veiða lax til þess eins að sleppa honum. Í samanburði við aðra réttlætingu á veiðum á villtum dýrum virðist „veiða-sleppa“ aldrei geta keppt við að „sleppa-að-veiða“ í siðferðilegum skilningi.

Stangveiðimenn sem sleppa öllum fiski sem þeir landa aftur út í ána geta því ekki gert kröfu um að þeim sé veitt siðferðilegt hrós eða að þeir hljóti viðurkenningu fyrir einhvers konar siðferðilega yfirburði í veiðiheiminum. Hver veit þó nema að þessi veiðiaðferð sé að mörgu leyti skárri heldur en aðrar og hefðbundnari veiðiaðferðir hvað varðar vistfræði og verndun, og má þar til dæmis nefna þá reglu að sleppa öllum stórlaxi. En þegar öllu er á botninn hvolft felst stangveiði í að ein dýrategund er að kvelja aðra sjálfum sér til ánægju og yndisauka.

Á móti má segja að kannski þurfi ekki allt það sem við tökum okkur fyrir hendur að vera stutt siðferðilegum rökum. Mannleg tilvera er miklu flóknari en svo. Og er betri fyrir vikið. Sumt leyfum við okkur ánægjunnar og nautnarinnar vegna, án þess að viðkomandi athöfn sé siðferðilega rétt. Slíkar athafnir eru krydd í tilveruna og er helsta siðferðilega skylda okkar að gæta hófs og valda sem minnstum skaða. Ástæðurnar hvers vegna sumar slíkar athafnir eru meira aðlaðandi heldur en aðrar geta hins vegar átt sér fagurfræðilegar réttlætingar. Hógvær fluguveiði þar sem hverjum laxi er sleppt eftir átökin er ótvírætt meira aðlaðandi heldur en aðfarir sem fela í sér blóðgun og plöstun afla. Og hún getur verið til fyrirmyndar í þeim skilningi þótt hún sé ekki endilega siðferðilega rétt fyrir vikið.

Myndir:

Spurning Grétars hljóðaði svona:

Hvað segir siðfræðin um veiði til "gamans" en ekki til verðlauna þeirra sem máltíð fengsins felur í sér? Er veiða/sleppa mannúðlegt?

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

22.9.2021

Spyrjandi

Sigurður Örn, Grétar Eiríksson

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Er siðferðilega rétt að veiða lax í þeim eina tilgangi að sleppa honum?“ Vísindavefurinn, 22. september 2021. Sótt 15. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=82253.

Henry Alexander Henrysson. (2021, 22. september). Er siðferðilega rétt að veiða lax í þeim eina tilgangi að sleppa honum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=82253

Henry Alexander Henrysson. „Er siðferðilega rétt að veiða lax í þeim eina tilgangi að sleppa honum?“ Vísindavefurinn. 22. sep. 2021. Vefsíða. 15. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=82253>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er siðferðilega rétt að veiða lax í þeim eina tilgangi að sleppa honum?
Á undanförnum árum hefur orðið mikil viðhorfsbreyting á því hvernig við teljum æskilegt að koma fram við umhverfi okkar. Margt af því sem áður þótti eðlilegt þykir núna fullkomlega óásættanlegt. Stærstu breytingarnar tengjast líklega því hvernig við förum með úrgang og rusl, en á síðustu árum hafa viðhorf okkar til annarra lífvera sem deila með okkur jörðinni einnig breyst verulega. Samband okkar við dýr hefur þannig tekið grundvallarbreytingum – svo miklum raunar að við höfum tekið þau að einhverju leyti inn á svið siðferðismála í þeim skilningi að við teljum að okkur beri skylda til að taka tillit til hagsmuna þeirra.

Til einföldunar má gera greinarmun milli þeirra sem í samtímanum aðhyllast dýraverndarsjónarmið og þeirra sem telja sig huga að dýravelferð. Í fyrri flokkinn falla þau sem eru þeirrar skoðunar að dýr hafi til að bera helgi svipaða og manneskjur. Okkur beri að vernda tilveru þeirra á nákvæmlega sama hátt og við leitumst við að tryggja líf samborgara okkar. Mikill stuðningur við grænkerahyggju í samtímanum er dæmi um þessa þróun. Almennt eru hins vegar lög (og meðfylgjandi reglugerðir) ennþá þeirrar gerðar að þau huga fyrst og fremst að velferð dýra. Dýr njóta ekki verndar nema þá vegna þess að þau eru í útrýmingarhættu eða í undantekningartilvikum þegar tilvera þeirra snertir tiltekna strengi í hugum fólks. Löggjöfin snýst fyrst og fremst um að við höfum velferð dýra sem mest í huga þegar við nýtum þau okkur til félagsskapar, í landbúnaði eða á öðrum vettvangi.

