Sólin Sólin Rís 04:07 • sest 22:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:38 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:41 • Síðdegis: 20:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:41 • Síðdegis: 13:46 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:07 • sest 22:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:38 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:41 • Síðdegis: 20:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:41 • Síðdegis: 13:46 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er grasið blautt á sumarmorgnum þótt ekki hafi rignt yfir nóttina?

Trausti Jónsson

Loft inniheldur alltaf eitthvað af vatnsgufu. Vatnsgufan, sem oft er einnig nefnd eimur, er ósýnileg, rétt eins og flestar aðrar lofttegundir. Því heitara sem loftið er, þeim mun meiri vatnsgufa getur verið á sveimi í því. Því lægri sem hitinn er, því meiri líkur eru á að vatnsgufan í því fari að þéttast. Kólni loftið nógu mikið þéttist hluti vatnsgufunnar um síðir, oftast á einhverjum flötum svo sem grasi, jarðvegi eða gleri í gluggum, en einnig á litlum ögnum sem svífa um í loftinu. Þá verða þessir hlutir blautir.

Svonefnt daggarmark er mælikvarði á rakainnihald loftsins. Sé lofthiti ofan daggarmarks gufar meira upp af vatni en þéttist. Við daggarmarkið þéttist jafnmikið og gufar upp. Fari hiti niður fyrir daggarmark þéttist meira en gufar upp. Á björtum dögum á sumrin er mikill munur á hita dags og nætur. Að deginum eru bæði lofthiti og hiti yfirborðsins ofan daggarmarks, þannig að meira gufar upp en þéttist. Þegar sól lækkar á lofti kólnar bæði loft og yfirborð jarðar, en daggarmarkið, sem er mælikvarði á rakainnihaldið, helst stöðugt. Þegar hitinn hefur fallið niður að daggarmarki fer vatnsgufan að þéttast á yfirborðinu (til dæmis grasi) og það blotnar.Raki loftsins þéttist á öllum flötum sem eru kaldari en loftið en döggin er mest áberandi í gróðri.

Þó að raki loftsins þéttist á öllum flötum sem eru kaldari en daggarmarkið hverju sinni er þéttingin mest áberandi á gróðri, svo sem grasi, vegna hegðunar hita í gróðrinum. Hann kólnar mest við yfirborð, þar er útgeislunarvarmatap mest. Loftið þar er því fyrst til þess að kólna niður í daggarmarkið. Neðar í grasinu er mun minni útgeislun og hiti því lítillega hærri en við yfirborðið. Þar getur vatn því haldið áfram að gufa upp svo lengi sem hitinn þar er ofan daggarmarks. Þetta loft er ívið hlýrra en það sem ofar er og streymir því upp og rakinn þéttist um leið við yfirborð gróðurþekjunnar.

Rakinn sem við sjáum á grasinu er því ekki aðeins kominn úr loftinu heldur einnig neðan úr gróðurþekjunni. Að auki anda plönturnar, hiti inni í þeim er ívið meiri en utan við. Raki gufar því upp innan við öndunaropin, en þéttist þegar loftið kemur út um þau og bætir enn í bleytuna. Rakinn sem kemur innan úr plöntunni hefur getað borist um æðar hennar neðan úr rótarkerfinu.

Bleyta á gangstétt að morgni er öll tilkomin vegna þéttingar vatnsgufu sem var í loftinu, en bleytan á gróðrinum er ekki aðeins vatnsgufa úr loftinu ofan við heldur einnig úr lofti niðri í gróðurþekjunni og líka raki innan úr plöntunni sem hún hefur ef til vill dregið upp úr jarðveginum. Þessar viðbótaruppsprettur raka í gróðri valda því að ofan á honum er stundum mun meiri bleyta en á gróðurlausri jörð, svo ekki sé talað um steinsteypu.

Hafa ber þó í huga að yfirborð er mjög fjölbreytilegt og hiti þess ræðst ekki aðeins af geislunarjafnvægi heldur einnig af leiðnieiginleikum þess og varmarýmd. Bílablikk er til dæmi mjög fljótt að kólna vegna þess hversu þunnt það er. Raki eða jafnvel hrím er því oft á bílum í morgunsárið jafnvel þó jörðin í kring sé þurr eða hrímlaus.

Enn er því við að bæta að vatn á yfirborði hlutar hagar sér mjög misjafnlega eftir því hvort efnið í hlutnum er vatnssækið eða vatnsfælið sem kallað er. Ef efnið er vatnsfælið hneigist vatnið frekar til að mynda stóra og greinilega dropa. Glöggt dæmi um þetta er á plöntu sem er oftast nefnd maríustakkur en gengur líka undir nafninu döggblaðka vegna þessa eiginleika.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Einnig má benda á grein Trausta Jónssonar Skilgreining rakahugtaka á vef Veðurstofu Íslands.

Mynd: St Ives Weather Station, Cambridgeshire. Sótt 10. 6. 2008.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

12.6.2008

Spyrjandi

Arnaldur Sævarsson

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Af hverju er grasið blautt á sumarmorgnum þótt ekki hafi rignt yfir nóttina?“ Vísindavefurinn, 12. júní 2008, sótt 23. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=30886.

