Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vitað er að sum skordýr, fuglar og fiskar geta greint útfjólublátt ljós. Auk þess er talið að til dæmis fuglar og sum skordýr geri greinarmun á litum sem við mannfólkið sjáum engan mun á. Er spurningunni þar með svarað? Nei, líklega ekki. Það þarf ekki að vera að þessi dýr sjái það sem við köllum liti þótt þau sjái ýmislegt sem við sjáum ekki. Það fer allt eftir því hvernig við skilgreinum liti og það er nokkuð sem heimspekingar eru engan veginn sáttir um. Illa hefur gengið að skilgreina liti án tilvísunar til litaskynjunar. Það fer svo eftir því hvort litir eru skilgreindir út frá mannlegri litaskynjun eða til dæmis litaskynjun dýra yfirleitt hvort svarið við spurningunni verður „nei" eða „já".
Ætla mætti að beinast liggi við að skilgreina liti út frá því sem vísindin hafa að segja um það hvernig litaskynjun gengur fyrir sig. Vísindin geta að sjálfsögðu varpað ljósi á orsakir litaskynjunar og það hvernig hún fer fram. Vandi heimspekinnar er hinsvegar að ráða fram úr því hvort litur sé sami eiginleiki og sá eiginleiki hlutar sem er orsök þess að hluturinn virðist hafa viðkomandi lit, hvort litur sé ef til vill ekki sami eiginleiki og þessi orsök sem liggur í hlutnum heldur frekar einhver eiginleiki skynjunar okkar eða eitthvað enn annað. Þótt vísindin geti sýnt okkur orsakir litaskynjunar og hvaða eiginleikar koma þar við sögu þá er það verkefni heimspekinnar að finna út nákvæmlega hver þessara eiginleika það er sem er sami eiginleiki og liturinn.
Það sem við skynjum sem sama litinn getur átt sér margar mismunandi orsakir. Tveir hlutir sem okkur virðast nákvæmlega eins á litinn geta í raun endurvarpað ljósi með tveimur gjörólíkum samsetningum bylgjulengda. Það er ekki heppilegt að skilgreina lit sem endurvarp ákveðinnar bylgjulengdasamsetningar því þá fáum við þá niðurstöðu að við getum ekki séð hvort tveir hlutir hafi sama lit sem brýtur í bága við almenna skynsemi. Samkvæmt almennri skynsemi er það til dæmis ekki mögulegt að helmingur þeirra hluta sem við höfum hingað til verið sammála um að væru grænir séu alls ekki grænir heldur eitthvað allt annað. Skilgreining sem leiðir það af sér að við þurfum sérstök mælitæki til að meta hvort tveir hlutir séu eins á litinn er ekki skilgreining á litum heldur á einhverju öðru.
Það sem ásættanlegar skilgreiningar á litum verða að hafa til að bera er að varðveita með einum eða öðrum hætti það sem litið er á sem augljós sannindi um liti eins og það að litir séu skynjanlegir með berum augum og að sama máli gegni um tengsl eða vensl milli lita, svo sem það hvort þeir séu líkir eða ólíkir. Óhjákvæmilegt virðist því að skilgreina liti með tilliti til litaskynjunar. Útfærsla slíkrar skilgreiningar getur verið á ýmsa vegu og verður ekki farið nánar út í það hér.
Ein af spurningunum sem þarf að svara er til hvaða litaskynjunar eigi að taka tillit þegar litir eru skilgreindir. Við getum skilgreint liti út frá okkar eigin litaskynjun. Þá hafa hlutirnir einfaldlega þá liti sem okkur mannfólkinu virðast þeir hafa og samkvæmt slíkri skilgreiningu eru ekki til litir sem mannsaugað greinir ekki. Annar möguleiki er að segja að hlutur sé grænn ef einhverjum virðist hann grænn og rauður ef einhverjum virðist hann rauður, óháð því hvort um manneskjur eða önnur dýr sé að ræða. Samkvæmt því eru til litir sem mannsaugað greinir ekki en þá sitjum við hinsvegar uppi með þá niðurstöðu sem sumum kann að finnast óþægileg að einlitur hlutur geti haft marga mismunandi liti í senn.
Nokkrar ábendingar um lesefni:
Alex Byrne og David Hilbert (ritstj.) (1997), Readings on Color: The Philosophy of Color, Cambridge (Mass.): MIT Press.
C. L. Hardin (1988), Color for Philosophers: Unweaving the Rainbow, Indianapolis: Hackett Publishing Company.
Barry Maund (1995), Colours. Their Nature and Representation, Cambridge: Cambridge University Press.
Breytt mynd fengin frá Britannica.com
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Eru til litir sem mannsaugað greinir ekki?“ Vísindavefurinn, 26. mars 2000, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=295.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2000, 26. mars). Eru til litir sem mannsaugað greinir ekki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=295
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Eru til litir sem mannsaugað greinir ekki?“ Vísindavefurinn. 26. mar. 2000. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=295>.