Rauður: Fjölbreytilegur, frá fölrauðum til nánast bleiks yfir í sótrauðan. Liturinn á tagli og faxi er oft svipaður og á búk en einnig ljósari.
Bleikur: Ljósari en rauði liturinn. Munurinn felst í því að húðin er ljós á bleikum hestum, sem og flipi, hófar og nasavængir.
Leirljós: Gulhvítur. Einkenni leirljósra hesta er næstum hvítt fax og tagl.
Brúnn: Getur verið frá ljósbrúnu til tinnusvarts, fax og tagl eru oftast eins og búkurinn. Folöldin eru oft grábrún en dökkna með aldrinum.
Mósóttur: Er öskugrár eða grábrúnn. Fax, tagl og hófar eru dekkri en búkurinn.
Jarpur: Getur verið botnjarpur, dökkjarpur, korgjarpur (með hringjamynstri) og rauðjarpur. Hófar, tagl og fax eru oft dekkri en búkurinn.
Bleikálóttur: Hrossin eru dökkbleik á bol, með næstum því svarta mön í faxi (mön er lína sem liggur eftir hestinum ofan á hryggnum). Fætur eru oftast dekkri og hófar eru auk þess dökkir.
Moldóttur: Breytilegur, frá gulum (nær hvítum) til dökkjarps. Höfuð eða snoppa eru gulleit en fax, tagl og fætur eru dökkir.
Móvindóttur: Á milli mósótts og brúns. Fax og tagl eru oftast silfurgrá. Rauðvindótt er líka til.
Hvítur (albínói): Litlaus hross eru ýmist hringeygð, glaseygð eða rauðeygð.
Ofangreindir litir geta komið fyrir einir en líka geta skjóttir, blesóttir, stjörnóttir, nösóttir, tvístjörnóttir og skokkóttir litir fylgt þeim.
Grátt: Getur verið með öllum litum. Folaldið fæðist með eðlilegan grunnlit en smátt og smátt fara hvít hár að birtast og að lokum hverfur grunnliturinn og hesturinn verður hvítur.
Litförótt: Getur fylgt öllum litum hestsins. Liturinn kemur fram við að hvít hár koma í bland við dökk hár úr grunnlit. Mest ber á hvítum hárum í vetrarfeldinum og þá eru hrossin grá, en á vorin dökkna þau mikið, þá kemur grunnliturinn oft lítið breyttur fram.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hvernig eiga hestar samskipti sín á milli? eftir Hrefnu Sigurjónsdóttur
- Íslensk Orðabók, 3. útg., ritstj. Mörður Árnason, Edda, Reykjavík 2002.
- Íslenski hesturinn
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.