Spurningin sem barst Vísindavefnum óskar eftir því að lagt sé mat á hvort aðferð í stangveiðum, sem gjarnan er kennd við „veiða-sleppa“, teljist siðferðilega réttmæt.

Spurningin sem barst Vísindavefnum óskar eftir því að lagt sé mat á hvort aðferð í stangveiðum, sem gjarnan er kennd við „veiða-sleppa“, teljist siðferðilega réttmæt. Í spurningunni felst jafnvel önnur spurning um hvort neikvætt svar við henni leiði til þess að aðferðin teljist siðferðilega ámælisverð. Einnig mætti skilja spurninguna þannig að gefið sé í skyn að þessi veiðiaðferð gæti talist eftirsóknarverð, eða jafnvel hrósverð, í siðferðilegum skilningi.

Svar við spurningunni hlýtur raunar að byggja að einhverju leyti á þeim ástæðum sem gefnar eru fyrir því hvers vegna fólk leggur agn fyrir lax (yfirleitt veiðiflugu) og sleppir honum strax eftir löndun. Og þá getur einnig verið áhugavert að skoða hver sé tilgangurinn með þessari veiði. Tilgangur veiðanna getur varla verið sá að sleppa fiskinum, tilgangurinn hlýtur að vera að setja í fisk. En markmiðið með því að sleppa laxinum getur verið harla mismunandi. Við skulum skoða hér að neðan nokkrar þær ástæður sem fólk gefur upp þegar það er beðið um að útskýra hvað því gengur til með þessari nálgun á stangveiði.

Ein algeng skýring er einfaldlega sú að fólki finnst sniðugt að hafa möguleikann á því að fiskur veiðist oftar en einu sinni og haldi þannig aflatölum uppi. Sumir hafa alls ekki velferð einstakra laxa í huga en horfa til þess að halda laxastofninum sterkum með því að sjá til þess að sem flestir laxar nái að hrygna. Og svo sér maður einnig fagurfræðileg rök fyrir því að veiða með agni sem gerir það mögulegt að sleppa laxinum aftur. Járnrusl í árbotni, maðkaleifar og plast sé ekki umgengni sem er eftirsóknarverð í samtímanum þar sem slíkt skemmir ásýnd veiða og umhverfis.

Það er heldur ekki svo að aðeins sé um að ræða eina tiltekna aðferð eða skoðun í þessu máli. Fólk getur til dæmis stutt það að sleppa fiskum yfir tiltekinni stærð aftur í árnar en viljað halda öðrum sér til matar. Algengt er í íslenskum ám að miða við 69 cm. Svo er yfirleitt haft með í slíkum reglum að illa særðum fiskum sé ekki sleppt aftur út í árnar. Bæði atriðin eru matskennd. Það má örugglega færa rök fyrir öðrum lengdarmörkum og svo þarf alltaf að skoða í hvert skipti hvort laxinn sé í ástandi til að synda aftur út í ána eftir mælingar og myndatökur – hvoru tveggja getur verið býsna tímafrekt (ekki síst það síðarnefnda).

Ef við skoðum rökin fyrir því að sleppa löxum aftur þá má greina þau í þrennt. Fyrstu rökin getum við kennt við hagkvæmni. Þau ganga út á að þessi veiðiaðferð hámarki magn einhvers þar sem reynt sé að ganga eins lítið nærri stofninum og mögulegt er. Það sem reynt er að hámarka getur hvort sem er verið það fé sem fæst fyrir leigu á ánum til langframa eða sú ánægja sem stangveiðimenn geta notið í framtíðinni. Vandamálið hér er að ef það kemur í ljós að aðferðin styður takmarkað við viðgang stofns þá er ekki gott að sjá hvers vegna veiðimenn mættu bara ekki drepa þá fiska sem þeir vilja. Og þá er siðferðisvídd þessara raka ekki sérstaklega sannfærandi. Önnur rökin eru menningarleg. Þau snúast um þá menningu sem veiðimenn vilja skapa í kringum sportið. Slíkir talsmenn eru ekki háðir því að aðferðin beri árangur til að fjölga fiskum. Markmiðið er að skapa nokkurs konar kjörmynd stangveiðimannsins sem stundar veiðar í sem mestri sátt við umhverfi sitt og eykur þannig gæði ánægju sinnar fremur en magn. Vandamálið er að sitt sýnist hverjum um hvað sé til fyrirmyndar í veiðum og að sumu leyti gefa slík rök sér óhjákvæmilega það sem þeim er ætlað að sanna. Að lokum má svo finna þau rök að fiskurinn sé saklaus lífvera sem við höfum engan rétt á að deyða. Það er einfaldlega fisksins sjálfs vegna sem veiðimanni ber að sleppa honum aftur út í ána. Vandamálið sem þetta viðhorf glímir við er að hér virðist í fljótu bragði skjóta skökku við að beita agni út í ána yfir höfuð fyrst hagsmunir fisksins eru hafðir í fyrirrúmi.

