Um 60% af líkamsþyngd heilbrigðra einstaklinga er vatn. Þetta hlutfall er heldur lægra hjá konum en körlum og getur verið enn lægra hjá þeim sem eru feitir eða aldraðir. Um tveir þriðju af líkamsvatninu er inni í frumum líkamans (frumuvatn) en þriðjungur utan frumna (millifrumuvökvi). Meðalmaður hefur því rúmlega 40 lítra af vatni í líkamanum.
Dagleg vatnsneysla getur verið mjög breytileg milli einstaklinga og frá degi til dags og ákvarðast að mestu af vana, aðgangi að vatni og þorsta. Venjulegur einstaklingur með heilbrigð nýru þarf að lágmarki 400-500 ml af vatni á dag til að skilja út þau sölt og úrgangsefni sem líkaminn þarf að losa sig við, en í raun er þvagið oft um 1000 ml á dag. Við bruna næringarefna myndast 200-300 ml af vatni á dag en á móti kemur að 600-800 ml tapast á dag með útöndunarlofti og svita. Þegar upp er staðið þurfum við 2-3 lítra af vatni á dag (í mat og drykk) til að bæta líkamanum upp vökvatap og gera nýrunum kleyft að losa líkamann við sölt og úrgangsefni.
Vatnsdrykkja umfram þetta er eingöngu af hinu góða svo framarlega sem hún fer ekki út í algerar öfgar. Ef drukkið er mjög mikið magn af hreinu vatni (það getur þurft 10-20 lítra eða meira á dag) fer svo að lokum að styrkur natríums (í matarsalti) í blóðinu lækkar. Lækkað natríum í blóði veldur einkennum eins og máttleysi, rugli og krampa og ef lækkunin verður nógu mikil leiðir það til dauða.
Vatnsþamb af þessari stærðargráðu er meðal annars þekkt í tengslum við vissa geðsjúkdóma og hjá þeim sem vinna erfiðisvinnu í miklum hita, til dæmis námumenn. Á síðustu öld var algengt að námumenn sem drukku hreint vatn við þorsta urðu veikir og fengu krampa. Þegar farið var að láta þá drekka veika saltblöndu í staðinn hvarf þetta vandamál. Vatnseitrun er því þekkt en gerist aðeins við mjög öfgafullar aðstæður.
Margir drekka of lítið vatn og gildir það sérstaklega um gamalt fólk og þá sem þjást af endurteknum nýrnasteinum. Vökvaskortur hjá gömlu fólki stuðlar að slappleika og hægðatregðu sem er algengt og alvarlegt vandamál meðal aldraðra. Fólk á öllum aldri ætti að temja sér að drekka nokkur glös af vatni á dag, það er heilsubætandi og gerir engum nema gott.
Sjá einnig svar við spurningunni Er dagleg vatnsdrykkja umfram tvo lítra holl? eftir Björn Sigurð Gunnarsson.