Vanalega er talað um að skilningarvit dýra séu fimm. Þau eru sjón, heyrn, þefskyn, bragðskyn og snertiskyn. Fæstir efast líklega um að hundar hafi þessi fimm skilningarvit.
Í sumum fræðum eru skilningarvitin talin vera sex, en að vísu er það sjötta ekki alltaf það sama. Í íþróttasálfræði er til dæmis talað um að líkamsvitund sé sjötta skilningarvitið. Ekki er ólíklegt að hundar búi einnig yfir því. Í svonefndum nýaldarfræðum er sjötta skilningarvitið talið vera innra skilningarvit mannsins. Ef við höfum þetta innra skilningarvit, finnst mér ekki ólíklegt að hundar hafi það líka.
Svo virðist einnig vera að dýr sýni tilfinningar eins og gleði, hryggð og reiði eins og fram kemur í svari eftir Jón Má Halldórsson á Vísindavefnum, við spurningunni Grætur einhver dýrategund, önnur en maðurinn?
Hægt er að lesa um sjón hunda á Vísindavefnum í svari eftir Jón Má Halldórsson, við spurningunni Hvernig sjá hundar? Um lyktarskyn hunda má lesa á vefsetrinu snerpa.is/hundar
Mynd: Hundurinn Lappi
Þetta svar er eftir grunnskólanema á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.