Vissulega eru margir sem hafna allri siðferðilegri réttlætingu á veiðum. Flestir umbera þó veiðar í siðferðilegum skilningi og eru rökin fyrir því af þrennu tagi. Í fyrsta lagi eru það rök sem draga fram þörf mannsins fyrir næringu úr dýraríkinu. Forsvarsmenn slíkra viðhorfa segja að ef stofn dýra sé ásættanlega stór eigi ekkert að standa í vegi fyrir því að við sækjum okkur næringu með veiðum. Landbúnaði fylgi einnig siðferðileg álitamál og umhverfisleg vandamál. Í öðru lagi hafa veiðar svo verið réttlættar með því að stundum þurfi einfaldlega að grisja stofna með veiðum. Aðgerðir okkar eins og það að girða land af og að hafa hrakið rándýr á burt geri það að verkum okkur beri siðferðileg skylda til að sinna stofnum villtra dýra á ákveðnum svæðum. Að lokum eru veiðar taldar siðferðilega réttmætar ef þær eru stundaðar á dýrum sem fólki stendur hætta af eða þá að þau valda usla í viðkvæmum vistkerfum. Erum við þá býsna rösk í að flokkar tilteknar dýrategundir sem meindýr.

Hógvær fluguveiði þar sem hverjum laxi er sleppt eftir átökin er ótvírætt meira aðlaðandi heldur en aðfarir sem fela í sér blóðgun og plöstun afla. Og hún getur verið til fyrirmyndar í þeim skilningi þótt hún sé ekki endilega siðferðilega rétt fyrir vikið.

Hættan af laxfiskum hefur aldrei verið talin mikil þannig að síðastnefndu rökin eiga varla við um stangveiðar. En tvö hin fyrri gætu átt við. Grisjun stofna á þó ekki við um sjógengna fiska heldur mögulega í vatnaveiði og í staðbundnum stofnum þar offjölgunar getur orðið vart. Það er því vandséð hvaða rök hníga að stangveiðum þar sem ekki er ætlunin að nýta veiðina sem fæðu. Siðferðileg rök hafa þvert á móti komið fram um að okkur beri að fullnýta öll þau dýr sem við veiðum ef þau eru veidd á annað borð og valda ekki skaða að óþörfu. Það er þar af leiðandi ekki auðvelt að koma auga jákvætt svar við spurningunni hvort það sé siðferðilega rétt að veiða lax til þess eins að sleppa honum. Í samanburði við aðra réttlætingu á veiðum á villtum dýrum virðist „veiða-sleppa“ aldrei geta keppt við að „sleppa-að-veiða“ í siðferðilegum skilningi.

Stangveiðimenn sem sleppa öllum fiski sem þeir landa aftur út í ána geta því ekki gert kröfu um að þeim sé veitt siðferðilegt hrós eða að þeir hljóti viðurkenningu fyrir einhvers konar siðferðilega yfirburði í veiðiheiminum. Hver veit þó nema að þessi veiðiaðferð sé að mörgu leyti skárri heldur en aðrar og hefðbundnari veiðiaðferðir hvað varðar vistfræði og verndun, og má þar til dæmis nefna þá reglu að sleppa öllum stórlaxi. En þegar öllu er á botninn hvolft felst stangveiði í að ein dýrategund er að kvelja aðra sjálfum sér til ánægju og yndisauka.

Á móti má segja að kannski þurfi ekki allt það sem við tökum okkur fyrir hendur að vera stutt siðferðilegum rökum. Mannleg tilvera er miklu flóknari en svo. Og er betri fyrir vikið. Sumt leyfum við okkur ánægjunnar og nautnarinnar vegna, án þess að viðkomandi athöfn sé siðferðilega rétt. Slíkar athafnir eru krydd í tilveruna og er helsta siðferðilega skylda okkar að gæta hófs og valda sem minnstum skaða. Ástæðurnar hvers vegna sumar slíkar athafnir eru meira aðlaðandi heldur en aðrar geta hins vegar átt sér fagurfræðilegar réttlætingar. Hógvær fluguveiði þar sem hverjum laxi er sleppt eftir átökin er ótvírætt meira aðlaðandi heldur en aðfarir sem fela í sér blóðgun og plöstun afla. Og hún getur verið til fyrirmyndar í þeim skilningi þótt hún sé ekki endilega siðferðilega rétt fyrir vikið.

Myndir:

Spurning Grétars hljóðaði svona:

Hvað segir siðfræðin um veiði til "gamans" en ekki til verðlauna þeirra sem máltíð fengsins felur í sér? Er veiða/sleppa mannúðlegt?

...