Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:49 • Síðdegis: 18:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:55 • Síðdegis: 24:31 í Reykjavík

Hver var Arngrímur Jónsson lærði?

Gottskálk Jensson

Hér er ekki rakin saga Ítalíu eða Grikklands, heldur eyjarinnar Íslands, sem öldum saman hefur verið ókunn og fyrirlitin... Ég veit að sumum mun mislíka að ég nota orð og heiti eins og þjóðveldi (respublica), höfðingjaveldi (aristocratia)... um menn og samfélag af svo lágum stigum. Þó vitum vér að þvílík heiti hafa sumir haft um býflugnabú án þess að það hneykslaði neinn. (Þýð. Jakob Benediktsson).

Svo bregður Arngrímur Jónsson á glettni um sagnfræði sína fremst í Crymogæu / Hrímlandi (Hamborg 1609), riti sem sker efnið í annálum og miðaldasögum Íslendinga til eftir sniði fornmenntastefnu og stagar það saman með grísk-latneskum hugtökum og skírskotun í klassíska höfunda (hér til býflugnabús hjá Virgli).

Arngrímur Jónsson „lærði“ fæddist 1568 að Auðunarstöðum í Víðidal inn af Húnaflóa (af nafni dalsins myndaði hann latneska ættarnafnið Widalinus, á íslensku Vídalín). Frá átta ára aldri ólst hann upp á Hólum hjá Guðbrandi Þorlákssyni biskupi sem var náfrændi hans. Eftir útskrift úr Hólaskóla 1585 sigldi hann sautján ára til frekara náms í Kaupmannahöfn þar sem hann las guðfræði, fornmál og önnur vísindi í fjögur ár með námsstyrk frá Danakonungi.

Arngrímur Jónsson (1568-1648). Fyrir ritverk sín varð Arngrímur þegar í lifanda lífi frægari en flestir aðrir Íslendingar og er raunar enn talinn með merkari endurreisnarhöfundum í Norður-Evrópu.

Heimkominn varð hann skólameistari á Hólum 21 árs og vígðist til prests árið eftir, varð fljótlega einnig prófastur. Í fjóra áratugi var Arngrímur hægri hönd hins atorkumikla frænda síns og gegndi á þeim tíma flestum embættum á biskupsstólnum, var skólameistari, dómkirkjuprestur, aðstoðarbiskup og biskup í afleysingum. Hann samdi einnig skólabækur, þýddi trúarrit og var á kafi í útgáfustarfi við Hólaprentsmiðju sem þá var sú eina á Íslandi. Arngrímur er sagður hafa búið til prentunar hið fræga miðaldakvæði „Lilju“ í Vísnabók Guðbrands (Hólar 1612) og telst það fyrsta útgáfa á íslensku miðaldariti. Besta heimildin um ævi Argríms er varnarrit hans sjálfs Apotribe virulentæ et atrocis calumniæ / Afmáning eitraðra og grimmilegra illmæla (Hamborg 1622) sem hann skrifaði gegn slúðri um að hann hefði reynt að bola Guðbrandi frá biskupsstóli.

Arngrímur var fyrsti Íslendingurinn á prentöld sem hafði áhrif út fyrir landsteinanna með ritverkum sínum. Latínubækur hans komu út í Kaupmannahöfn, London, Hamborg, Leiden og Amsterdam og voru lesnar vítt og breitt um álfuna. Fyrir ritverk sín varð hann þegar í lifanda lífi frægari en flestir aðrir Íslendingar og er raunar enn talinn með merkari endurreisnarhöfundum í Norður-Evrópu. Auk Íslandssögunnar Crymogæu eru helstu bækur Arngríms deiluritið Brevis commentarius / Stutt skýringarrit um Ísland (Kaupmannahöfn 1593) og sagnfræðiritið Specimen Islandiæ historicum / Kennimark Íslandssögunnar (Amsterdam 1643) sem fjallar um landnám Íslands og afsannar að Thule í fornaldarritum sé sama eyja. Í endursögnum sínum á latínu hefur Arngrímur einnig varðveitt efni úr glötuðum sögum, svo sem Skjöldunga sögu.

Á ofanverðri 16. öld komust konunglegir sagnaritarar í Danmörku yfir danskar þýðingar á Noregskonungasögum eftir lærða Norðmenn sem kunnu málið af gömlum lögbókum. Af skrifum Arngríms fregnuðu þeir að til væru fleiri slíkar heimildir í íslenskum handritum og því fékk hann konungsbréf upp á að fá lánuð handrit manna og laun til að þýða og endursegja íslenskar sögur fyrir danska sagnaritara. Margt af því sem Arngrímur skrifaði um sögu Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Grænlands og Orkneyja var því ekki gefið út sem slíkt fyrr en um miðja síðustu öld þegar Jakob Benediktsson bjó öll latínurit hans til prentunar.

