Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru og hvernig líta marbendlar út?

Marbendlar eru sagðir vera sjávarvættir sem eru að hálfu leyti í mannslíki en að öðru leyti sem fiskar eða ferfætlingar. Á þeim þekkjast ýmis önnur nöfn svo sem: hafbúi, hafdvergur, haffrú, hafgúa, hafgýgur, hafmaður, hafmær, hafstrambi, haftröll, marbúi, mardvergur, margýgur, marmennill, meyfiskur, sjóálfur, sædvergur, sætröll og fleiri.

Marbendill er sennilega í framburði orðið til úr marmennill, og merkir mannkríli, við það að m hefur breyst í b og nn í nd. Orðmyndin þekkist einnig í færeysku.

Sögur um marbendla og fleiri sæbúa er að finna í flestum stórum þjóðsagnasöfnum. Oftast eru sögurnar á þá leið að fiskimaður fær þetta fyrirbæri óvart á öngulinn, en síðan geta skipti þeirra farið með ýmsum hætti.

Marbúinn sem sést hér til hliðar er ekki úr íslenskum heimildum en af myndinni af dæma er hann hreistraður. Myndin er úr heimild frá 17. öld.

Ein af þekktari frásögnum um marbendla er sennilega þjóðsagan: Og þá hló marbendill. Hún segir frá bónda nokkrum sem fangar marbendil út á sjó og tekur með sér heim. Á heimleiðinni hlær marbendill þrisvar að bóndanum. Í fyrsta sinn þegar konan hans fagnar honum, í annað sinn þegar hann lemur hundinn sinn og í þriðja lagi þegar hann ræðst á þúfu sem hann hnaut um. Í lok sögunnar upplýsir marbendill að hann hafi hlegið að bóndanum vegna þess að konan hans hafi verið fölsk í fagnaðarlátum sínum, hann hafi lamið hundinn sinn sem fagnaði honum einlæglega og þúfan sem bóndinn þjösnaðist á geymdi fjársjóð. Bóndinn sleppir þá loks marbendli og finnur fjársjóðinn sem þúfan hafði að geyma.

Frekari frásagnir af marbendlum og aðrar þjóðsögur sem gerast á sjó og vötnum má finna á vefsíðu Netútgáfunnar.

Meira lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Árni Björnsson. Íslenskt vættatal. Rv. 1990, 10-11.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Rv. 1989, 604, 606.
  • Benedikt Gröndal. Sjóvíti og sjóskrímsli. Tímarit Bókm.fél. 1893, 98-135.
  • Oddur Einarsson. Íslandslýsing. Rv. 1971, 57-63.
  • Ólafur Davíðsson. Íslenskar kynjaverur í sjó og vötnum. Tímarit Bókm.fél. 1900, 159-188.
  • Helgi Hallgrímsson. Undrin í Lagarfljóti. Týli 1982, 13-26.

Mynd:

Útgáfudagur

8.1.2009

Spyrjandi

Dagný Lilja Arnarsdóttir, f. 1995

Höfundur

Árni Björnsson

dr. phil. í menningarsögu

Tilvísun

Árni Björnsson. „Hvað eru og hvernig líta marbendlar út?“ Vísindavefurinn, 8. janúar 2009. Sótt 28. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=31487.

Árni Björnsson. (2009, 8. janúar). Hvað eru og hvernig líta marbendlar út? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=31487

Árni Björnsson. „Hvað eru og hvernig líta marbendlar út?“ Vísindavefurinn. 8. jan. 2009. Vefsíða. 28. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=31487>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Þórunn Rafnar

1958

Þórunn Rafnar er deildarstjóri krabbameinsrannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu. Rannsóknir Þórunnar beinast einkum að því að finna erfðaþætti sem hafa áhrif á tilurð og framþróun krabbameins.