Sólin Sólin Rís 03:29 • sest 23:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:35 • Sest 09:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:38 • Síðdegis: 23:07 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:33 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík

Af hverju vex mosi svona hægt?

Ingibjörg Svala Jónsdóttir

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:
Hvað er mosi lengi að vaxa og af hverju vex hann svona hægt?

Ársvöxtur mosa er mjög breytilegur og mælingar á lengdarvexti sýna allt frá örfáum mm upp í 7 cm á ári. Umhverfisaðstæður skýra að mestu breytileikann í vexti mosa þó að hámarksvöxtur fari eitthvað eftir tegundum. Mestur lengdarvöxtur hefur mælst í ferskvatns- og votlendismosum. Nokkrar mælingar hafa verið gerðar á vexti hraungambra (Racomitrium lanuginosum) hér á landi: meðalársvöxtur í Þingvallahrauni árin 1990–1992 var 0,75 cm og 1,1 cm á Auðkúluheiði 2006–2007. Í samanburði við æðplöntur verður þó vöxtur mosa að teljast mjög hægur og skýrist það af byggingu og lífeðlisfræði þeirra.

Mosaþemba með hraungambra í Skaftáreldahrauni. Hraungambri er einn algengasti og mest áberandi mosinn á öllum suður- og vesturhluta Íslands svo og í strandhéruðum Austurlands. Hann er einn fyrsti landneminn í nýjum hraunum.

Vöxtur mosa, eins og annarra plantna, er háður vatni, steinefnum og birtu. Flestir mosar eru án róta og leiðsluvefs til upptöku og flutnings vatns og steinefna um plöntuna. Margar tegundir hafa þó rætlinga, en þeir gegna fyrst og fremst því hlutverki að binda plöntuna við undirlagið. Mosa skortir einnig yfirhúð (hlífðarlag) og eru því misvotir (e. poikilohydric), það er þeir þorna út við þurrk. Á móti kemur að mosar hafa hlutfallslega stórt yfirborð miðað við rúmmál og taka því auðveldlega upp vatn og næringarefni beint úr umhverfinu. Barnamosar (Sphagnum) eru einstakir hvað þetta varðar vegna sérkennilegrar frumugerðar og geta tekið upp tuttugufalda þurrvikt sína af vatni. Þetta fyrirkomulag skapar hins vegar fremur takmarkað aðgengi að næringarefnum í samanburði við það sem rætur æðplantna hafa í jarðvegi. Auk þess hafa mosar enga forðavefi sem tempra umhverfisbreytileika eins algengt er meðal æðplantna. Vöxtur mosa er því oftast mestur að vori og hausti og getur jafnvel stöðvast alveg í lengri tíma um mitt sumar þegar hlýjast og þurrast er.

Heimildir og mynd:
  • Glime, J.M. 2007. Bryophyte Ecology. Volume 1. Physiological Ecology. Ebook sponsored by Michigan Technological University and the International Association of Bryologists. Skoðað 4. janúar 2015 á: http://www.bryoecol.mtu.edu/
  • Ingibjörg Svala Jónsdóttir (2015). Vistfræði mosa í ljósi loftslagsbreytinga. Náttúrufræðingurinn, í prentun.
  • Flóra Íslands. Höfundur myndar: Hörður Kristinsson. (Sótt 9. 1. 2015).

Höfundur

Ingibjörg Svala Jónsdóttir

prófessor, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Útgáfudagur

19.1.2015

Spyrjandi

Haraldur Jökull, Katrín Júníana Lárusdóttir, Unnur Hauksdóttir, Viktor Snær

Tilvísun

Ingibjörg Svala Jónsdóttir. „Af hverju vex mosi svona hægt?“ Vísindavefurinn, 19. janúar 2015. Sótt 29. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=28839.

Ingibjörg Svala Jónsdóttir. (2015, 19. janúar). Af hverju vex mosi svona hægt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=28839

Ingibjörg Svala Jónsdóttir. „Af hverju vex mosi svona hægt?“ Vísindavefurinn. 19. jan. 2015. Vefsíða. 29. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=28839>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju vex mosi svona hægt?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Hvað er mosi lengi að vaxa og af hverju vex hann svona hægt?

Ársvöxtur mosa er mjög breytilegur og mælingar á lengdarvexti sýna allt frá örfáum mm upp í 7 cm á ári. Umhverfisaðstæður skýra að mestu breytileikann í vexti mosa þó að hámarksvöxtur fari eitthvað eftir tegundum. Mestur lengdarvöxtur hefur mælst í ferskvatns- og votlendismosum. Nokkrar mælingar hafa verið gerðar á vexti hraungambra (Racomitrium lanuginosum) hér á landi: meðalársvöxtur í Þingvallahrauni árin 1990–1992 var 0,75 cm og 1,1 cm á Auðkúluheiði 2006–2007. Í samanburði við æðplöntur verður þó vöxtur mosa að teljast mjög hægur og skýrist það af byggingu og lífeðlisfræði þeirra.

Mosaþemba með hraungambra í Skaftáreldahrauni. Hraungambri er einn algengasti og mest áberandi mosinn á öllum suður- og vesturhluta Íslands svo og í strandhéruðum Austurlands. Hann er einn fyrsti landneminn í nýjum hraunum.

Vöxtur mosa, eins og annarra plantna, er háður vatni, steinefnum og birtu. Flestir mosar eru án róta og leiðsluvefs til upptöku og flutnings vatns og steinefna um plöntuna. Margar tegundir hafa þó rætlinga, en þeir gegna fyrst og fremst því hlutverki að binda plöntuna við undirlagið. Mosa skortir einnig yfirhúð (hlífðarlag) og eru því misvotir (e. poikilohydric), það er þeir þorna út við þurrk. Á móti kemur að mosar hafa hlutfallslega stórt yfirborð miðað við rúmmál og taka því auðveldlega upp vatn og næringarefni beint úr umhverfinu. Barnamosar (Sphagnum) eru einstakir hvað þetta varðar vegna sérkennilegrar frumugerðar og geta tekið upp tuttugufalda þurrvikt sína af vatni. Þetta fyrirkomulag skapar hins vegar fremur takmarkað aðgengi að næringarefnum í samanburði við það sem rætur æðplantna hafa í jarðvegi. Auk þess hafa mosar enga forðavefi sem tempra umhverfisbreytileika eins algengt er meðal æðplantna. Vöxtur mosa er því oftast mestur að vori og hausti og getur jafnvel stöðvast alveg í lengri tíma um mitt sumar þegar hlýjast og þurrast er.

Heimildir og mynd:
  • Glime, J.M. 2007. Bryophyte Ecology. Volume 1. Physiological Ecology. Ebook sponsored by Michigan Technological University and the International Association of Bryologists. Skoðað 4. janúar 2015 á: http://www.bryoecol.mtu.edu/
  • Ingibjörg Svala Jónsdóttir (2015). Vistfræði mosa í ljósi loftslagsbreytinga. Náttúrufræðingurinn, í prentun.
  • Flóra Íslands. Höfundur myndar: Hörður Kristinsson. (Sótt 9. 1. 2015).

...