Enska orðið paradigm er dregið af gríska orðinu paradeigma, sem merkir sönnun, dæmi, mynstur, líkan eða frummynd. Í málfræði er það notað um beygingarmynstur. Hjá Platoni er paradeigma meðal annars notað um einstakt dæmi einhvers almenns eiginleika, eða um fyrirmynd, mælikvarða eða mynstur, samanber frummyndakenningu hans. Hér verður íslenska orðið viðmið notað sem þýðing á paradigm.
Á síðari tímum hefur hugtakið orðið frægast í meðförum bandaríska vísindasagnfræðingsins og vísindaheimspekingsins Thomas S. Kuhn (1922-1996), sem setur það fram í hinni frægu bók sinni The Structure of Scientific Revolutions (Formgerð vísindabyltinga, 1962), en hún hefur haft áhrif langt út fyrir heimspeki á síðustu áratugum.
Það var þó þýski vísindamaðurinn Georg Christoph Lichtenberg (1742-1799) sem notaði hugtakið fyrstur í vísindasögu, um nokkurs konar „beygingarmynstur“ vísindanna. Lichtenberg, sem var prófessor í eðlisfræði við háskólann í Göttingen frá 1770 til dauðadags, sagði til dæmis um kerfi Kópernikusar að það væri „það viðmið sem allar aðrar uppgötvanir ætti að beygja eftir“. Á sama hátt og við hegðum beygingu nafnorða og sagna í málfræði eftir þekktri beygingu ákveðins orðs taldi hann að við „skýrðum“ fyrirbæri náttúrunnar með því að tengja þau ákveðnum þekktum fyrirbærum eða mynstrum.
Lichtenberg var einn af þeim fáu hugsuðum, sem austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein (1889-1951) las af alvöru, en segja má að viðmiðshugtak Lichtenbergs lifi áfram í hugtökum Wittgensteins um „rökfræðilega málfræði“, „málaleiki“ og „ættarmót“. Þessi hugtök höfðu aftur áhrif á hugmyndir Kuhns.
Wittgenstein benti á að ekki er hægt að finna eitthvert eitt mengi eiginleika sem einkenna alla leiki, heldur aðeins „ættarsvip“ með leikjum (til dæmis skák, sjónleik, fótboltaleik og bridge), og á sama hátt telur Kuhn, að ekki sé hægt að skilgreina nákvæmlega í hverju aristótelísk eðlisfræði felst, eða nútíma skammtaeðlisfræði. Aðeins sé unnt að benda á ákveðin „ættareinkenni“ allrar starfsemi sem eðlisfræðingur innan hefðar Aristótelesar stundar. Þessi ættareinkenni felast meðal annars í því hvers konar frumspeki allir vísindamenn innan þessarar hefðar aðhyllast (til dæmis um tilvist verunda (súbstansa), um hlutverk markmiðshugtaksins o.s.frv.), hvernig þeir vilja haga tilraunum sínum, um það hvaða form kenningar eiga að taka, hvernig safna á gögnum, hvernig setja á fram kenningar sínar og þannig fram eftir götunum.
Öll vísindastarfsemi sem snýst um ákveðið viðmið fellur undir það sem Kuhn kallar „normal science“ („hversdagsvísindi“). Þróun vísinda felst þá samkvæmt Kuhn í því að ein hversdagsvísindi taka við af öðrum, það er að segja að eitt viðmið tekur við af öðru, eins og þegar viðmið afstæðiskenningar Einsteins tók við af viðmiðinu sem felst í aflfræði Newtons í upphafi tuttugustu aldar. Kuhn kallar það vísindabyltingu þegar eitt viðmið tekur við af öðru. Þessar hugmyndir um „byltingarkennda“ og ósamfellda þróun vísinda áttu sér reyndar fyrirrennara í ritum franska vísindaheimspekingsins Gaston Bachelard (1884-1962).
Upphaflega notaði Kuhn viðmiðshugtakið ekki í skarpt skilgreindri merkingu (í samræmi við kenninguna um „ættarmót“), heldur hafði hann aðeins viðmið um viðmið! Enski vísindaheimspekingurinn Margaret Masterman greindi reyndar að minnsta kosti 21 mismunandi merkingu í orðinu paradigm í Formgerð vísindabyltinga. Seinna hætti Kuhn að nota orðið paradigm og kaus heldur „disciplinary matrix“ („fræðafylki“), sem hann gat gert nákvæmari grein fyrir.
Náskyldar hugmynd Kuhns um viðmið, vísindabyltingar og hversdagsvísindi eru hugmyndir ungverska heimspekingsins Michael Polanyi (1891-1976) um „þegjandi þekkingu“ (e. tacit knowledge), hugmyndir austurríska vísindaheimspekingsins Paul K. Feyerabend (1924-1994) um hlutverk óhefðbundinna, „óskynsamlegra“ þátta í vísindum og ungverska vísindaheimspekingsins Imre Lakatos (1922-1974) um „rannsóknaáætlanir“ (scientific research programmes).
Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!