Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvers vegna eru ein auðugustu fiskimið jarðarinnar í kringum Ísland?

Ástþór Gíslason

Grundvöllur hinna auðugu fiskimiða við Ísland er mikil framleiðni svifþörunga við landið. Svifþörungar eru smásæjar plöntur sjávar. Á sumrin hafast þeir við í yfirborðslögum þar sem þá rekur með straumum. Eins og plöntur á landi búa svifþörungarnir yfir þeim eiginleikum að þeir geta með hjálp sólarljóssins myndað lífræn efni úr ólífrænum. Þessi starfsemi nefnist ljóstillífun og er aðaluppspretta lífrænna fæðuefna handa öðrum lífverum. Svifþörungarnir eru nefnilega fæða dýrasvifsins, sem sjálft er svo fæða fiskungviðis og uppsjávarfiska. Þannig eru svifþörungarnir grundvöllur alls dýralífs í sjónum og þar með fiskistofnanna.

Næringarefni eins og nítrat, fosfat og kísill eru nauðsynleg til þess að svifþörungarnir nái að vaxa og dafna. Djúpsjór er að jafnaði næringarríkari en yfirborðssjór og frjósömustu svæði jarðarinnar er að finna þar sem hinn næringarríki djúpsjór á greiða leið upp til yfirborðslaganna. Slíkt á sér til dæmis stað á uppstreymissvæðum við vesturstrandir Suður-Ameríku og Afríku og á háum breiddargráðum, þar sem vindar eða straumar stuðla að uppblöndun og endurnýjun næringarefna til yfirborðslaganna.

Suður og vestur af Íslandi leitar næringarríkur djúpsjór upp með landgrunnshlíðunum og auðgar þannig yfirborðslögin. Við straumaskilin suðaustur og norðvestur af landinu, þar sem hlýsjór að sunnan og kaldur sjór að norðan mætast, berast næringarefni upp til yfirborðsins allt sumarið, og þar er frjósemin því einnig mikil. Óstöðugt veðurfar á Íslandi stuðlar einnig að því að sjór blandast upp og næringarefnaforði yfirborðslaganna endurnýjast. Vaxtarskilyrði svifþörunga, sem eins og fyrr sagði eru grundvöllur dýralífsins í sjónum, eru því mjög góð hér við land.

Íslenska hafsvæðið er á meðal frjósömustu hafsvæða heims. Þannig hefur verið áætlað að svifþörungar innan íslensku fiskveiðilandhelginnar bindi um 120 milljón tonn af kolefni í lífræn efni á ári, sem slagar hátt upp í það sem er í Barentshafi, en þar eru sem kunnugt er einnig mjög auðug fiskimið. Hitt er svo annað mál, að vegna þess hversu fæðuefnin nýtast illa á milli þrepa í flóknum fæðukeðjum sjávar, birtist aðeins lítið brot af framleiðni plöntusvifsins sem framleiðni fiskistofnanna.

Vegna legu landsins á mörkum hlýrra og kaldra hafstrauma eru umhverfisaðstæður hér við land mjög breytilegar, bæði í tíma og rúmi. Þannig má segja að ástand sjávar hér við land sé tiltölulega óstöðugt, sérstaklega fyrir norðan þar sem innflæði hlýs Atlantssjávar er mjög breytilegt frá einu ári til annars. En það er einmitt þessi breytileiki sem á sinn þátt í því að íslenska hafsvæðið er eins frjósamt og raun ber vitni. Þannig stuðla bæði vindar og straumar að því að nýr forði næringarefna berst upp til efri sjávarlaga þar sem hann nýtist svifþörungunum. Á hinn bóginn stuðlar þessi sami breytileiki einnig að því að sveiflur frá ári til árs í framleiðni dýrastofna hér við land geta orðið tiltölulega miklar.

Höfundur

sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun

Útgáfudagur

25.11.2002

Spyrjandi

Valdís Kristjánsdóttir,
Steinunn Ingvarsdóttir,
Ólafur Vignisson

Tilvísun

Ástþór Gíslason. „Hvers vegna eru ein auðugustu fiskimið jarðarinnar í kringum Ísland?“ Vísindavefurinn, 25. nóvember 2002. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2901.

