Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er mosi?

Ingibjörg Svala Jónsdóttir

Mosar teljast til ríkis plantna. Allar plöntur eru frumbjarga (ljóstilífandi) fjölfruma heilkjörnungar með blaðgrænu og frumuveggi úr sellulósa. Samkvæmt gamalli hefð var plöntum deilt upp í lág- og háplöntur. Mosar tilheyrðu lágplöntum ásamt fléttum, þörungum og sveppum. Til háplantna töldust æðplöntur, en það eru plöntur með eiginlegan stoð- og leiðsluvef, það er byrkningar (jafnar, elftingar, burknar) og fræplöntur. Sveppir teljast nú til eigin ríkis og hluti þörunga til annarra ríkja lífvera. Í ríki plantna standa því eftir grænþörungar, mosar og æðplöntur.

Þróunarfræðilega standa mosar milli grænþörunga og æðplantna. Mosar eru þó ekki taldir forfeður æðplantna heldur sjálfstæð þróunargrein.

Tildurmosi (Hylocomium splendens) einn af algengustu mosum Íslands. Hann myndar vefi og vex oft innan um runnagróður. Gróhirlsur eru sjaldgæfar og eru þá bornar til hliðar á stönglum

Skráðar eru alls um 20.000 tegundir mosa í heiminum, þar af um 1.700 í Evrópu og 1.200 á Norðurlöndum. Bergþór Jóhannsson mosafræðingur (1933–2006) var frumherji á sviði mosarannsókna hér á landi og réðst í það mikla verk að gera heildstæða skrá yfir mosategundir á Íslandi, lýsa þeim og útbreiðslu þeirra og gefa þeim jafnframt íslensk nöfn. Samkvæmt vefsetrinu Flóru Íslands (floraislands.is) eru nú skráðar um 600 tegundir mosa hér á landi. Til samanburðar má geta að samkvæmt sömu heimild eru skráðar á Íslandi 489 tegundir æðplantna (þar af 452 tegundir fræplantna og 37 tegundir byrkninga), 755 tegundir fléttna, 1660 þörungategundir og 2100 sveppategundir.

Flokkunarfræðilega skiptast mosar í þrjár fylkingar, baukmosa (Bryophyta), soppmosa (Marchantiophyta) og hornmosa (Anthocerotophyta). Baukmosar eru lang-fjölskrúðugastir. Þeim er yfirleitt skipt í sjö flokka, og hafa mosar úr fjórum þeirra fundist á Íslandi. Næstir koma soppmosar. Þeim er nú skipt í tvo flokka og eiga báðir flokkarnir fulltrúa hér á landi. Hornmosar reka lestina og er einungis ein tegund skráð á Íslandi.

Lífsferill mosa er talsvert frábrugðinn lífsferli æðplantna. Hjá mosum er einlitna kynliðurinn mun meira áberandi en tvílitna gróliðurinn, en þessu er alveg öfugt farið hjá æðplöntum. Kynliðurinn hefur ýmist stöngul og blöð (allir baukmosar, margir soppmosar) eða jarðlægt þal (margir soppmosar, allir hornmosar) og er ýmist tvíkynja (einbýli, e. monoicous) eða einkynja (tvíbýli, e. dioicous). Gróliðurinn vex áfastur kynliðnum eftir samruna kynfrumanna og er gróhirslan mest áberandi hluti gróliðarins. Í henni myndast einlitna gró í kjölfar rýriskiptingar. Gróin eru mismunandi að stærð (10–50 (200) µm) og fjölda. Við spírun gróa mynda fyrst frumþal en upp af því vaxa mosaplönturnar eins og við þekkjum þær.

Hraungambri (Racomitrium lanuginosum) þekur hraun sunnan lands og myndar oft þykkar breiður. Gróhirslur standa á endum hliðargreina.

Í samanburði við fræplöntur er dreifingarmáttur mosa almennt mikill, sem endurspeglast í alheimsútbreiðslu margra tegunda. Dreifing mosa byggist að verulegu leyti á gróunum, en margar tegundir treysta einnig, jafnvel eingöngu, á dreifingu kynlaust myndaðra eininga, sem eru þá ýmist sérhæfðar einingar (e. gemmae) eða brot af sprotum kynliðarins. Þessa kynlausu nýliðunarhæfni má nýta við endurheimt vistkerfa.