Forsíða Brevis Commentarius de Islandia sem kom út í Kaupmannahöfn 1593.

Arngrímur ferðaðist tvisvar til meginlandsins eftir að hann kom heim frá námi, jafnan í erindagjörðum fyrir Guðbrand biskup. Í fyrra skiptið 1592 hafði hann með sér handrit að Brevis Commentarius þar sem hraktar voru af nokkru offorsi rangfærslur útlendinga um Ísland. Guðbrandur Þorláksson hafði fengið Arngrím til að semja þetta varnarrit en í kveðju til lesarans fer biskup hörðum orðum um lágþýskt kvæði um Ísland og Íslendinga eftir Gories nokkurn Peerse. Sá var frá Hamborg og viðriðinn siglingar til Íslands en biskup kallar kvæðið „vanskapað fóstur þýsks mangara“ sem hafi ekki aðeins „borið út skítugustu og verstu lygar um Íslendinga“ heldur hafi „græðgi í rangfenginn gróða“ rekið prentara bókarinnar til þess að gefa kvæðið út þrisvar eða fjórum sinnum og „þetta hefur hann fengið að gera óáreittur í þeirri borg [Hamborg] sem um margra ára skeið hefur haft verslunarviðskipti við Ísland með miklum gróða fyrir sína borgara“. Ritið er tileinkað Kristjáni IV. Danakonungi sem þá var tekinn að deila við Hansakaupmenn í Hamborg um rétt þeirra til að versla á Íslandi. Þær deilur leiddu sem kunnugt er til danskrar verslunareinokunar. Verndarar Guðbrands biskups og Arngríms í Danmörku, sem voru helstu ráðgjafar konungs, hafa kannski lagt á ráðin um samningu deilurits af þessu tagi til þess að grafa undan málstað Hansakaupmanna. Arngrímur lofar Danakonung óspart og styður guðfræðilegum og sögulegum rökum rétt hans til yfirráða á Íslandi.

Þeir sem höfðu menntun til að lesa latínubækur Arngríms, þar á meðal skólagengnir Íslendingar, lærðu af þeim að fella mætti sögu Íslands undir lögmál allrar mannkynssögu að forskrift franska lögspekingsins Jean Bodin (1530–1596). Æðsti orsakavaldur þeirrar sögu væri guðleg forsjón en lokastig stjórnarfarslegra breytinga einveldi (monarchia) konungs af guðlegri náð. Sumar hugmynda Arngríms lifa enn góðu lífi, þótt í þróaðri mynd sé, til að mynda sú að stjórnskipan á Íslandi frá stofnun alþingis og fram til Gamla sáttmála sé réttnefnd „þjóð-“ eða „lýðveldi“ (respublica) og að tunga Íslendinga sé fornmál norðursins og því beri Íslendingum að varðveita hana hreina. Aðrar hugmynda hans eiga nú minni hljómgrunn, til að mynda að Guð hafi látið Ísland rísa úr hafi til að vera bústaður landnámsmanna og að málið á skandinavískum rúnasteinum sé íslenska.

Arngrímur gegndi lengi biskupsstörfum í veikindum Guðbrands og virtist sjálfkjörinn eftirmaður hans en baðst þó undan embættinu á prestastefnu 1627 svo klerkar völdu Þorlák Skúlason (1597–1656) til biskups, dótturson Guðbrands. Óvæntur undandráttur Arngríms hefur þótt kalla á skýringar; kannski var hann beittur þrýstingi af stuðningsmönnum Þorláks, sem var aðeins þrítugur en vel liðinn, eða hann vildi helga sig ritstörfum í ellinni sem kjör hans leyfðu því konungur veitti honum styrk til ritstarfa í formi tekna af sjö jörðum Hólastóls. Arngrímur sem var alla starfsæfi sína á launum hjá kirkju og kóngi varð þannig fyrstur Íslendinga til að gera ritstörf að aðalstarfi.

