Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Húð okkar er gerð úr þremur lögum. Ysta lagið, það sem við horfum á, nefnist húðþekja (e. epidermis), þar fyrir innan er leðurhúðin (e. dermis) og innsta lagið nefnist undirhúð (e. subcutaneous layer). Öll vinna þessi lög saman að því að halda húð okkur í góðu ástandi.
Eins og lesa má um í svari Stefáns B. Sigurðssonar við spurningunni Er húðin líffæri? má líta á húðina sem líffærakerfi því að í henni eru ýmsar gerðir af líffærum, til dæmis svitakirtlar, fitukirtlar, taugar og æðar.
Ung húð býr yfir miklum teygjanleika og getu til að halda í sér raka. Teygjanleika leðurhúðar má þakka prótínþráðum sem heita elastín. Elastín og seigt kollagen, annað prótín í leðurhúðinni, eiga mestan þátt í að viðhalda unglegri og frísklegri húð og koma í veg fyrir hrukkur.
Þegar aldurinn færist yfir okkur tapar leðurhúðin bæði elastíni sínu og kollageni. Leiðir það til þess að húðin þynnist og erfiðara reynist fyrir hana að halda í sér raka og koma honum til húðþekjunnar. Fita, sem er í undirhúð og gefur húðinni fyllingu, minnkar einnig með aldrinum. Þetta leiðir til þess að húðþekjan fer að hanga/síga og hrukkur myndast.
Enginn sérstakur hrukkualdur er til, það er að segja þegar allir fá skyndilega hrukkur. Sumir einstaklingar á þrítugsaldri eru þegar komnir með hrukkur í kringum augun (svokallaða krummafætur) eftir að píra augun í sólskini. Aðrir fá fyrstu hrukku sína ekki fyrr en á sextugs- eða sjötugsaldri. Ástæðan er oftast sú að þeir hafa hugsað vel um húð sína í gegnum tíðina og ef til vill mynda þeir meiri húðfitu en gerist og gengur. Önnur ástæða getur verið tengd erfðum sem sést á því að skyldmenni þeirra fá fáar hrukkur og þær koma tiltölulega seint á lífsleiðinni. Fyrr eða seinna fá þó allir einhverjar hrukkur og eru þær eðlilegur þáttur öldrunar.
Húðlæknar áætla að allt að 90% þeirra breytinga í húðinni sem við álítum tilkomnar vegna öldrunar séu í raun vegna skemmda af völdum sólarljóss (ljósskemmda = e. photodamage). Húð sem hefur elst án þess að verða fyrir áhrifum sólarljóss virðist þynnri en yngri húð en er án djúpra hrukka og svokallaðra ellibletta (e. age spots) og annarra svæða þar sem litarefnadreifing er ójöfn. Húð sem hefur orðið fyrir áralöngum ljósskemmdum er með fleiri og dýpri hrukkur, auk þess sem víða eru litaskellur vegna ójafnrar litadreifingar. Í húð sem orðið hefur fyrir miklum ljósskemmdum hafa teygjanlegu prótíntrefjarnar í leðurhúðinni, elastíntrefjar, þykknað og flækst saman og marktækt minna er af kollagen prótínþráðum en í húð sem hefur elst án ljósskemmda.
Sóldýrkendur ættu að hafa þetta í huga, því að þótt lítið sé hægt að gera til að snúa líffræðilegu klukkunni við, þrátt fyrir öflugan snyrtivöruiðnað, er hægt að gera heilmikið til að forðast sólina og komast hjá ljósskemmdum. Sé óhugsandi að sleppa sólböðum er mikilvægt að nota sólarvarnarvörur til að vernda húðina gegn útfjólubláum geislum og velja þá tegund sem ver bæði gegn UVA og UVB geislun sólar.
Hér eru nokkur góð ráð til að koma í veg fyrir hrukkumyndun á unga aldri:
Forðastu að vera of lengi í sólinni, einkum þegar hún er hæst á lofti (á milli kl. 10 og 16). Útfjólubláir geislar eru miklir hrukkuvaldar. Sólarvörn dregur úr áhrifum þeirra að einhverju leyti en getur ekki haldið öllum geislunum frá því að ná til húðarinnar. Ef þú ert mikið úti við skaltu bera á þig sólarvörn sem inniheldur varnarþátt 15 eða hærri á 2-3 tíma fresti. Ef þú ferð í sund eða stundar íþrótt sem fær þig til að svitna verður þú að bera á þig aftur að því loknu.
Slepptu því að fara í ljós. Útfjólubláu geislarnir í perum lampanna eru alveg jafnskaðlegir og geislar sólarinnar, stundum jafnvel verri.
Ekki reykja! Reykingar ræna húðina verðmætum raka og valda hrukkumyndun fyrir aldur fram.
Berðu rakakrem á húðina á hverjum degi, einkum í þurru og köldu veðri.
Drekktu mikið vatn á hverjum degi til að líkaminn fái nægan vökva sem stuðlar að því að húðin verði mjúk og slétt.
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvers vegna fær fólk hrukkur?“ Vísindavefurinn, 1. apríl 2003, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3303.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2003, 1. apríl). Hvers vegna fær fólk hrukkur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3303
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvers vegna fær fólk hrukkur?“ Vísindavefurinn. 1. apr. 2003. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3303>.