Sólin Sólin Rís 07:58 • sest 18:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:00 • Síðdegis: 21:18 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:48 • Síðdegis: 15:22 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:58 • sest 18:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:00 • Síðdegis: 21:18 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:48 • Síðdegis: 15:22 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er bólga?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Bólga er staðbundið ósérhæft varnarsvar líkamans við vefjaskemmd. Meðal þess sem getur valdið bólgu eru sýklar, áverkar, efnaerting, skemmdar eða truflaðar frumur og öfgar í hitastigi. Bólga þarf sem sagt ekki endilega að stafa af sýklum.

Einkenni bólgusvars eru roði, sársauki, hiti á bólgna svæðinu og þroti. Stundum bætist fimmta einkennið við sem er starfsmissir vefs eða líffæris, en það fer eftir því hvar og hversu miklar skemmdirnar eru. Með bólgu reynir líkaminn að losa sig við örverur, eiturefni eða önnur framandi efni á „slysstað“ til þess að koma í veg fyrir að þau dreifist til annarra líkamshluta og viðgerð skemmda er sett í gang. Bólgusvar er því aðferð til að reyna að viðhalda samvægi líkamans, það er að segja að viðhalda ástandi hans.

Hvítfrumur taka mikinn þátt í bólgusvari, en til eru margs konar hvítfrumur og gegna þær mismunandi hlutverkum sem eiga það þó sameiginlegt að tengjast vörnum líkamans gegn „innrásaraðilum“. Annar meginflokkur hvítfrumna eru eitilfrumur sem eru helstu frumur ónæmiskerfisins. Aðrar hvítfrumur spila aukahlutverk í ónæmiskerfinu auk þess að sinna ósérhæfðum vörnum. Dæmi um slíkar frumur eru átfrumur (phagocytes) sem éta framandi efni og dauðar eða skemmdar frumur og vefi. Átfrumur eru til í ýmsum gerðum, til dæmis basafrumur (basophiles), dauffrumur (neutrophiles) og stórætur (macrophages).

Bólgusvar skiptist í þrjú megin stig:

Í fyrsta lagi er æðavíkkun og aukið gegndræpi æða. Strax eftir að vefjaskemmd hefur orðið víkka æðar á skemmda svæðinu og hleypa ýmsum efnum í blóði út úr æðunum í vefinn. Æðavíkkun gerir það að verkum að meira blóð berst á skemmda svæðið og aukið gegndræpi leyfir ýmsum varnarþáttum í blóðinu, eins og mótefnum, átfrumum og blóðstorknunarþáttum, að komast út í skemmda svæðið.

Það efnasamband sem helst stuðlar að æðavíkkun, auknu gegndræpi og fleiri þáttum bólgusvars, er histamín. Það er að finna í margs konar frumum í líkamanum, til dæmis í bandvef, basafrumum, blóðflögum og átfrumum. Svokölluð prostaglandín-efnasambönd magna áhrif histamíns. Víkkun æða, svokallaðra slagæðlinga, og aukið gegndræpi háræða valda hita, roða og þrota (bjúg) á skemmda svæðinu. Hiti og roði stafa af blóðmagninu sem safnast á svæðið. Sársauki stafar af skemmdum á taugaþráðum eða af eiturefnum sem sumar örverur gefa frá sér. Einnig geta prostaglandín verkað á taugaþræði og valdið sársauka.

Aukið gegndræpi háræða gerir það einnig að verkum að storknunarþáttur lekur út í skemmda svæðið. Þetta efni er fyrsti hlekkur í keðjuverkun sem endar með myndun þráðanets og blóðkökks sem fangar og einangrar innrásaraðilann og kemur í veg fyrir að hann dreifist til annarra svæða í líkamanum.

Í öðru lagi er átfrumufar (phagocytic migration). Þar sem mikil blóðsöfnun á sér stað berst mikið af átfrumum á svæðið. Áður en klukkustund er liðin frá því að bólgusvar hefst eru átfrumur mættar á slysstað. Þær smjúga í gegnum æðaveggi og út í svæðið. Þar gleypa þær og eyða innrásaraðilum og jafnvel skemmdum vef og varnarfrumum sem komu á undan og hafa eyðilagst.

Í þriðja lagi er viðgerð. Í öllum bólgum nema þeim vægustu myndast gröftur. Gröftur er þykkur vökvi sem inniheldur lifandi og dauðar hvítfrumur og leifar af dauðum vefjum. Graftarmyndun heldur áfram þar til tekist hefur að ráða niðurlögum sýkingar. Gröftur þrýstir stundum á yfirborð líkamans eða inn í holrúm hans og ef hann kemst ekki í burtu getur myndast ígerð sem er söfnun ofgnóttar af greftri í afmarkað svæði, til dæmis unglingabólur og graftarkýli.

Heimildir:

Gerard J. Tortora (1997). Introduction to the Human Body - The Essentials of Anatomy and Physiology, 4. útgáfa.