Af mynd að dæma var Argrímur ekki ófríður, hann hefur haft góða framkomu og verið vel upplýstur í viðræðum við jafningja, var sagður skartmaður í klæðaburði en lítill búmaður enda sjaldnast heima á Melstað þar sem hann átti bú lengst af. Hann eignaðist marga vini meðal erlendra menntamanna og skrifaðist á við fræga lærdómsmenn (Chytræus, Worm og Stephanius). Tónninn í deiluritum hans er óvægur en því veldur Guðbrandur biskup sem var mesti þrasari og óvarkár í tali um fjandmenn sína. Arngrímur gekk og erinda Guðbrands í svonefndu „morðbréfamáli“ um jarðir í eigu fjölskyldu hans sem dæmdar höfðu verið undir Hólastól á kaþólskum tíma. Annars verður ekki betur séð en hann hafi lifað í ró og spekt sína löngu ævi. Árið 1598 giftist hann Sólveigu „kvennablóma“ Gunnarsdóttur og eignaðist þrjú börn. Hún lést 1627 og ári síðar giftist hann Sigríði „yngri“ Bjarnadóttur; hún var 27 ára en hann sextugur. Með Sigríði átti hann níu börn. Meðal barnabarna þeirra voru Jón Vídalín biskup og Páll Vídalín lögmaður. Fjöldi Íslendinga á ættir að rekja til Arngríms. Hann lést 1648 þá áttræður að aldri.

Heimildir:
  • Arngrimi Jonae opera latine conscripta I-VI, útg. Jakob Benediktsson, Kaupmannahöfn: Ejnar Munksgaard, 1950-1957.
  • Arngrímur Jónsson, Brevis Commentarius / Stutt greinargerð um Ísland, þýð. Einar Sigmarsson, Reykjavík: Sögufélag, 2008.
  • Arngrímur Jónsson, Crymogæa sive Rerum islandicarum libri III / Crymogæa: Þættir úr sögu Íslands, þýð. Jakob Benediktsson, Reykjavík: Sögufélag, 1985.
  • Gottskálk Jensson, „Puritas nostræ lingvæ: Upphaf íslenskrar málhreinsunar í latneskum húmanisma“, Skírnir CLXXVII (2003), 35-67.
  • Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi I-IV, Reykjavík: Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar, 1919-1926.

Myndir:

Höfundur

Gottskálk Jensson

gestaprófessor, íslensku- og menningardeild HÍ

Útgáfudagur

11.9.2015

Spyrjandi

Anna Signý Magnúsdóttir

Tilvísun

Gottskálk Jensson. „Hver var Arngrímur Jónsson lærði?“ Vísindavefurinn, 11. september 2015. Sótt 21. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=28812.

Gottskálk Jensson. (2015, 11. september). Hver var Arngrímur Jónsson lærði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=28812

Gottskálk Jensson. „Hver var Arngrímur Jónsson lærði?“ Vísindavefurinn. 11. sep. 2015. Vefsíða. 21. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=28812>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Arngrímur Jónsson lærði?

Hér er ekki rakin saga Ítalíu eða Grikklands, heldur eyjarinnar Íslands, sem öldum saman hefur verið ókunn og fyrirlitin... Ég veit að sumum mun mislíka að ég nota orð og heiti eins og þjóðveldi (respublica), höfðingjaveldi (aristocratia)... um menn og samfélag af svo lágum stigum. Þó vitum vér að þvílík heiti hafa sumir haft um býflugnabú án þess að það hneykslaði neinn. (Þýð. Jakob Benediktsson).

Svo bregður Arngrímur Jónsson á glettni um sagnfræði sína fremst í Crymogæu / Hrímlandi (Hamborg 1609), riti sem sker efnið í annálum og miðaldasögum Íslendinga til eftir sniði fornmenntastefnu og stagar það saman með grísk-latneskum hugtökum og skírskotun í klassíska höfunda (hér til býflugnabús hjá Virgli).

Arngrímur Jónsson „lærði“ fæddist 1568 að Auðunarstöðum í Víðidal inn af Húnaflóa (af nafni dalsins myndaði hann latneska ættarnafnið Widalinus, á íslensku Vídalín). Frá átta ára aldri ólst hann upp á Hólum hjá Guðbrandi Þorlákssyni biskupi sem var náfrændi hans. Eftir útskrift úr Hólaskóla 1585 sigldi hann sautján ára til frekara náms í Kaupmannahöfn þar sem hann las guðfræði, fornmál og önnur vísindi í fjögur ár með námsstyrk frá Danakonungi.

Arngrímur Jónsson (1568-1648). Fyrir ritverk sín varð Arngrímur þegar í lifanda lífi frægari en flestir aðrir Íslendingar og er raunar enn talinn með merkari endurreisnarhöfundum í Norður-Evrópu.

