Sólin Sólin Rís 10:53 • sest 15:42 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:59 • Sest 05:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:39 • Síðdegis: 15:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:54 • Síðdegis: 22:13 í Reykjavík

Hver er heimspekileg notkun orðanna inntak og umtak?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Orðin inntak (e. intension) og umtak (e. extension) eru notuð í heimspeki til að gera grein fyrir tveimur mismunandi gerðum merkingar. Annars vegar er um að ræða það sem viðkomandi orð (eða setning) gefur í skyn eða lætur í ljós og hins vegar þann hlut í heiminum sem orðið táknar eða vísar til. Þannig gæti inntak orðsins köttur verið einhvers konar hugtak á borð við “smávaxið spendýr með oddmjó eyru sem mjálmar og malar, ræðst á mýs og fugla og er oft gæludýr mannfólksins” en umtak orðsins er allir þeir hlutir sem það vísar til, það er allir kettir í heiminum.

Orðin inntak og umtak samsvara, að minnsta kosti hjá flestum heimspekingum, orðunum skilningur og tilvísun. Árið 1892 birti þýski stærðfræðingurinn og heimspekingurinn Gottlob Frege (1848-1925) ritgerðina “Über Sinn und Bedeutung”, eða “Skilningur og merking,” sem átti eftir að hafa gífurleg áhrif á málspeki 20. aldar.1) Dæmi Freges af morgunstjörnunni (Phosphorus) og kvöldstjörnunni (Hesperus) er líklega eitt af frægustu skýringardæmum heimspekisögunnar.

Orðin kvöldstjarnan og morgunstjarnan vísa til sama hlutarins, það er til reikistjörnunnar Venus. Þau hafa þannig sömu tilvísun og má því segja að þau hafi sömu merkingu. Hins vegar leggjum við mismunandi skilning í orðin kvöldstjarna og morgunstjarna og til dæmis getur einhver haldið að kvöldstjarnan og morgunstjarnan séu ekki sami hluturinn. Því getum við líka sagt að orðin tvö hafi ekki sömu merkingu. Þau hafa sömu tilvísun en ekki sama skilning, sama umtak en ekki sama inntak. Jafnframt er gert ráð fyrir að umtak orðs (eða setningar) ráðist af inntaki þess og orðið hafi því umtak eða tilvísun sína gegnum inntakið.

Tvískipting merkingar í inntak og umtak leysir ákveðin vandamál sem koma upp ef aðeins er gert ráð fyrir einni gerð merkingar. Ef við gerum til dæmis ráð fyrir því að merking nafnorðs sé einfaldlega sá hlutur sem það vísar til lendum við í vandræðum með orð á borð við einhyrningur sem vísa ekki til neins í raun og veru. Samkvæmt þessu væri orðið einhyrningur merkingarlaust og setningar á borð við “Einhyrningar eru ekki til” merkingarlausar líka þar sem frumlagið er merkingarlaust. Slík setning hefði sömu merkingu og "Slkjlktj eru ekki til." Flestir mundu hins vegar segja að setningin “Einhyrningar eru ekki til” hafi merkingu og gefi ákveðnar upplýsingar. Með skiptingu Freges er hægt að segja að orðið einhyrningur hafi inntak þótt það hafi ekki umtak og þar með sé það ekki merkingarlaust.Að sama skapi kemur skiptingin í inntak og umtak að gagni þegar um er að ræða samsemdarstaðhæfingar. Ef merking er ekkert annað en tilvísun ættu staðhæfingarnar “morgunstjarnan er morgunstjarnan” og “morgunstjarnan er kvöldstjarnan” að hafa nákvæmlega sömu merkingu. Flestum virðist þó upplýsingagildi seinni staðhæfingarinnar töluvert meira en hinnar fyrri sem virðist lítið annað en útfærsla á samsemdarlögmálinu (hver hlutur er samur sjálfum sér). Ef merkingunni er skipt í inntak og umtak er hægt að gera greinarmun á merkingu staðhæfinganna tveggja sem er í samræmi við þá tilfinningu sem flestir hafa, að merkingin sé ekki nákvæmlega sú sama.

Á síðari tímum hafa aftur komið fram kenningar þar sem skiptingunni í skilning og tilvísun er að einhverju leyti hafnað. Þannig hefur David Kaplan fært rök fyrir því að svokölluð ábendingarorð hafi beina tilvísun án milligöngu skilnings (sjá svar við spurningunni Hvenær er núna?). Svipaðar kenningar hafa verið settar fram um tilvísun nafna, meðal annars af Saul Kripke og Keith Donnellan.

1) Orðið merking hefur stundum verið notað sem þýðing á Bedeutung hjá Frege en í ensku hefur orðið meaning, sem við gerum yfirleitt ráð fyrir að þýði það sama og merking, aftur á móti verið notað sem þýðing á Sinn. Þetta misræmi getur auðvitað verið til trafala og til að forðast að rugla lesendur nota ég orðið skilningur sem þýðingu á Sinn og tilvísun sem þýðingu á Bedeutung.

