Seinna komst ég að því, að móðir mín hafði dáið skelfilegum og afar sjaldgæfum dauðdaga. Þeir, sem stunda í óhófi neyslu sterkra drykkja, hljóta einstöku sinnum slíkan dauðdaga. Móðir mín fórst við sjálfsíkviknun. Þegar vínandinn streymdi um líkamann, myndaðist við það gas, sem kviknaði svo í. Logarnir, sem stóðu út úr líkama móður minnar, hafa svipt föður minn allri sjálfsstjórn. Þannig missti ég báða foreldra mína samtímis. Annað varð eldinum að bráð, hitt fór í vatnið.Þannig lýkur fyrsta kafla barnasögunnar um Jakob ærlegan. Á nítjándu öld létu nokkrir rithöfundar persónur sínar fuðra upp á sama hátt, til að mynda Charles Dickens í Bleak House, Herman Melville og Émile Zola. Kenningar um sjálfsíkviknun þar sem líkaminn logar skyndilega án þess að í honum sé kveikt og hann fuðrar upp, eiga ekki við rök að styðjast. Hins vegar eru þekkt einstaka dæmi um það að líkamar hafa brunnið, til dæmis í heimahúsum, án þess að nokkuð í næsta nágrenni brenni. Skýringin á þessu virðist vera sú að til að mynda sígarettuglóð geti kveikt í fötum einhvers sem er nýlátinn eða meðvitundarlaus, því að annars myndi hann að öllum líkindum vera fljótur að slökkva eldinn. Fötin verki svo sem uppkveikja, svipað og þegar við kveikjum upp í arni eða ofni eða á grilli með pappír eða grillvökva, og jafnframt eins og kveikur í kerti en fita líkamans sé sjálft eldsneytið, líkt og í vaxkerti. Þannig getur líkaminn brunnið hægt og rólega, oftast niður að fótum, þar sem fituinnihald er tiltölulega lágt. Þess háttar bruni getur varað í marga klukkutíma. Vegna sjónvarpsþáttar hjá BBC var reynt að líkja eftir svona bruna í mannslíkamanum með því að vefja dauðum grís í teppi og kveikja í honum. Fituinnihald svína mun vera svipað og manna. Eftir fimm tíma var grísinn allur brunninn, jafnvel beinin. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart að bruni geti verið ýmist hægur eða hraður. Þetta fer meðal annars eftir því hversu greiðan aðgang súrefni loftsins hefur að eldsneytinu. Þegar við brennum eldiviði í arni eða kamínu má hafa áhrif á þetta með svokölluðu trekkspjaldi og öðrum slíkum búnaði. Forfeður okkar höfðu til dæmis lag á því sem kallað var að ,,fela eldinn" yfir nóttina, það er að segja að ganga þannig frá kolunum í ofninum að glóðin héldist í þeim yfir nóttina. Frederick Marryat er ekki bara þekktur fyrir söguna af Jakobi ærlegum heldur skrifaði hann líka eina af fyrstu sögulegu skáldsögunum fyrir börn, en það er sagan The Children of the New Forest (1847) eða Börnin í Nýskógum. Við bendum lesendum okkar einnig á að lesa almennt svar um yfirnáttúrulega hluti. Heimild
Getur orðið sjálfsíkviknun í fólki, samanber móður Jakobs ærlega?
Útgáfudagur
21.1.2003
Spyrjandi
Auður Alfífa Ketilsdóttir
Tilvísun
Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Getur orðið sjálfsíkviknun í fólki, samanber móður Jakobs ærlega?“ Vísindavefurinn, 21. janúar 2003, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3034.
Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 21. janúar). Getur orðið sjálfsíkviknun í fólki, samanber móður Jakobs ærlega? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3034
Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Getur orðið sjálfsíkviknun í fólki, samanber móður Jakobs ærlega?“ Vísindavefurinn. 21. jan. 2003. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3034>.