
Katar er að mestu leyti eyðimörk og gróður er helst að finna í norðurhluta landsins. Yfir sumartímann (júní – september) verður mjög heitt yfir hádaginn og getur hitinn farið upp í allt að 50ºC þegar sólin er hæst á lofti. Á vorin (apríl til maí) og á haustmánuðum (október og nóvember) er meðalhiti á sólahring um 17ºC en yfir veturinn er nokkuð svalara. Úrkoma er mjög lítil eða innan við 75 mm á ári og fellur að mestu yfir vetrartímann. Til samanburðar má áætla að meðalúrkoma á Íslandi árin 1961 – 1990 hafi verið 951 millimetri á ári (sjá svar Ulriku Andersson við spurningu um ársúrkomu á Íslandi). Al Thani fjölskyldan hefur verið við völd í Katar síðan 1868 þó svo að landið hafi ekki verið sjálfstætt allan þann tíma. Á tímablinu 1871-1913 var Katar hluti af Tyrkjaveldi, að minnsta kosti að nafninu til. Árið 1916 varð landið breskt verndarsvæði en frá 1971 hafa Katarar hins vegar verið sjálfstæðir í öllum sínum málum. Æðsti maður Katar ber titilinn emír og gengur embættið í erfðir. Í dag er Hamad bin Khalifa Al Thani emír landsins en hann steypti föður sínum af stóli árið 1996. Áætlað er að Katarar hafi verið rúmlega 793.000 um mitt ár 2002. Karlar eru næstum því helmingi fleiri en konur eða 191 karl á móti hverjum 100 konum. Skýringin á ójöfnum hlutföllum karla og kvenna kann að hluta til að liggja í því að á 8. og 9. áratug síðustu aldar var mikil þörf fyrir innflutt vinnuafl í Katar. Gera má ráð fyrir að það vinnuafl hafi fyrst og fremst verið karlmenn. Hinir upphaflegu íbúar Katar voru hirðingjar sem komu frá miðhluta Arabíuskaga. Í dag eru afkomendur þeirra hins vegar aðeins lítill hluti Katara. Yfir tveir þriðju af íbúum landsins er innflytjendur eða afkomendur innflytjenda, aðallega frá öðrum Arabíulöndum, Indlandi og Pakistan. Arabíska er opinbert tungumál í Katar en enska er víða notuð. Langflestir íbúanna eru múslímar. Í dag búa yfir 90% Katara í þéttbýli. Höfuðborg landsins og jafnframt stærsta borgin er Doha á austurströnd Katarskaga. Frá því að olíuvinnsla hófst í Katar rétt fyrir miðja síðustu öld hefur olíuútflutningur verið ein helsta tekjulind landsins. Talið er að olíulindir Katara verði uppurnar fyrir miðja 21. öldina og því hefur verið lögð áhersla á að draga úr mikilvægi olíu fyrir efnahagslífið. Einn liður í því er aukin áhersla á vinnslu jarðgass en áætlað er að Katarar ráði yfir allt að 5% af jarðgasi í heiminum. Heimildir og mynd:
- Íslenska alfræðiorðabókin. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1990.
- Britannica Online
- Gauging the Iraqi Threat to Kuwait in the 1960s
- The World Factbook 2002