Það var maður að nafni Dr. John Sith Pemberton, lyfjafræðingur í Atlanta í Georgíu, Bandaríkjunum, sem framleiddi fyrst sírópið sem síðar varð þekkt sem Coca-Cola, árið 1886. Hann var að reyna að finna upp vökva sem læknaði höfuðverk og væri um leið góður á bragðið. Pemberton fór með sírópið í apótek í næsta nágrenni, Jacob’s Pharmacy, þar var kolsýrðu vatni blandað við sírópið og selt í glösum á 5 sent stykkið.
Vinur dr. Pembertons og bókhaldari, Frank Robinson, stakk upp á því að 2 C myndu koma vel út í auglýsingu og hannaði hann nafnið Coca-Cola, og skrift Robinsons varð að einstöku merki kóksins.
Fyrst seldist drykkurinn ekki vel, aðeins um 9 glös á dag. Dr. Pemberton var síðri kaupsýslumaður en uppfinningamaður og byrjaði að selja hlutabréf í fyritæki sínu. Rétt fyrir dauða sinn 1888, seldi hann það sem hann átti eftir í fyrirtækinu sínu til Asa nokkurs Candlers.
Árið 1892 stofnuðu Asa Candler, bróðir hans John S. Candler, Frank Robinsson og tveir aðrir, fyrirtækið Coca-Cola og salan jókst næstum tífalt. Þá fóru þeir að auglýsa vöruna með dagatölum, klukkum og krukkum. Árið eftir fengu þeir einkaleyfi fyrir vörumerkinu Coca-Cola.
Upphaflega var kók nær eingöngu selt sem síróp til veitingastaða sem blönduðu sjálfir við kolsýrðu vatni, en Joseph A. Biedenharn frá Vicksburg, Missippi, datt í hug að tappa drykknum tilbúnum á flöskur og selja þannig. Upp frá því þróaðist sú venja Coca-Cola-fyrirtækisins að selja sírópið svæðisbundnum átöppunaraðilum, líkt og gert er hér á Íslandi, sem sjálfir blanda vatni og kolsýru og tappa á fyrir heimamarkað.
Árið 1929 var hægt með tilkomu opinna kæla að bjóða upp á ískalt Coca-Cola í smásöluverslunum. Skömmu síðar kom svo fyrsti peningasjálfsalinn sem gerði sölu kóks í verksmiðjum, skrifstofum og skólum mögulega.
Á fjórða áratugnum hófst herferðin með jólasveininum sem enn stendur yfir. Haddom Sundblom hannaði jólasvein Coca-Cola sem margir þekkja sem hinn „sanna“ jólasvein, eins og lesa má um í svari Eyju Margrétar Brynjarsdóttur við spurningunni Er bandaríski jólasveinninn búinn til af Coca-Cola-fyrirtækinu?Heimildir og myndir:
Þetta svar er eftir grunnskólanema á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.