Að öllum líkindum er Tyrannosaurus rex, eða grameðlan, þekktasta ráneðlan af hópi risaeðlna (dinasauria). Hún var hrikaleg ófreskja, rúmlega fimm metra há, gat orðið 14 metra löng og vó um 6 tonn. Hún lifði að öllum líkindum ránlífi og lagðist sennilega einnig á hræ.
Steingervingafræðingar hafa á síðari tímum gert því skóna að grameðlan hafi einungis verið hrædýr en þá má segja að öllum glæsibrag hafi verið svipt af þessu mikla dýri. Grameðlan er oft kölluð konungur risaeðlnanna á krítartímabili miðlífsaldar, enda ber hún heitið rex í fræðiheiti sínu sem merkir konungur á latínu.
Framlimir grameðlunnar voru kraftlitlir en kjafturinn á henni hrikalegur. Í skoltinum bar hún 50 til 60 oddhvassar, keilulaga tennur af mismunandi stærð, þær minnstu smáar en þær stærstu gátu verið allt að 22 cm á lengd! Algengt er að steingervingarfræðingar hafi fundið tennur úr grameðlu við steingerðar leifar stórra grasbíta. Grameðlan hefur þá misst þær á meðan hún reif hræið í sig, en nýjar tennur uxu í þeirra stað. Stærst slíkra tanna, sem að öllum líkindum komu úr grameðlu, reyndist vera 33 cm á lengd!
Nánar má lesa um grameðlur á Vísindavefnum í svari sama höfundar við spurningunni Var Tyrannosaurus rex mesta og stærsta ráneðla sinna tíma og hvenær var hún uppi?
Mynd: Prehistoric Planetstore
Heimasíður um grameðluna fyrir áhugasama: