Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Um uppruna jólatrésins er flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn til dæmis í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar.
Einnig er til fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama uppi á teningnum: kenningin um „miðjuna“. Eitt þessara trjáa er Askur Yggdrasils, úr trúarbrögðum norrænna manna, og annað er Lífsins tré í Eden.
Árni Björnsson þjóðháttafræðingur ritar í bókinni Saga daganna (1977):
Frá því um 1100 var tekið að sýna helgileiki innan kirkju og utan, þar á meðal söguna um sköpun mannsins, syndafallið og burtreksturinn úr aldingarðinum Eden. Stóð skilningstréð þá tíðast á miðju sviðinu. Það var grænt tré og héngu á því epli og borðar. Líktist það talsvert jólatré, nema kertin vantaði, en svo var einnig um þau jólatré, sem fyrst eru spurnir um. En hversu sem orðið hefur siður að reisa sígrænt tré í húsum á jólum, er næsta eðlilegt, að það bætti á sig ljósum með tímanum. Kerti voru ævinlega mikið um hönd höfð á jólunum og engin undur, þótt mönnum dytti í hug að reyna einnig að festa þau á tréð.
Fyrstu þekktu heimildir um einskonar jólatré eru frá Strassburg og þar um kring á 16. öld. En hinn fyrsti sem getur um ljósum prýtt jólatré er Goethe, í sögu frá 1774. Fyrsta mynd af jólatré með ljósum er hins vegar frá Zürich árið 1799. Nokkrum árum síðar, árið 1807, eru til sölu á markaði í Dresden í Þýskalandi fullbúin jólatré, meðal annars skreytt gylltum ávöxtum og kertum. Greinilegt er, að siðurinn er þá búinn að ná öruggri fótfestu þar um slóðir. Hann fór svo að berast til Norðurlanda eftir 1800.
Jólatré bárust til Norðurlandanna eftir 1800. Mynd eftir danska málarann Viggo Johansen (1851-1935) frá 1891.
Til Íslands munu fyrstu jólatrén hafa komið um 1850, í kaupstaði, aðallega hjá dönskum fjölskyldum. En fæstir landsmenn áttu þess kost að eignast grenijólatré á þeim tíma. Málið var leyst með því að smíða gervijólatré og klæða það með sortulyngi, beitilyngi eða eini. Elstu heimildir um slíkt eru frá 1880-1890. Um þess konar tré yrkir Hannes Pétursson:
Jólatréð okkar, stirðlegur
stautur af dökkum viði
sem bíður síns tíma
í tómlátu myrkri háaloftsins...
Nú höldum við af stað
upp í hlíðina gömlu
að reyta handa því lyng.
Það er logn og hvít jörð.
Til að reyta berjalyng
handa blásnauðu trénu.
Jólin að koma - og lyngið
er loðið af mjöll.
Vongleði
vængjar skóhælinn okkar!
Eins og gefur að skilja eru til margar helgisagnir um uppruna jólatrésins. Þekktust er líklega sagan um englana þrjá, sem Guð bað um að fara til jarðarinnar, þegar halda átti jól í fyrsta sinn, og velja þar tré, sem best hentaði tilefninu. Og allir völdu þeir grenitréð.
Önnur saga, ekki eins kunn, en ættuð frá Sikiley, er á þessa leið:
Á fyrsta ævikvöldi Jesúbarnsins komu lífverur hvaðanæva af jörðinni í fjárhúsið í Betlehem til að heiðra konunginn nýfædda og færa honum gjafir. Meira að segja trén voru í þeim hópi.
Ólífutréð gaf honum ávexti sína. Pálmatréð færði honum döðlur. Og öll hin áttu líka eitthvað til að færa honum að gjöf. Nema þinurinn litli. Hann var kominn um langan veg og gat með naumindum staðið uppréttur, þegar áfangastað var náð. Hin stærri trén áttu því auðvelt með að stjaka við þessum norðlæga gesti og fyrr en varði stóð hann einn afsíðis, fjarri ljómanum sem frá jötunni stafaði.
Engill, sem var þar hjá og sá það sem gerðist, kenndi í brjósti um tréð lágvaxna, fór upp til stjarnanna og bað nokkrar þeirra um að koma og setjast á greinar þess. Sem þær og gerðu, lýsandi eins og björtust kerti. Þegar Jesúbarnið sá þetta, fylltist hjarta þess af gleði og bros færðist yfir varir. Það blessaði tréð og mælti svo um, að þinurinn og ættingjar hans skyldu þaðan í frá verða prýdd á aðventu og jólum, til að verma hjörtu barnanna.
Helgisagnir á borð við þær sem hér um getur varpa skemmtilegu ljósi á uppruna jólatrésins og skýra báðar á sinn hátt hvers vegna barrtré varð fyrir valinu. Líklegast er sú venja að nota barrtré frekar en lauftré þó tilkomin vegna þess að þau fella ekki barrið (laufblöðin) heldur eru græn á þessum ársíma ólíkt lauftrjánum sem eru með berar greinar.
Uppistaðan í þessu svari birtist fyrst sem hugvekja í Morgunblaðinu þann 15. desember 2002.
Mynd:
Sigurður Ægisson. „Af hverju notum við grenitré fyrir jólatré?“ Vísindavefurinn, 23. desember 2002, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2977.
Sigurður Ægisson. (2002, 23. desember). Af hverju notum við grenitré fyrir jólatré? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2977
Sigurður Ægisson. „Af hverju notum við grenitré fyrir jólatré?“ Vísindavefurinn. 23. des. 2002. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2977>.