Sólin Sólin Rís 02:58 • sest 23:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:00 • Sest 02:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:15 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík

Eru tengsl á milli sjávarfalla og vinds þannig að vind lægi þegar fellur út?

Trausti Jónsson

Menn telja víða um land að samband sé á milli vinda og sjávarfalla og þá þannig að vindur aukist með aðfallinu, en það lægi þegar falla tekur út. Líklegt er að einhver raunveruleg reynsla sé að baki þessara alþýðuvísinda og er ekki aðeins talað um þetta hér á landi heldur einnig í Noregi, á Bretlandseyjum og ef til vill víðar. Þrátt fyrir talsverða fyrirhöfn veðurfræðinga hefur þó ekki alveg tekist að rökstyðja þessa reglu þannig að viðhlítandi sé.

Leitin hefur fyrst og fremst farið þannig fram að vindáttatíðni og vindstyrkur eru reiknuð við mismunandi fasa tunglsins. Flóð og fjara eru alltaf á sama tíma við fullt og nýtt tungl (stórstreymi), en á öðrum tíma við 1. og 3. kvartil tunglsins (smástreymi). Hugmyndin er sú að hafi sjávarföll áhrif ættu þau að koma fram sem kerfisbundinn munur á vindskilyrðum í stórstreymi annars vegar og í smástreymi hins vegar.

Rannsókn sem var gerð á Bretlandi og birt árið 1977 (Simpson og félagar), gaf til kynna að munur væri á tíðni hafgolu eftir fösum tunglsins á Lasham á Suður-Englandi, en sá staður er reyndar 50 km frá sjó. Höfundar rannsóknarinnar töldu líklegasta skýringu þá að stórar leirur á fjöru hitnuðu meir þegar fjara væri á þeim tíma sem sól er hæst á lofti heldur en þegar leirurnar voru undir sjó á þeim tíma. Dægursveifla hita yfir leirunum væri meiri þegar þær væru þurrar og það ylli aukinni hlutfallslegri tíðni hafgolu umfram aðra tunglsfasa. Rannsóknir við norðvesturströnd Þýskalands (Kessler og félagar, 1985) og í Hollandi (Meesters og félagar 1989) hafa gefið svipaðar vísbendingar. Þetta styður að fótur sé fyrir alþýðuvísindunum.Logn og útfall í Hrafnsfirði í Jökulfjörðum. Ekki er hægt að fullyrða að samband sé á milli vinda og sjávarfalla.

Fyrir nokkrum árum var gerð lausleg athugun (Trausti Jónsson, 2005) á sambandi tunglfasa og vinda á tveimur íslenskum veðurstöðvum (Reykjavík og Hvanneyri í Borgarfirði). Fyrstu niðurstöður virtust styðja hugmyndir um kerfisbundinn mun á hafgolu á stórstreymi og smástreymi, en erfitt var að tengja þær ákveðnum orsakavöldum þar sem útbreiðsla á leirum er mun minni en þar sem erlendu rannsóknirnar fóru fram.

Í upphafi voru gögn sjö sumra notuð við rannsóknina, mælingar á klukkustundarfresti. Síðan var tímabilið lengt í 56 ár (fyrir Reykjavík) og reglan reynd fyrir allt tímabilið og nokkur undirtímabil, en með þriggja klukkustunda bili milli athugana. Þá kom í ljós að fyrri niðurstöður áttu eingöngu við um það sjö ára tímabil sem fyrst var athugað. Að vísu kom líka fram reglubundinn munur á stórstreymi og smástreymi á öðrum tímabilum, en hann var ekki sá sami og átti sér ekki stað á sömu tímum dagsins og fyrstu niðurstöður gáfu til kynna. Þegar nánar er að gáð liggja einnig fremur stutt tímabil til grundvallar erlendu rannsóknunum og dregur það heldur úr trúverðugleika þeirra.