Trausti Jónsson. (2008, 12. júní). Af hverju er grasið blautt á sumarmorgnum þótt ekki hafi rignt yfir nóttina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=30886

Trausti Jónsson. „Af hverju er grasið blautt á sumarmorgnum þótt ekki hafi rignt yfir nóttina?“ Vísindavefurinn. 12. jún. 2008. Vefsíða. 23. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=30886>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er grasið blautt á sumarmorgnum þótt ekki hafi rignt yfir nóttina?
Loft inniheldur alltaf eitthvað af vatnsgufu. Vatnsgufan, sem oft er einnig nefnd eimur, er ósýnileg, rétt eins og flestar aðrar lofttegundir. Því heitara sem loftið er, þeim mun meiri vatnsgufa getur verið á sveimi í því. Því lægri sem hitinn er, því meiri líkur eru á að vatnsgufan í því fari að þéttast. Kólni loftið nógu mikið þéttist hluti vatnsgufunnar um síðir, oftast á einhverjum flötum svo sem grasi, jarðvegi eða gleri í gluggum, en einnig á litlum ögnum sem svífa um í loftinu. Þá verða þessir hlutir blautir.

Svonefnt daggarmark er mælikvarði á rakainnihald loftsins. Sé lofthiti ofan daggarmarks gufar meira upp af vatni en þéttist. Við daggarmarkið þéttist jafnmikið og gufar upp. Fari hiti niður fyrir daggarmark þéttist meira en gufar upp. Á björtum dögum á sumrin er mikill munur á hita dags og nætur. Að deginum eru bæði lofthiti og hiti yfirborðsins ofan daggarmarks, þannig að meira gufar upp en þéttist. Þegar sól lækkar á lofti kólnar bæði loft og yfirborð jarðar, en daggarmarkið, sem er mælikvarði á rakainnihaldið, helst stöðugt. Þegar hitinn hefur fallið niður að daggarmarki fer vatnsgufan að þéttast á yfirborðinu (til dæmis grasi) og það blotnar.Raki loftsins þéttist á öllum flötum sem eru kaldari en loftið en döggin er mest áberandi í gróðri.

Þó að raki loftsins þéttist á öllum flötum sem eru kaldari en daggarmarkið hverju sinni er þéttingin mest áberandi á gróðri, svo sem grasi, vegna hegðunar hita í gróðrinum. Hann kólnar mest við yfirborð, þar er útgeislunarvarmatap mest. Loftið þar er því fyrst til þess að kólna niður í daggarmarkið. Neðar í grasinu er mun minni útgeislun og hiti því lítillega hærri en við yfirborðið. Þar getur vatn því haldið áfram að gufa upp svo lengi sem hitinn þar er ofan daggarmarks. Þetta loft er ívið hlýrra en það sem ofar er og streymir því upp og rakinn þéttist um leið við yfirborð gróðurþekjunnar.

Rakinn sem við sjáum á grasinu er því ekki aðeins kominn úr loftinu heldur einnig neðan úr gróðurþekjunni. Að auki anda plönturnar, hiti inni í þeim er ívið meiri en utan við. Raki gufar því upp innan við öndunaropin, en þéttist þegar loftið kemur út um þau og bætir enn í bleytuna. Rakinn sem kemur innan úr plöntunni hefur getað borist um æðar hennar neðan úr rótarkerfinu.

Bleyta á gangstétt að morgni er öll tilkomin vegna þéttingar vatnsgufu sem var í loftinu, en bleytan á gróðrinum er ekki aðeins vatnsgufa úr loftinu ofan við heldur einnig úr lofti niðri í gróðurþekjunni og líka raki innan úr plöntunni sem hún hefur ef til vill dregið upp úr jarðveginum. Þessar viðbótaruppsprettur raka í gróðri valda því að ofan á honum er stundum mun meiri bleyta en á gróðurlausri jörð, svo ekki sé talað um steinsteypu.

Hafa ber þó í huga að yfirborð er mjög fjölbreytilegt og hiti þess ræðst ekki aðeins af geislunarjafnvægi heldur einnig af leiðnieiginleikum þess og varmarýmd. Bílablikk er til dæmi mjög fljótt að kólna vegna þess hversu þunnt það er. Raki eða jafnvel hrím er því oft á bílum í morgunsárið jafnvel þó jörðin í kring sé þurr eða hrímlaus.

Enn er því við að bæta að vatn á yfirborði hlutar hagar sér mjög misjafnlega eftir því hvort efnið í hlutnum er vatnssækið eða vatnsfælið sem kallað er. Ef efnið er vatnsfælið hneigist vatnið frekar til að mynda stóra og greinilega dropa. Glöggt dæmi um þetta er á plöntu sem er oftast nefnd maríustakkur en gengur líka undir nafninu döggblaðka vegna þessa eiginleika.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Einnig má benda á grein Trausta Jónssonar Skilgreining rakahugtaka á vef Veðurstofu Íslands.

Mynd: St Ives Weather Station, Cambridgeshire. Sótt 10. 6. 2008....