Ef maður er ástfanginn af einhverjum, þá er maður hrifinn af honum og elskar hann kannski. Það er hins vegar ekki hægt að fá staðfestingu hjá neinum öðrum á þeim tilfinningum - nema maður hafi þær í raun og veru. Aðalatriðið er að við erum líklega ástfangin ef okkur finnst við vera það! En það getur enginn sagt okkur hvort við séum ástfangin eða ekki - og haft rétt fyrir sér - nema við séum því sammála.
Þörfin og hæfileikinn til að vera ástfangin er okkur eðlislægur. Þessi hæfileiki mótast að miklu leyti í frumtengslum okkar við umönnunaraðila. Fræðimenn tala stundum um tengsl barns og foreldris eða umönnunaraðila sem fyrstu ástina. Í svari Sigrúnar Júlíusdóttur við spurningunni Af hverju verðum við ástfangin? segir þetta:Þessi frumtengsl eru undirstaðan fyrir hæfni einstaklings til að geta myndað náin tengsl, notið og sýnt fölskvalaust traust til annarra síðar meir, en í því felst líka að geta tekið við og tjáð ást og kærleika.Fólk á öllum aldri getur orðið ástfangið og það er í raun eðlilegt fyrir allar heilbrigðar manneskjur að þrá endurtekningu frumástarinnar. Börn geta laðast sterkt að vinum og vinkonum og þess háttar viðkvæm tengsl á barns- og unglingsárum of eru nátengd því að verða ástafangin. Á kynþroskaaldrinum eykst síðan næmi og þörf fyrir náin kynferðisleg tengsl. Þá getur stundum verið erfitt að grein á milli hvað er tilfinningaleg ást og hvað er kynferðislegt. Við bendum lesendum á að kynna sér ýtarlegt svar Sigrúnar við spurningunni Af hverju verðum við ástfangin? en þetta svar byggir einmitt á því. Frekara lesefni:
- Hvað er ást? Er hún mælanleg? eftir Sigrúnu Júlíusdóttur
- Kemur lauslæti í veg fyrir að maður finni sanna ást? eftir Sigrúnu Júlíusdóttur
- Hver var afstaða Sókratesar til ástarinnar? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Af hverju tengist hjartað ástinni og hvers vegna er hjartað teiknað eins og það er? eftir Símon Jón Jóhannsson