Eftir því sem gagnasafn Veðurstofunnar stækkar verður vænlegra að gera þessa tilraun fyrir fleiri veðurstöðvar, fleiri ár og styttra bil á milli athugana (10 mínútur). Vel má vera að eitthvað finnist sé nægilega leitað. En niðurstaðan er þó sú að ekkert ákveðið rétt svar sé við spurningunni, enn sem komið er að minnsta kosti. Erlendar og innlendar athuganir benda til þess að vel geti þetta verið, en eru þó varla nægilega ítarlegar til að hægt sé að fullyrða um það.

Ítarefni:

  • John E. Simpson (1994): Sea breeze and local wind. Cambridge University Press, 234 s. Á bls. 55 til 57 er yfirlit um þær rannsóknir sem vísað er til hér að ofan.

Tilvitnanir:

  • Kessler, R.C., D. Eppel, R.A. Pielke, J. McQueen (1985): A numerical study of the effects of a large sandbar upon sea breeze developement. Arch. Meteorol. Geophys. Bioclimatol. Ser. A, 34, 3-26.
  • Meesters, A.G.C.A., H.F. Vugts, A.J. van Delden, F. Cannemeier (1989): Diurnal variation of the surface wind in a tidal area. Beitr. Phys. Atmos., 62, 258-264.
  • Simpson, J.E., D.S. Mansfield, J.R. Milford (1977): Inland penetration of sea-breeze fronts. Q.J.R. Meteorol. Soc., 106, 485-500.
  • Trausti Jónsson (2005): Tungltengdur breytileiki vinds á Hvanneyri að sumarlagi? Erindi á fræðaþingi Félags íslenskra veðurfræðinga, Reykjavík, 20.-21. október 2005.

Mynd: Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir


Í heild hljóðar spurningin svona:
Við sjávarsíðuna er sagt að vind lægi þegar sjávarborð lækkar eða fellur út eða er fjara. Er eitthvað sem skýrir þetta, er þetta bara vitleysa?

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

21.7.2008

Spyrjandi

Ólafur Júlíus Aðalbjörnsson

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Eru tengsl á milli sjávarfalla og vinds þannig að vind lægi þegar fellur út?“ Vísindavefurinn, 21. júlí 2008. Sótt 13. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=30325.

Trausti Jónsson. (2008, 21. júlí). Eru tengsl á milli sjávarfalla og vinds þannig að vind lægi þegar fellur út? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=30325

Trausti Jónsson. „Eru tengsl á milli sjávarfalla og vinds þannig að vind lægi þegar fellur út?“ Vísindavefurinn. 21. júl. 2008. Vefsíða. 13. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=30325>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru tengsl á milli sjávarfalla og vinds þannig að vind lægi þegar fellur út?
Menn telja víða um land að samband sé á milli vinda og sjávarfalla og þá þannig að vindur aukist með aðfallinu, en það lægi þegar falla tekur út. Líklegt er að einhver raunveruleg reynsla sé að baki þessara alþýðuvísinda og er ekki aðeins talað um þetta hér á landi heldur einnig í Noregi, á Bretlandseyjum og ef til vill víðar. Þrátt fyrir talsverða fyrirhöfn veðurfræðinga hefur þó ekki alveg tekist að rökstyðja þessa reglu þannig að viðhlítandi sé.

Leitin hefur fyrst og fremst farið þannig fram að vindáttatíðni og vindstyrkur eru reiknuð við mismunandi fasa tunglsins. Flóð og fjara eru alltaf á sama tíma við fullt og nýtt tungl (stórstreymi), en á öðrum tíma við 1. og 3. kvartil tunglsins (smástreymi). Hugmyndin er sú að hafi sjávarföll áhrif ættu þau að koma fram sem kerfisbundinn munur á vindskilyrðum í stórstreymi annars vegar og í smástreymi hins vegar.

