Samkvæmt grískri goðafræði var Pandóra fyrsta konan á jörðinni.
Guðirnir höfðu falið bræðrunum Epimeþeifi (nafnið þýðir eftirsjá) og Prómeþeifi (“forsjálni”) að fylla jörðina lífi. Epimeþeifur byrjaði á að skapa dýrin og gaf þeim ýmsa eiginleika, styrk, hraða og klókindi, og feld og fjaðrir til að verja sig með. Epimeþeifur kláraði allar gjafir sínar áður en hann áttaði sig á því að hann hafði ekkert eftir til að gera manninum kleift að berjast við dýrin. Til að vinna upp þennan mun, stal Prómeþeifur eldinum frá guðunum og færði mannkyninu.
Seifur reiddist Prómeþeifi mjög fyrir að stela einhverju sem tilheyra átti aðeins guðunum, og til að refsa bræðrunum bjó hann til konu. Henni voru gefnir hæfileikar frá öllum guðunum. Frá Afródítu fékk hún fegurð, frá Hermesi fékk hún sannfæringarkraft og frá Aþenu fékk hún ýmsa kvenlega hæfileika. Konan var nefnd Pandóra (nafnið þýðir sú sem gefur allt).
Epimeþeifur vildi ólmur kvænast Pandóru þótt bróðir hans Prómeþeifur varaði hann sterklega við. Viðvörun Prómeþeifs átti við rök að styðjast því Seifur sendi Pandóru til jarðarinnar með öskju fulla af plágum og böli. Af eðlislægri forvitni opnaði Pandóra öskjuna og hleypti öllum plágunum út. Það eina sem varð eftir í öskjunni var vonin.

Þessari sögu er hægt að líkja við söguna um Evu og eplið. Konu er kennt um að hafa fært illsku í heiminn í grísku sögninni og konu er kennt um syndafallið í Biblíunni. Hægt er að lesa meira um viðhorf Grikkja til kvenmanna í svari Sigríðar Þorgeirsdóttur við spurningunni Hverjar eru hugmyndir Platons um eðli og hlutverk karla og kvenna? Í svari Vísindavefsins um tungl Satúrnusar kemur fram að nokkur tungla reikistjörnunnar heita eftir persónunum í ofangreindri goðsögu: eitt heitir Pandóra, annað Epimeþeifur og þriðja Prómeþeifur. Heimildir og mynd:
Þetta svar er eftir grunnskólanema á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.