Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Leiðin sem Hannibal fór er ekki þekkt í öllum smáatriðum þótt fornir sagnaritarar greini frá leiðangrinum í löngu máli. Enn fremur er ekki alltaf ljóst hvaðan upplýsingar sagnaritaranna koma og vert að velta því aðeins fyrir sér áður en lengra er haldið. Elsta og besta ritaða heimildin um Alpaför Hannibals, sem enn er varðveitt, er rit sagnaritarans Pólýbíosar um sögu Rómaveldis en frásögn rómverska sagnaritarans Titusar Liviusar er einnig varðveitt. Meira og minna allar varðveittar heimildir um Alpaför Hannibals byggja þó að einhverju leyti á frásögn Pólýbíosar, þar á meðal frásögn Liviusar.
Þótt Pólýbíos sé gjarnan talinn meðal áreiðanlegustu sagnaritara fornaldar var hann þó sjálfur ófæddur þegar Hannibal hélt yfir Alpana og réðst inn í Ítalíu. Því má spyrja hvernig Pólýbíos gat eitthvað vitað um leiðina sem var farin. Tvennt þarf að hafa í huga. Í fyrsta lagi hafði Pólýbíos mun betra aðgengi að upplýsingum en flestir samtímamenn hans. Hann var grískur maður, fæddur í borginni Megalopolis í fjöllum Arkadíu á Pelópsskaga um það leyti eða skömmu eftir að öðru púnverska stríðinu lauk í kjölfarið á ósigri Hannibals í orrustunni við Zama árið 202 f.Kr. Pólýbíos var sendur til Rómar eftir orrustuna við Pydna árið 168 f.Kr. og varð einkakennari sona Aemiliusar Paullusar, rómverska herforingjans sem hafði haft sigur við Pydna. Annar af sonum hans var einmitt Scipio Aemilianus sem var fóstursonur Publiusar Corneliusar Scipios, elsta sonar Scipios Africanusar, sem hafði sigrað Hannibal við Zama. Scipio Aemilianus átti sjálfur eftir að leggja Karþagó í eyði í þriðja púnverska stríðinu árið 146 f.Kr. og Pólýbíos varð sjálfur vitni að því. Pólýbíos segist hafa rætt í eigin persónu við menn sem tóku þátt í leiðangri Hannibals (Polyb. III.48) og ástæðulaust að draga það í efa.
Hannibal á fílsbaki. Hluti af af fresku frá upphafi 16. aldar.
Í öðru lagi hafði hann aðgang að rituðum heimildum sem nú eru glataðar. Í flestum tilvikum eru heimildir hans ekki þekktar; hann nefnir einungis nokkrar, meðal annars fyrsta rómverska sagnaritarann Fabius Pictor, sem tók sjálfur þátt í öðru púnverska stríðinu gegn Hannibal. Annar Rómverji sem tók þátt í stríðinu og skrifaði síðar sagnfræðirit um það var Lucius Cincius Alimentus og Pólýbíos gæti hafa lesið rit hans, í það minnsta hafði Livius lesið það (Liv. XXI.28). Alimentus var handtekinn af Karþagómönnum í stríðinu og kvaðst hafa haft tækifæri til að ræða við Hannibal meðan hann var í haldi. Enn fremur voru grísku sagnaritararnir Kæreas, Sílenos og Sósýlos með Karþagómönnum í för og skráðu niður sögu Hannibals. Pólýbíos þekkti til rita þeirra.
Pólýbíos fór sjálfur yfir Alpana rúmlega hálfri öld á eftir Hannibal. Hann lýsir leiðinni sem Hannibal fór og segir að hún hafi verið um 213 km og hafi tekið fimmtán daga en það er ekki alveg ljóst við hvaða stað hann miðar upphaf ferðarinnar yfir Alpana. Í heildina tók leið Hannibals frá Spáni til Ítalíu yfir fimm mánuði og var um 1500 km. En þrátt fyrir oft nákvæma lýsingu sagnaritaranna á staðháttum í Ölpunum er ekki alveg ljóst hver leiðin var í smáatriðum meðal annars af því að það er ekki alltaf ljóst til hvaða staða örnefnin, sem þeir nota, vísa.
Einn fræðimaður, sir Gavin R. de Beer, færði rök fyrir eftirfarandi leið (sjá de Beer 2010): Hannibal hefur farið yfir ána Rón milli Fourques og Arles í Suður-Frakklandi og þá haldið í norður og fram hjá Meillane og Avignon yfir árnar Durance og Aygues norður til Loriol við ána Drôme. Þá hefur hann snúið í austur í gegnum fjallskarðið Col de Grimone í áttina að bænum Gap. Frá skarðinu að bænum eru um 40 km og gönguleiðin tiltölulega auðveld. Hann hefur farið suður fyrir þorpið og áfram til Embrun og svo norðaustur í gegnum Guillestre til Queyras-gljúfurs. Frá Gap til Guillestre eru um 48 km. og þá er leiðin nokkurn vegin hálfnuð til Queyras-gljúfurs. Í Queyras-gljúfri þrengir nokkuð að en þaðan var haldið meðfram ánni Guil tæplega 30 km leið fyrst norðaustur og svo suðvestur eftir dalnum – í dag er þarna malbikaður vegur – þar til komið var að fjallskarðinu Col de la Traversette sem var brattasti hjallinn og ásamt Rón og Queyras-gljúfri hættulegasti hluti leiðarinnar. Skarðið, sem er í 3000 metra hæð, er sagt torsótt fyrir jafnvel reynda fjallgöngumenn. Raunar er þó sagt að leiðin upp sé mun greiðari en leiðin niður hinum megin við skarðið. Hann fór að öllum líkindum í gegnum þetta skarð og síðan niður á Pósléttuna í áttina að Saluzzo og svo meðfram ánni Pó til Torínó. Líklega var þetta ekki leiðin sem Hannibal ætlaði sér að fara en tvisvar á leiðinni var setið fyrir honum og hann gæti hafa orðið að breyta leið sinni vegna þess eða villst aðeins af leið.