Heimkominn varð hann skólameistari á Hólum 21 árs og vígðist til prests árið eftir, varð fljótlega einnig prófastur. Í fjóra áratugi var Arngrímur hægri hönd hins atorkumikla frænda síns og gegndi á þeim tíma flestum embættum á biskupsstólnum, var skólameistari, dómkirkjuprestur, aðstoðarbiskup og biskup í afleysingum. Hann samdi einnig skólabækur, þýddi trúarrit og var á kafi í útgáfustarfi við Hólaprentsmiðju sem þá var sú eina á Íslandi. Arngrímur er sagður hafa búið til prentunar hið fræga miðaldakvæði „Lilju“ í Vísnabók Guðbrands (Hólar 1612) og telst það fyrsta útgáfa á íslensku miðaldariti. Besta heimildin um ævi Argríms er varnarrit hans sjálfs Apotribe virulentæ et atrocis calumniæ / Afmáning eitraðra og grimmilegra illmæla (Hamborg 1622) sem hann skrifaði gegn slúðri um að hann hefði reynt að bola Guðbrandi frá biskupsstóli.

Arngrímur var fyrsti Íslendingurinn á prentöld sem hafði áhrif út fyrir landsteinanna með ritverkum sínum. Latínubækur hans komu út í Kaupmannahöfn, London, Hamborg, Leiden og Amsterdam og voru lesnar vítt og breitt um álfuna. Fyrir ritverk sín varð hann þegar í lifanda lífi frægari en flestir aðrir Íslendingar og er raunar enn talinn með merkari endurreisnarhöfundum í Norður-Evrópu. Auk Íslandssögunnar Crymogæu eru helstu bækur Arngríms deiluritið Brevis commentarius / Stutt skýringarrit um Ísland (Kaupmannahöfn 1593) og sagnfræðiritið Specimen Islandiæ historicum / Kennimark Íslandssögunnar (Amsterdam 1643) sem fjallar um landnám Íslands og afsannar að Thule í fornaldarritum sé sama eyja. Í endursögnum sínum á latínu hefur Arngrímur einnig varðveitt efni úr glötuðum sögum, svo sem Skjöldunga sögu.

Á ofanverðri 16. öld komust konunglegir sagnaritarar í Danmörku yfir danskar þýðingar á Noregskonungasögum eftir lærða Norðmenn sem kunnu málið af gömlum lögbókum. Af skrifum Arngríms fregnuðu þeir að til væru fleiri slíkar heimildir í íslenskum handritum og því fékk hann konungsbréf upp á að fá lánuð handrit manna og laun til að þýða og endursegja íslenskar sögur fyrir danska sagnaritara. Margt af því sem Arngrímur skrifaði um sögu Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Grænlands og Orkneyja var því ekki gefið út sem slíkt fyrr en um miðja síðustu öld þegar Jakob Benediktsson bjó öll latínurit hans til prentunar.

Forsíða Brevis Commentarius de Islandia sem kom út í Kaupmannahöfn 1593.

Arngrímur ferðaðist tvisvar til meginlandsins eftir að hann kom heim frá námi, jafnan í erindagjörðum fyrir Guðbrand biskup. Í fyrra skiptið 1592 hafði hann með sér handrit að Brevis Commentarius þar sem hraktar voru af nokkru offorsi rangfærslur útlendinga um Ísland. Guðbrandur Þorláksson hafði fengið Arngrím til að semja þetta varnarrit en í kveðju til lesarans fer biskup hörðum orðum um lágþýskt kvæði um Ísland og Íslendinga eftir Gories nokkurn Peerse. Sá var frá Hamborg og viðriðinn siglingar til Íslands en biskup kallar kvæðið „vanskapað fóstur þýsks mangara“ sem hafi ekki aðeins „borið út skítugustu og verstu lygar um Íslendinga“ heldur hafi „græðgi í rangfenginn gróða“ rekið prentara bókarinnar til þess að gefa kvæðið út þrisvar eða fjórum sinnum og „þetta hefur hann fengið að gera óáreittur í þeirri borg [Hamborg] sem um margra ára skeið hefur haft verslunarviðskipti við Ísland með miklum gróða fyrir sína borgara“. Ritið er tileinkað Kristjáni IV. Danakonungi sem þá var tekinn að deila við Hansakaupmenn í Hamborg um rétt þeirra til að versla á Íslandi. Þær deilur leiddu sem kunnugt er til danskrar verslunareinokunar. Verndarar Guðbrands biskups og Arngríms í Danmörku, sem voru helstu ráðgjafar konungs, hafa kannski lagt á ráðin um samningu deilurits af þessu tagi til þess að grafa undan málstað Hansakaupmanna. Arngrímur lofar Danakonung óspart og styður guðfræðilegum og sögulegum rökum rétt hans til yfirráða á Íslandi.