Orðabanki Íslenskrar málstöðvar - Orðasafn í Ónæmisfræði

Höfundur

Útgáfudagur

28.10.2002

Spyrjandi

Una Helga Jónsdóttir, f. 1987

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er bólga?“ Vísindavefurinn, 28. október 2002, sótt 8. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2819.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2002, 28. október). Hvað er bólga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2819

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er bólga?“ Vísindavefurinn. 28. okt. 2002. Vefsíða. 8. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2819>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er bólga?
Bólga er staðbundið ósérhæft varnarsvar líkamans við vefjaskemmd. Meðal þess sem getur valdið bólgu eru sýklar, áverkar, efnaerting, skemmdar eða truflaðar frumur og öfgar í hitastigi. Bólga þarf sem sagt ekki endilega að stafa af sýklum.

Einkenni bólgusvars eru roði, sársauki, hiti á bólgna svæðinu og þroti. Stundum bætist fimmta einkennið við sem er starfsmissir vefs eða líffæris, en það fer eftir því hvar og hversu miklar skemmdirnar eru. Með bólgu reynir líkaminn að losa sig við örverur, eiturefni eða önnur framandi efni á „slysstað“ til þess að koma í veg fyrir að þau dreifist til annarra líkamshluta og viðgerð skemmda er sett í gang. Bólgusvar er því aðferð til að reyna að viðhalda samvægi líkamans, það er að segja að viðhalda ástandi hans.

Hvítfrumur taka mikinn þátt í bólgusvari, en til eru margs konar hvítfrumur og gegna þær mismunandi hlutverkum sem eiga það þó sameiginlegt að tengjast vörnum líkamans gegn „innrásaraðilum“. Annar meginflokkur hvítfrumna eru eitilfrumur sem eru helstu frumur ónæmiskerfisins. Aðrar hvítfrumur spila aukahlutverk í ónæmiskerfinu auk þess að sinna ósérhæfðum vörnum. Dæmi um slíkar frumur eru átfrumur (phagocytes) sem éta framandi efni og dauðar eða skemmdar frumur og vefi. Átfrumur eru til í ýmsum gerðum, til dæmis basafrumur (basophiles), dauffrumur (neutrophiles) og stórætur (macrophages).

Bólgusvar skiptist í þrjú megin stig:

Í fyrsta lagi er æðavíkkun og aukið gegndræpi æða. Strax eftir að vefjaskemmd hefur orðið víkka æðar á skemmda svæðinu og hleypa ýmsum efnum í blóði út úr æðunum í vefinn. Æðavíkkun gerir það að verkum að meira blóð berst á skemmda svæðið og aukið gegndræpi leyfir ýmsum varnarþáttum í blóðinu, eins og mótefnum, átfrumum og blóðstorknunarþáttum, að komast út í skemmda svæðið.

Það efnasamband sem helst stuðlar að æðavíkkun, auknu gegndræpi og fleiri þáttum bólgusvars, er histamín. Það er að finna í margs konar frumum í líkamanum, til dæmis í bandvef, basafrumum, blóðflögum og átfrumum. Svokölluð prostaglandín-efnasambönd magna áhrif histamíns. Víkkun æða, svokallaðra slagæðlinga, og aukið gegndræpi háræða valda hita, roða og þrota (bjúg) á skemmda svæðinu. Hiti og roði stafa af blóðmagninu sem safnast á svæðið. Sársauki stafar af skemmdum á taugaþráðum eða af eiturefnum sem sumar örverur gefa frá sér. Einnig geta prostaglandín verkað á taugaþræði og valdið sársauka.

Aukið gegndræpi háræða gerir það einnig að verkum að storknunarþáttur lekur út í skemmda svæðið. Þetta efni er fyrsti hlekkur í keðjuverkun sem endar með myndun þráðanets og blóðkökks sem fangar og einangrar innrásaraðilann og kemur í veg fyrir að hann dreifist til annarra svæða í líkamanum.

Í öðru lagi er átfrumufar (phagocytic migration). Þar sem mikil blóðsöfnun á sér stað berst mikið af átfrumum á svæðið. Áður en klukkustund er liðin frá því að bólgusvar hefst eru átfrumur mættar á slysstað. Þær smjúga í gegnum æðaveggi og út í svæðið. Þar gleypa þær og eyða innrásaraðilum og jafnvel skemmdum vef og varnarfrumum sem komu á undan og hafa eyðilagst.

Í þriðja lagi er viðgerð. Í öllum bólgum nema þeim vægustu myndast gröftur. Gröftur er þykkur vökvi sem inniheldur lifandi og dauðar hvítfrumur og leifar af dauðum vefjum. Graftarmyndun heldur áfram þar til tekist hefur að ráða niðurlögum sýkingar. Gröftur þrýstir stundum á yfirborð líkamans eða inn í holrúm hans og ef hann kemst ekki í burtu getur myndast ígerð sem er söfnun ofgnóttar af greftri í afmarkað svæði, til dæmis unglingabólur og graftarkýli.

Heimildir:

Gerard J. Tortora (1997). Introduction to the Human Body - The Essentials of Anatomy and Physiology, 4. útgáfa.

Orðabanki Íslenskrar málstöðvar - Orðasafn í Ónæmisfræði ...