Hannibal á leið yfir Alpana ásamt mönnum sínum og fílum.
Annar fræðimaður, John Prevas, er í meginatriðum sammála (sjá Prevas, 1998) en þeir De Beer hafna báðir eldri hugmyndum um að leið Hannibals hafi legið áfram norður frá Loriol og svo norðaustur meðfram ánni Isère, fram hjá Grenoble þangað sem áin Arc rennur saman við Isère. Þá hafi Hannibal haldið meðfram ánni Arc í suðaustur þar til komið er að einhverju fjallskarðinu: Col du Clapier, Montgenèvre eða jafnvel Cenisskarði. Þaðan hafi leiðin legið til Torínó. Enn aðrir telja að í stað þess að fylgja ánni Arc hafi Hannibal haldið áfram meðfram Isère og síðan í gegnum Litla St. Bernharðsskarð. Tilgáturnar sem de Beer og Prevas hafna voru lengi miklu vinsælli og eru sennilega enn þá en leiðarlýsingin sem þeir aðhyllast er þó ef til vill sennilegri. Hún stangast ekki alvarlega á við það sem fornar heimildir segja (fornar heimildir eru sjálfar ekki alveg samhljóða) en virðist koma jafnvel betur heim og saman við staðháttalýsingar og vegalengd.
Líklega hefur verið mun erfiðara að koma fílunum niður þverhnípin sem eru Ítalíumegin í Ölpunum en að mjaka þeim smám saman upp Frakklandsmegin. Fílar virðast geta gengið flesta stíga sem menn geta gengið þótt þeir þurfi vitaskuld að vera svolítið breiðir. En Hannibal var enginn vitleysingur og áttaði sig á því hvernig landið lá áður en hann hélt af stað enda leitaði hann upplýsinga um það og varð sér úti um leiðsögumenn sem kunnir voru staðháttum að sögn Pólýbíosar (Polyb. III.34, 48). Hann gæti hafa gert einhverjar ráðstafanir eins og voru líka gerðar til að koma fílunum yfir sumar árnar. Pólýbíos segir (Polyb. III.46) það hafa verið gert með því að binda þétt saman fleka og þekja þá moldu svo fílarnir fengju ekki á tilfinninguna að þeir stæðu ekki tryggum fótum. Svo var kýr leidd út á fleka til að fá tarfana til að fylgja á eftir. Livius segir sömu söguna (Liv. XXI.28.5-12). Einhverjar ráðstafanir af þessu tagi voru gerðar í Ölpunum líka því Pólýbíos og Livius segja báðir (Polyb. III.55; Liv. XXI.37.1-3) að Hannibal hafi látið menn sína byggja einhvers konar gangveg niður Alpana Ítalíumegin og það hafi tekið þrjá daga áður en fílarnir hafi komist en hestar og asnar hafi komist fyrr. Það tók herinn aðra þrjá daga að komast niður á sléttur Ítalíu. Því miður eru lýsingar sagnaritaranna ekki mjög ýtarlegar um þetta.
Þess má geta að árið 1777 fundust bein úr fíl grafin utan við Meillane en þau hafa síðan týnst svo ómögulegt er að rannsaka þau. Sögur herma einnig að fílsbein hafi fundist ofar í Ölpunum og líka tafla með nafni Hannibals áletruðu en ekkert af þessu er til í dag. Ekki er þó útilokað að enn eigi eftir að finnast einhvers staðar í Ölpunum minjar sem benda til þess að Hannibal og her hans hafi átt þar leið hjá. En hver svo sem leiðin var leikur enginn vafi á að Hannibal komst yfir Alpana með her sinn og fíla og þótt aðrir herforingjar hafi síðar leikið það eftir að leiða heri yfir Alpana (í báðar áttir) var það mikið afrek hjá Hannibal að komast leiðar sinnar ekki síst á þeim árstíma sem förin var farin, það er um haust. Leiðangurinn var ekki auðveldur og margir týndu lífi á leiðinni, líklega helmingur liðsaflans.
Heimildir og ítarefni:
De Beer, Gavin R. Hannibal’s March: Alps & Elephants (E.P. Dutton & Co., 2010).
Prevas, John. Hannibal Crosses the Alps: The Invasion of Italy and the Punic Wars (Da Capo Press, 1998).
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig í ósköpunum kom Hannibal fílum yfir ískalda Alpana?“ Vísindavefurinn, 14. október 2013, sótt 13. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=30885.
Geir Þ. Þórarinsson. (2013, 14. október). Hvernig í ósköpunum kom Hannibal fílum yfir ískalda Alpana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=30885
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig í ósköpunum kom Hannibal fílum yfir ískalda Alpana?“ Vísindavefurinn. 14. okt. 2013. Vefsíða. 13. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=30885>.