Rannsókn sem var gerð á Bretlandi og birt árið 1977 (Simpson og félagar), gaf til kynna að munur væri á tíðni hafgolu eftir fösum tunglsins á Lasham á Suður-Englandi, en sá staður er reyndar 50 km frá sjó. Höfundar rannsóknarinnar töldu líklegasta skýringu þá að stórar leirur á fjöru hitnuðu meir þegar fjara væri á þeim tíma sem sól er hæst á lofti heldur en þegar leirurnar voru undir sjó á þeim tíma. Dægursveifla hita yfir leirunum væri meiri þegar þær væru þurrar og það ylli aukinni hlutfallslegri tíðni hafgolu umfram aðra tunglsfasa. Rannsóknir við norðvesturströnd Þýskalands (Kessler og félagar, 1985) og í Hollandi (Meesters og félagar 1989) hafa gefið svipaðar vísbendingar. Þetta styður að fótur sé fyrir alþýðuvísindunum.Logn og útfall í Hrafnsfirði í Jökulfjörðum. Ekki er hægt að fullyrða að samband sé á milli vinda og sjávarfalla.

Fyrir nokkrum árum var gerð lausleg athugun (Trausti Jónsson, 2005) á sambandi tunglfasa og vinda á tveimur íslenskum veðurstöðvum (Reykjavík og Hvanneyri í Borgarfirði). Fyrstu niðurstöður virtust styðja hugmyndir um kerfisbundinn mun á hafgolu á stórstreymi og smástreymi, en erfitt var að tengja þær ákveðnum orsakavöldum þar sem útbreiðsla á leirum er mun minni en þar sem erlendu rannsóknirnar fóru fram.

Í upphafi voru gögn sjö sumra notuð við rannsóknina, mælingar á klukkustundarfresti. Síðan var tímabilið lengt í 56 ár (fyrir Reykjavík) og reglan reynd fyrir allt tímabilið og nokkur undirtímabil, en með þriggja klukkustunda bili milli athugana. Þá kom í ljós að fyrri niðurstöður áttu eingöngu við um það sjö ára tímabil sem fyrst var athugað. Að vísu kom líka fram reglubundinn munur á stórstreymi og smástreymi á öðrum tímabilum, en hann var ekki sá sami og átti sér ekki stað á sömu tímum dagsins og fyrstu niðurstöður gáfu til kynna. Þegar nánar er að gáð liggja einnig fremur stutt tímabil til grundvallar erlendu rannsóknunum og dregur það heldur úr trúverðugleika þeirra.

Eftir því sem gagnasafn Veðurstofunnar stækkar verður vænlegra að gera þessa tilraun fyrir fleiri veðurstöðvar, fleiri ár og styttra bil á milli athugana (10 mínútur). Vel má vera að eitthvað finnist sé nægilega leitað. En niðurstaðan er þó sú að ekkert ákveðið rétt svar sé við spurningunni, enn sem komið er að minnsta kosti. Erlendar og innlendar athuganir benda til þess að vel geti þetta verið, en eru þó varla nægilega ítarlegar til að hægt sé að fullyrða um það.

Ítarefni:

  • John E. Simpson (1994): Sea breeze and local wind. Cambridge University Press, 234 s. Á bls. 55 til 57 er yfirlit um þær rannsóknir sem vísað er til hér að ofan.

Tilvitnanir:

  • Kessler, R.C., D. Eppel, R.A. Pielke, J. McQueen (1985): A numerical study of the effects of a large sandbar upon sea breeze developement. Arch. Meteorol. Geophys. Bioclimatol. Ser. A, 34, 3-26.
  • Meesters, A.G.C.A., H.F. Vugts, A.J. van Delden, F. Cannemeier (1989): Diurnal variation of the surface wind in a tidal area. Beitr. Phys. Atmos., 62, 258-264.
  • Simpson, J.E., D.S. Mansfield, J.R. Milford (1977): Inland penetration of sea-breeze fronts. Q.J.R. Meteorol. Soc., 106, 485-500.
  • Trausti Jónsson (2005): Tungltengdur breytileiki vinds á Hvanneyri að sumarlagi? Erindi á fræðaþingi Félags íslenskra veðurfræðinga, Reykjavík, 20.-21. október 2005.

Mynd: Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir


Í heild hljóðar spurningin svona:
Við sjávarsíðuna er sagt að vind lægi þegar sjávarborð lækkar eða fellur út eða er fjara. Er eitthvað sem skýrir þetta, er þetta bara vitleysa?
...