Ástþór Gíslason. (2002, 25. nóvember). Hvers vegna eru ein auðugustu fiskimið jarðarinnar í kringum Ísland? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2901

Ástþór Gíslason. „Hvers vegna eru ein auðugustu fiskimið jarðarinnar í kringum Ísland?“ Vísindavefurinn. 25. nóv. 2002. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2901>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna eru ein auðugustu fiskimið jarðarinnar í kringum Ísland?
Grundvöllur hinna auðugu fiskimiða við Ísland er mikil framleiðni svifþörunga við landið. Svifþörungar eru smásæjar plöntur sjávar. Á sumrin hafast þeir við í yfirborðslögum þar sem þá rekur með straumum. Eins og plöntur á landi búa svifþörungarnir yfir þeim eiginleikum að þeir geta með hjálp sólarljóssins myndað lífræn efni úr ólífrænum. Þessi starfsemi nefnist ljóstillífun og er aðaluppspretta lífrænna fæðuefna handa öðrum lífverum. Svifþörungarnir eru nefnilega fæða dýrasvifsins, sem sjálft er svo fæða fiskungviðis og uppsjávarfiska. Þannig eru svifþörungarnir grundvöllur alls dýralífs í sjónum og þar með fiskistofnanna.

Næringarefni eins og nítrat, fosfat og kísill eru nauðsynleg til þess að svifþörungarnir nái að vaxa og dafna. Djúpsjór er að jafnaði næringarríkari en yfirborðssjór og frjósömustu svæði jarðarinnar er að finna þar sem hinn næringarríki djúpsjór á greiða leið upp til yfirborðslaganna. Slíkt á sér til dæmis stað á uppstreymissvæðum við vesturstrandir Suður-Ameríku og Afríku og á háum breiddargráðum, þar sem vindar eða straumar stuðla að uppblöndun og endurnýjun næringarefna til yfirborðslaganna.

Suður og vestur af Íslandi leitar næringarríkur djúpsjór upp með landgrunnshlíðunum og auðgar þannig yfirborðslögin. Við straumaskilin suðaustur og norðvestur af landinu, þar sem hlýsjór að sunnan og kaldur sjór að norðan mætast, berast næringarefni upp til yfirborðsins allt sumarið, og þar er frjósemin því einnig mikil. Óstöðugt veðurfar á Íslandi stuðlar einnig að því að sjór blandast upp og næringarefnaforði yfirborðslaganna endurnýjast. Vaxtarskilyrði svifþörunga, sem eins og fyrr sagði eru grundvöllur dýralífsins í sjónum, eru því mjög góð hér við land.

Íslenska hafsvæðið er á meðal frjósömustu hafsvæða heims. Þannig hefur verið áætlað að svifþörungar innan íslensku fiskveiðilandhelginnar bindi um 120 milljón tonn af kolefni í lífræn efni á ári, sem slagar hátt upp í það sem er í Barentshafi, en þar eru sem kunnugt er einnig mjög auðug fiskimið. Hitt er svo annað mál, að vegna þess hversu fæðuefnin nýtast illa á milli þrepa í flóknum fæðukeðjum sjávar, birtist aðeins lítið brot af framleiðni plöntusvifsins sem framleiðni fiskistofnanna.

Vegna legu landsins á mörkum hlýrra og kaldra hafstrauma eru umhverfisaðstæður hér við land mjög breytilegar, bæði í tíma og rúmi. Þannig má segja að ástand sjávar hér við land sé tiltölulega óstöðugt, sérstaklega fyrir norðan þar sem innflæði hlýs Atlantssjávar er mjög breytilegt frá einu ári til annars. En það er einmitt þessi breytileiki sem á sinn þátt í því að íslenska hafsvæðið er eins frjósamt og raun ber vitni. Þannig stuðla bæði vindar og straumar að því að nýr forði næringarefna berst upp til efri sjávarlaga þar sem hann nýtist svifþörungunum. Á hinn bóginn stuðlar þessi sami breytileiki einnig að því að sveiflur frá ári til árs í framleiðni dýrastofna hér við land geta orðið tiltölulega miklar.

...