Mosar kunna að virðast einsleitir í fyrstu en eru í raun afar fjölbreytilegir. Búsvæði mosa og lífsform eru margbreytileg og þeir eru mjög áberandi í gróðri norðlægra slóða og móta oft ásýnd hans. Það á svo sannarlega við víða á Íslandi. Mosar gegna jafnframt margslungnu og mikilvægu hlutverki í vistkerfum lands og ferskvatns.

Heimildir og myndir:

  • Bergþór Jóhannsson 2003. Íslenskir mosar. Skrár og viðbætur. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 44. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. 135 bls.
  • Flóra Íslands. Vefsetur í umsjón Harðar Kristinssonar. Skoðað 4. Janúar 2015 á: http://www.floraislands.is.
  • Glime, J.M. 2007. Bryophyte Ecology. Volume 1. Physiological Ecology. Ebook sponsored by Michigan Technological University and the International Association of Bryologists. Skoðað 4. Janúar 2015 á: http://www.bryoecol.mtu.edu/
  • Ingibjörg Svala Jónsdóttir (2015). Vistfræði mosa í ljósi loftslagsbreytinga. Náttúrufræðingurinn, í prentun.
  • Magnea Magnúsdóttir & Ása L. Aradóttir 2011. Leiðir til að fjölga hraungambra og öðrum mosategundum. Náttúrufræðingurinn 81 (3–4). 115–122.
  • Mynd af tildurmosa: Ingibjörg Svala Jónsdóttir.
  • Mynd af hraungambra: Flóra Íslands. Höfundur myndar: Hörður Kristinsson. (Sótt 9. 1. 2015).

Höfundur

Ingibjörg Svala Jónsdóttir

prófessor, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Útgáfudagur

13.1.2015

Spyrjandi

Sindri Magnússon

Tilvísun

Ingibjörg Svala Jónsdóttir. „Hvað er mosi?“ Vísindavefurinn, 13. janúar 2015, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=11649.

Ingibjörg Svala Jónsdóttir. (2015, 13. janúar). Hvað er mosi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=11649

Ingibjörg Svala Jónsdóttir. „Hvað er mosi?“ Vísindavefurinn. 13. jan. 2015. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=11649>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er mosi?
Mosar teljast til ríkis plantna. Allar plöntur eru frumbjarga (ljóstilífandi) fjölfruma heilkjörnungar með blaðgrænu og frumuveggi úr sellulósa. Samkvæmt gamalli hefð var plöntum deilt upp í lág- og háplöntur. Mosar tilheyrðu lágplöntum ásamt fléttum, þörungum og sveppum. Til háplantna töldust æðplöntur, en það eru plöntur með eiginlegan stoð- og leiðsluvef, það er byrkningar (jafnar, elftingar, burknar) og fræplöntur. Sveppir teljast nú til eigin ríkis og hluti þörunga til annarra ríkja lífvera. Í ríki plantna standa því eftir grænþörungar, mosar og æðplöntur.

Þróunarfræðilega standa mosar milli grænþörunga og æðplantna. Mosar eru þó ekki taldir forfeður æðplantna heldur sjálfstæð þróunargrein.

Tildurmosi (Hylocomium splendens) einn af algengustu mosum Íslands. Hann myndar vefi og vex oft innan um runnagróður. Gróhirlsur eru sjaldgæfar og eru þá bornar til hliðar á stönglum

Skráðar eru alls um 20.000 tegundir mosa í heiminum, þar af um 1.700 í Evrópu og 1.200 á Norðurlöndum. Bergþór Jóhannsson mosafræðingur (1933–2006) var frumherji á sviði mosarannsókna hér á landi og réðst í það mikla verk að gera heildstæða skrá yfir mosategundir á Íslandi, lýsa þeim og útbreiðslu þeirra og gefa þeim jafnframt íslensk nöfn. Samkvæmt vefsetrinu Flóru Íslands (floraislands.is) eru nú skráðar um 600 tegundir mosa hér á landi. Til samanburðar má geta að samkvæmt sömu heimild eru skráðar á Íslandi 489 tegundir æðplantna (þar af 452 tegundir fræplantna og 37 tegundir byrkninga), 755 tegundir fléttna, 1660 þörungategundir og 2100 sveppategundir.