Þeir sem höfðu menntun til að lesa latínubækur Arngríms, þar á meðal skólagengnir Íslendingar, lærðu af þeim að fella mætti sögu Íslands undir lögmál allrar mannkynssögu að forskrift franska lögspekingsins Jean Bodin (1530–1596). Æðsti orsakavaldur þeirrar sögu væri guðleg forsjón en lokastig stjórnarfarslegra breytinga einveldi (monarchia) konungs af guðlegri náð. Sumar hugmynda Arngríms lifa enn góðu lífi, þótt í þróaðri mynd sé, til að mynda sú að stjórnskipan á Íslandi frá stofnun alþingis og fram til Gamla sáttmála sé réttnefnd „þjóð-“ eða „lýðveldi“ (respublica) og að tunga Íslendinga sé fornmál norðursins og því beri Íslendingum að varðveita hana hreina. Aðrar hugmynda hans eiga nú minni hljómgrunn, til að mynda að Guð hafi látið Ísland rísa úr hafi til að vera bústaður landnámsmanna og að málið á skandinavískum rúnasteinum sé íslenska.

Arngrímur gegndi lengi biskupsstörfum í veikindum Guðbrands og virtist sjálfkjörinn eftirmaður hans en baðst þó undan embættinu á prestastefnu 1627 svo klerkar völdu Þorlák Skúlason (1597–1656) til biskups, dótturson Guðbrands. Óvæntur undandráttur Arngríms hefur þótt kalla á skýringar; kannski var hann beittur þrýstingi af stuðningsmönnum Þorláks, sem var aðeins þrítugur en vel liðinn, eða hann vildi helga sig ritstörfum í ellinni sem kjör hans leyfðu því konungur veitti honum styrk til ritstarfa í formi tekna af sjö jörðum Hólastóls. Arngrímur sem var alla starfsæfi sína á launum hjá kirkju og kóngi varð þannig fyrstur Íslendinga til að gera ritstörf að aðalstarfi.

Af mynd að dæma var Argrímur ekki ófríður, hann hefur haft góða framkomu og verið vel upplýstur í viðræðum við jafningja, var sagður skartmaður í klæðaburði en lítill búmaður enda sjaldnast heima á Melstað þar sem hann átti bú lengst af. Hann eignaðist marga vini meðal erlendra menntamanna og skrifaðist á við fræga lærdómsmenn (Chytræus, Worm og Stephanius). Tónninn í deiluritum hans er óvægur en því veldur Guðbrandur biskup sem var mesti þrasari og óvarkár í tali um fjandmenn sína. Arngrímur gekk og erinda Guðbrands í svonefndu „morðbréfamáli“ um jarðir í eigu fjölskyldu hans sem dæmdar höfðu verið undir Hólastól á kaþólskum tíma. Annars verður ekki betur séð en hann hafi lifað í ró og spekt sína löngu ævi. Árið 1598 giftist hann Sólveigu „kvennablóma“ Gunnarsdóttur og eignaðist þrjú börn. Hún lést 1627 og ári síðar giftist hann Sigríði „yngri“ Bjarnadóttur; hún var 27 ára en hann sextugur. Með Sigríði átti hann níu börn. Meðal barnabarna þeirra voru Jón Vídalín biskup og Páll Vídalín lögmaður. Fjöldi Íslendinga á ættir að rekja til Arngríms. Hann lést 1648 þá áttræður að aldri.

Heimildir:
  • Arngrimi Jonae opera latine conscripta I-VI, útg. Jakob Benediktsson, Kaupmannahöfn: Ejnar Munksgaard, 1950-1957.
  • Arngrímur Jónsson, Brevis Commentarius / Stutt greinargerð um Ísland, þýð. Einar Sigmarsson, Reykjavík: Sögufélag, 2008.
  • Arngrímur Jónsson, Crymogæa sive Rerum islandicarum libri III / Crymogæa: Þættir úr sögu Íslands, þýð. Jakob Benediktsson, Reykjavík: Sögufélag, 1985.
  • Gottskálk Jensson, „Puritas nostræ lingvæ: Upphaf íslenskrar málhreinsunar í latneskum húmanisma“, Skírnir CLXXVII (2003), 35-67.
  • Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi I-IV, Reykjavík: Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar, 1919-1926.

Myndir:

...