
Satúrnus hefur átján tungl sem vitað er um. Auk þeirra hafa greinst að minnsta kosti tólf önnur möguleg tungl en tilvist þeirra hefur ekki verið staðfest. Þessi átján þekktu tungl Satúrnusar heita: Pan, Atlas, Prómeþeifur, Pandóra, Epimeþeifur, Janus, Mímas, Enkeladeus, Teþis, Kalypsó, Telestó, Díóne, Helena, Rhea, Títan, Hýperíon, Japetus og Föbe. Tunglum Satúrnusar er skipt í þrjá flokka eftir stærð:
- Títan er einn í fyrsta flokknum því að hann er langstærstur, reyndar á stærð við litla reikistjörnu, því að hann er stærri en bæði Plútó og Merkúríus en minni en Mars og Ganýmedes, sem er stærsta tungl Júpíters. Þvermál Títans er 5150 km. Hann er eitt af fáum tunglum í sólkerfinu sem hafa lofthjúp.
- Næst koma sex miðlungsstór tungl, 400-1500 km í þvermál, eða nokkru minni en tunglið okkar. Þau eru flokkuð í pör eftir þvermáli og eiginleikum: Rhea og Japetus (þvermál 1500 km), Teþis og Díóne (1000 km) og Mímas og Encleades (400-500 km). Mímas er reyndar þekktur fyrir gríðarlega stóran loftsteinsgíg og lítur hann því út eins og Helstirnið í gömlu Stjörnustríðs-myndunum, sjá myndina hér á eftir.
Miðlungsstóru tunglin eiga nokkra mikilvæga eiginleika sameiginlega. Þau ferðast öll um Satúrnus við miðbaug auk þess sem þau snúa alltaf sömu hlið að honum, eins og reyndar öll tunglin nema Föbe. Þau eru að miklu leyti úr ís. - Minnstu tunglin eru öll óregluleg í lögun nema tvö, Pan og Föbe. Föbe er sérstök fyrir það að hún fer öfugan hring um Satúrnus miðað við hin tunglin, en þau ferðast öll í snúningsstefnu plánetunnar.