Flokkunarfræðilega skiptast mosar í þrjár fylkingar, baukmosa (Bryophyta), soppmosa (Marchantiophyta) og hornmosa (Anthocerotophyta). Baukmosar eru lang-fjölskrúðugastir. Þeim er yfirleitt skipt í sjö flokka, og hafa mosar úr fjórum þeirra fundist á Íslandi. Næstir koma soppmosar. Þeim er nú skipt í tvo flokka og eiga báðir flokkarnir fulltrúa hér á landi. Hornmosar reka lestina og er einungis ein tegund skráð á Íslandi.

Lífsferill mosa er talsvert frábrugðinn lífsferli æðplantna. Hjá mosum er einlitna kynliðurinn mun meira áberandi en tvílitna gróliðurinn, en þessu er alveg öfugt farið hjá æðplöntum. Kynliðurinn hefur ýmist stöngul og blöð (allir baukmosar, margir soppmosar) eða jarðlægt þal (margir soppmosar, allir hornmosar) og er ýmist tvíkynja (einbýli, e. monoicous) eða einkynja (tvíbýli, e. dioicous). Gróliðurinn vex áfastur kynliðnum eftir samruna kynfrumanna og er gróhirslan mest áberandi hluti gróliðarins. Í henni myndast einlitna gró í kjölfar rýriskiptingar. Gróin eru mismunandi að stærð (10–50 (200) µm) og fjölda. Við spírun gróa mynda fyrst frumþal en upp af því vaxa mosaplönturnar eins og við þekkjum þær.

Hraungambri (Racomitrium lanuginosum) þekur hraun sunnan lands og myndar oft þykkar breiður. Gróhirslur standa á endum hliðargreina.

Í samanburði við fræplöntur er dreifingarmáttur mosa almennt mikill, sem endurspeglast í alheimsútbreiðslu margra tegunda. Dreifing mosa byggist að verulegu leyti á gróunum, en margar tegundir treysta einnig, jafnvel eingöngu, á dreifingu kynlaust myndaðra eininga, sem eru þá ýmist sérhæfðar einingar (e. gemmae) eða brot af sprotum kynliðarins. Þessa kynlausu nýliðunarhæfni má nýta við endurheimt vistkerfa.

Mosar kunna að virðast einsleitir í fyrstu en eru í raun afar fjölbreytilegir. Búsvæði mosa og lífsform eru margbreytileg og þeir eru mjög áberandi í gróðri norðlægra slóða og móta oft ásýnd hans. Það á svo sannarlega við víða á Íslandi. Mosar gegna jafnframt margslungnu og mikilvægu hlutverki í vistkerfum lands og ferskvatns.

Heimildir og myndir:

  • Bergþór Jóhannsson 2003. Íslenskir mosar. Skrár og viðbætur. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 44. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. 135 bls.
  • Flóra Íslands. Vefsetur í umsjón Harðar Kristinssonar. Skoðað 4. Janúar 2015 á: http://www.floraislands.is.
  • Glime, J.M. 2007. Bryophyte Ecology. Volume 1. Physiological Ecology. Ebook sponsored by Michigan Technological University and the International Association of Bryologists. Skoðað 4. Janúar 2015 á: http://www.bryoecol.mtu.edu/
  • Ingibjörg Svala Jónsdóttir (2015). Vistfræði mosa í ljósi loftslagsbreytinga. Náttúrufræðingurinn, í prentun.
  • Magnea Magnúsdóttir & Ása L. Aradóttir 2011. Leiðir til að fjölga hraungambra og öðrum mosategundum. Náttúrufræðingurinn 81 (3–4). 115–122.
  • Mynd af tildurmosa: Ingibjörg Svala Jónsdóttir.
  • Mynd af hraungambra: Flóra Íslands. Höfundur myndar: Hörður Kristinsson. (Sótt 9. 1. 2015).

...