Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þessi spurning hefur vafist fyrir mannkyninu um aldir. Þótt margir helstu hugsuðir sögunnar hafi glímt við þessa spurningu er erfitt að setja fram skýrt svar við henni. Líklega er hún oftast borin upp þegar fólk vill gagnrýna ákvarðanir annars fólks. En spurningin er engu síður mikilvæg við mat á eigin ákvörðunum. Vandamálið er að við eigum oft erfitt með að horfast í augu við að ábyrgð ákvarðana okkar liggur fyrst og fremst hjá okkur sjálfum.
Þær aðstæður og ástæður sem liggja hverri ákvörðun til grundvallar eru eins mismunandi og þær eru margar. Á vissum tímabilum mannkynssögunnar hefur lögmálshyggja náð sér á strik þar sem fólk fær nokkurs konar lista yfir réttar ákvarðanir, en slík hugsun hefur lengi verið á undanhaldi. Skortur á siðferðilegum leiðbeiningum þarf heldur ekki að leiða okkur út í tómhyggju um siðferðileg gildi þar sem allar ákvarðanir dæmast jafn réttmætar. Þáttur dómgreindar okkar verður einfaldlega meiri við að almennar leiðbeiningar skortir.
Fyrst er mikilvægt að greina á milli siðferðilega réttra ákvarðana og þeirra sem leiða til lögmætrar breytni. Það er ekki hægt að setja samasemmerki milli réttmæti og lögmæti. Þetta tvennt getur vissulega skarast, en við getum ekki gert þær kröfur til settra laga að þau leiðbeini okkur í öllum efnum. Slíkt myndi líklega kalla á of sterka forræðishyggju. Einnig er ekki loku fyrir það skotið að siðferðilega réttmæt ákvörðun brjóti reglur og jafnvel lög. Við fordæmum til dæmis ekki unga manninn sem keyrir of greitt með tilvonandi barnsmóður sína á fæðingardeildina. Og svo kannast flestir við máltækið „löglegt en siðlaust“. Því miður á það ansi oft við. Stundum eru því settar svokallaðar siðareglur til að ná yfir það svið sem lagaumhverfið skilur óhjákvæmilega eftir sig.
Ákvarðanir krefjast íhugunar.
Það má til að mynda ekki horfa fram hjá því að flest þroskum við með okkur nokkurs konar siðferðilega innri rödd sem oft er full ástæða til að hlusta á. Yfirleitt kennum við þessa rödd við samvisku eða innsæi. Einnig búa margir yfir ríkri réttlætiskennd sem getur verið mikilsverður siðferðilegur áttaviti. Það er því nokkurs konar lágmarkskrafa til þess einstaklings sem tekur ákvörðun að hún gangi ekki gegn „brjóstviti“ viðkomandi nema gild ástæða sé til.
Slíkar ástæður geta verið margs konar. Tilfinningalíf okkar getur hlaupið með okkur í gönur þar sem það mótast af margvíslegum þáttum. Hver og einn á oft erfitt með að greina hversu réttmæt ólgandi innri tilfinning er. Það er því mikilvægt, og þetta er önnur forsendan fyrir siðferðilegu réttmæti ákvörðunar, að hver og einn geti gert sjálfum sér og öðrum grein fyrir forsendum þeirrar ákvörðunar sem tekin er. Í þessu felst meðal annars að viðurkenna takmarkanir sínar og leitast við að átta sig á þeim þáttum sem móta hugsun manns og dóma. Jafnar og frjálsar umræður, jafnvel þótt þær felist aðeins í innri „samræðu“, þar sem leitast er við að ná fram sem flestum hliðum hvers máls er því nauðsynleg forsenda siðferðilega réttrar ákvörðunar.
En það er ekki nóg að treysta á hugboð og samræður um þau. Við ákvörðun þarf iðulega að vega og meta siðferðileg gæði og verðmæti. Það er því mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir hvaða svið hins siðferðilega veruleika skipta mestu máli í tilteknum aðstæðum. Umhverfi, menning og saga geta skipt þar mestu. Stundum er eigin hugarheimur hins vegar það eina sem við getum miðað við. Og oft er félagsheimur okkar og hvernig við myndum tengsl við annað fólk það sem skilur á milli siðferðilega réttra og rangra ákvarðana.
Þess vegna getur verið nauðsynlegt að styðjast við þá siðfræðilegu nálgun sem best á við. Siðfræði er tvö þúsund og fimm hundruð ára gömul fræðigrein sem hefur þróast í ýmsar áttir. Hún veitir okkur því ekki gátlista sem segja okkur hvaða ákvarðanir séu siðferðilega réttar. En sá sem kann skil á siðfræði hefur möguleika á að þroska siðferðilega dómgreind sína. Viðkomandi hefur öðlast skilning á mikilvægi heilinda, þekkir samhengið milli réttinda og skyldu, og getur forðast augljósar villur og mótsagnir. Síðast en ekki síst hefur hann hæfni til að vega og meta gildi og siðferðileg verðmæti á röklegan hátt.
Að öllu jöfnu eru siðferðilega réttar ákvarðanir þær sem teknar eru að vel athuguðu máli. Athöfn sem á sér rætur í ákvörðun sem tekin er í hugsunarleysi byggist fyrst og fremst á heppni og missir nokkuð af siðferðilegu gildi sínu við það. Óheilindi og prettir geta mögulega leitt til ánægjulegrar niðurstöðu fyrir einhvern en sú ákvörðun sem óheilindin felast í verður ekki siðferðilega rétt fyrir vikið.
Mynd:
Henry Alexander Henrysson. „Hvað er siðferðilega rétt ákvörðun?“ Vísindavefurinn, 18. desember 2012, sótt 9. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=16753.
Henry Alexander Henrysson. (2012, 18. desember). Hvað er siðferðilega rétt ákvörðun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=16753
Henry Alexander Henrysson. „Hvað er siðferðilega rétt ákvörðun?“ Vísindavefurinn. 18. des. 2012. Vefsíða. 9. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=16753>.