Mynd af Frege: Uniwersytetu Łódzkiego - Instytut Filozofil

Myndir af kvöldstjörnu: Tigertail Virtual Museum: Childe Hassam og Tigertail Virtual Museum: Edward Burne-Jones

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

28.2.2003

Spyrjandi

Baldvin Einarsson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver er heimspekileg notkun orðanna inntak og umtak?“ Vísindavefurinn, 28. febrúar 2003. Sótt 4. desember 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=3186.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2003, 28. febrúar). Hver er heimspekileg notkun orðanna inntak og umtak? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3186

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver er heimspekileg notkun orðanna inntak og umtak?“ Vísindavefurinn. 28. feb. 2003. Vefsíða. 4. des. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3186>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er heimspekileg notkun orðanna inntak og umtak?
Orðin inntak (e. intension) og umtak (e. extension) eru notuð í heimspeki til að gera grein fyrir tveimur mismunandi gerðum merkingar. Annars vegar er um að ræða það sem viðkomandi orð (eða setning) gefur í skyn eða lætur í ljós og hins vegar þann hlut í heiminum sem orðið táknar eða vísar til. Þannig gæti inntak orðsins köttur verið einhvers konar hugtak á borð við “smávaxið spendýr með oddmjó eyru sem mjálmar og malar, ræðst á mýs og fugla og er oft gæludýr mannfólksins” en umtak orðsins er allir þeir hlutir sem það vísar til, það er allir kettir í heiminum.

Orðin inntak og umtak samsvara, að minnsta kosti hjá flestum heimspekingum, orðunum skilningur og tilvísun. Árið 1892 birti þýski stærðfræðingurinn og heimspekingurinn Gottlob Frege (1848-1925) ritgerðina “Über Sinn und Bedeutung”, eða “Skilningur og merking,” sem átti eftir að hafa gífurleg áhrif á málspeki 20. aldar.1) Dæmi Freges af morgunstjörnunni (Phosphorus) og kvöldstjörnunni (Hesperus) er líklega eitt af frægustu skýringardæmum heimspekisögunnar.

Orðin kvöldstjarnan og morgunstjarnan vísa til sama hlutarins, það er til reikistjörnunnar Venus. Þau hafa þannig sömu tilvísun og má því segja að þau hafi sömu merkingu. Hins vegar leggjum við mismunandi skilning í orðin kvöldstjarna og morgunstjarna og til dæmis getur einhver haldið að kvöldstjarnan og morgunstjarnan séu ekki sami hluturinn. Því getum við líka sagt að orðin tvö hafi ekki sömu merkingu. Þau hafa sömu tilvísun en ekki sama skilning, sama umtak en ekki sama inntak. Jafnframt er gert ráð fyrir að umtak orðs (eða setningar) ráðist af inntaki þess og orðið hafi því umtak eða tilvísun sína gegnum inntakið.

Tvískipting merkingar í inntak og umtak leysir ákveðin vandamál sem koma upp ef aðeins er gert ráð fyrir einni gerð merkingar. Ef við gerum til dæmis ráð fyrir því að merking nafnorðs sé einfaldlega sá hlutur sem það vísar til lendum við í vandræðum með orð á borð við einhyrningur sem vísa ekki til neins í raun og veru. Samkvæmt þessu væri orðið einhyrningur merkingarlaust og setningar á borð við “Einhyrningar eru ekki til” merkingarlausar líka þar sem frumlagið er merkingarlaust. Slík setning hefði sömu merkingu og "Slkjlktj eru ekki til." Flestir mundu hins vegar segja að setningin “Einhyrningar eru ekki til” hafi merkingu og gefi ákveðnar upplýsingar. Með skiptingu Freges er hægt að segja að orðið einhyrningur hafi inntak þótt það hafi ekki umtak og þar með sé það ekki merkingarlaust.Að sama skapi kemur skiptingin í inntak og umtak að gagni þegar um er að ræða samsemdarstaðhæfingar. Ef merking er ekkert annað en tilvísun ættu staðhæfingarnar “morgunstjarnan er morgunstjarnan” og “morgunstjarnan er kvöldstjarnan” að hafa nákvæmlega sömu merkingu. Flestum virðist þó upplýsingagildi seinni staðhæfingarinnar töluvert meira en hinnar fyrri sem virðist lítið annað en útfærsla á samsemdarlögmálinu (hver hlutur er samur sjálfum sér). Ef merkingunni er skipt í inntak og umtak er hægt að gera greinarmun á merkingu staðhæfinganna tveggja sem er í samræmi við þá tilfinningu sem flestir hafa, að merkingin sé ekki nákvæmlega sú sama.

Á síðari tímum hafa aftur komið fram kenningar þar sem skiptingunni í skilning og tilvísun er að einhverju leyti hafnað. Þannig hefur David Kaplan fært rök fyrir því að svokölluð ábendingarorð hafi beina tilvísun án milligöngu skilnings (sjá svar við spurningunni Hvenær er núna?). Svipaðar kenningar hafa verið settar fram um tilvísun nafna, meðal annars af Saul Kripke og Keith Donnellan.

1) Orðið merking hefur stundum verið notað sem þýðing á Bedeutung hjá Frege en í ensku hefur orðið meaning, sem við gerum yfirleitt ráð fyrir að þýði það sama og merking, aftur á móti verið notað sem þýðing á Sinn. Þetta misræmi getur auðvitað verið til trafala og til að forðast að rugla lesendur nota ég orðið skilningur sem þýðingu á Sinn og tilvísun sem þýðingu á Bedeutung.

Mynd af Frege: Uniwersytetu Łódzkiego - Instytut Filozofil

Myndir af kvöldstjörnu: Tigertail Virtual Museum: Childe Hassam og Tigertail Virtual Museum: Edward Burne-Jones...