Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Thomas Samuel Kuhn (1922–1996) var bandarískur vísindasagnfræðingur og vísindaheimspekingur, þekktastur fyrir bók sína Vísindabyltingar (e. The Structure of Scientific Revolutions) og hugtök á borð við viðmið (e. paradigm) og ósammælanleika (e. incommensurability).
Kuhn stundaði nám í eðlisfræði við Harvardháskóla og lauk doktorsprófi í þeirri grein árið 1949. Hann hóf svo kennslu við sama skóla og var falið það verkefni að kenna námskeið þar sem farið var yfir ýmis atriði úr sögu vísindanna. Þarna kviknaði áhugi Kuhns á vísindasögu sem aldrei slokknaði síðan og varð að ævistarfi hans ásamt rannsóknum í vísindaheimspeki. Eftir að hafa yfirgefið Harvard nokkrum árum síðar starfaði hann við Berkeleyháskóla, Princeton og MIT.
Bókin Vísindabyltingar er þekktasta rit Kuhns og segja má að hún hafi ekki aðeins fjallað um byltingar í vísindum heldur hafi hún átt stóran þátt í byltingu í hugsun og umfjöllun um vísindi. Hún kom út árið 1962 og vakti strax sterk viðbrögð meðal heimspekinga, vísindasagnfræðinga og vísindamanna. Áhrifin áttu eftir að verða víðtækari, því hugmyndirnar sem Kuhn setur fram í Vísindabyltingum voru síðar túlkaðar á víðari máta í kenningum í hug- og félagsvísindum. Ritið varð umdeilt og Kuhn sakaður um afstæðishyggju, tilraun til niðurrifs vísindanna og hugmyndir hans sagðar andstæðar skynsemi og röklegri hugsun. Sumum þessara ásakana reyndi Kuhn síðar að verjast og ekki var hann alltaf sáttur við það hvernig kenningar hans voru heimfærðar upp á ýmislegt sem honum sjálfum hefði aldrei hugkvæmst.
Thomas Kuhn (1922-1996) var bandarískur vísindasagnfræðingur og vísindaheimspekingur.
Kuhn talar um að það sem einkenni starf vísindamanna sé að leitast við að leysa þrautir og helsta hlutverk vísinda sé því þrautalausn. Þannig sé sá hópur eða stofnun í sérhverju samfélagi kallaður vísindi sem hefur það hlutverk að leysa þrautir með tilteknum viðurkenndum hætti. Þessi viðurkenndi háttur er hluti af því sem Kuhn kallar viðmið. Með viðmiði á hann við það að þetta tiltekna samfélag vísindamanna hefur sams konar mat á því hvað sé verðugt viðfangsefni, hvað sé áhugaverð þraut, hvað sé viðunandi lausn á þrautinni, hvaða kenningum megi ganga út frá, hvaða aðferðir séu við hæfi og hvað orð og hugtök merki. Viðmiðshugtak Kuhns hefur haft mikil áhrif, ekki aðeins innan vísindaheimspeki og vísindasagnfræði, heldur í mörgum öðrum fræðigreinum.
Stundum kemur upp óvænt vandamál sem aðferðir viðmiðsins og kenningar geta ekki skýrt. Þetta getur verið óvænt útkoma úr tilraun sem ekki gengur að fella að ríkjandi kenningum eða einhver undarlegur atburður sem fellur ekki að viðmiðinu. Þetta er kallað frávik (e. anomaly). Segja má að frávik sé þraut sem ekki gengur að leysa innan viðmiðsins. Kuhn telur að frávikum sé gjarnan ýtt til hliðar og látið sem ekkert sé, en svo gerist það stundum að sams konar frávik komi upp aftur og aftur, eða einhver tiltekinn vísindamaður fái áhuga á tilteknu fráviki og vilji finna skýringar á því. Frávikið fer að vekja æ meiri athygli og smám saman verður til nýtt viðmið sem felur í sér lausnina á því. Fyrst um sinn eftir að nýtt viðmið kemur fram vilja margir innan þeirrar greinar sem um ræðir halda í gamla viðmiðið. Þegar svo er komið ríkir kreppa (e. crisis) þar sem tvö viðmið takast á. Á endanum getur nýja viðmiðið orðið ofan á í átökunum og gamla viðmiðið víkur og hættir að vera til. Þarna hefur þá orðið það sem Kuhn kallar vísindabyltingu (e. scientific revolution).
Oft er vitnað til þess að vísindabylting hafi orðið þegar viðmið afstæðiskenningar Einsteins tók við af viðmiðinu sem felst í aflfræði Newtons. Myndin er af sólmyrkva sem varð 29.5.1919. Breskir vísindamenn gerðu út tvo leiðangra til að fylgjast með honum og athuga hvort að sveigja ljóssins væri í samræmi við útreikninga Einsteins sem byggðir voru á almennu afstæðiskenningunni.
Tvö mismunandi viðmið eru það sem Kuhn kallar ósammælanleg. Það er þá hvorki hægt að bera þau saman né meta annað þeirra út frá hinu. Orð sem virðast á yfirborðinu vera sama orðið hafa ólíka merkingu í mismunandi viðmiðum og hugsunin að baki þeim er svo ólík að ekki er hægt að þýða milli viðmiða. En það er ekki aðeins merking orða sem er ósammælanleg heldur líka aðferðafræðin og kenningarnar. Meðal annars hafa hin ólíku viðmið mismunandi forsendur til að meta það hvað sé viðeigandi eða góð lausn á tiltekinni þraut. Fylgismenn hvors viðmiðs um sig geta litið svo á að þeirra kenningar og aðferðir séu betur til þess fallnar að leysa þrautina og engin leið er að bera þetta saman.
Hugmyndir Kuhns ollu ákveðnum straumhvörfum í vísindaheimspeki og þeir vísindaheimspekingar sem ekki mótuðust beinlínis af þeim þurftu í það minnsta að taka afstöðu til þeirra. Einnig má segja að þessar hugmyndir hafi leitt til vakningar í vísindasögu og þáttur sögunnar varð veigameiri í vísindaheimspeki. Sérstök rannsóknasetur tileinkuð sögu og heimspeki vísindanna fóru að líta dagsins ljós ásamt háskóladeildum á sama sviði og vísindafélagsfræði og vísindafræði voru svo næsta skref á þessari braut. Kuhn lagði þó sjálfur áherslu á að hann hefði ekki einn átt heiðurinn af mótun þessara fræðigreina heldur hefðu margir aðrir átt hlut að máli og tíðarandinn vegið þungt.
Skrif Kuhns áttu þátt í að beina athygli að vísindaiðkun sem félagslegu fyrirbæri og minna okkur á að vísindamenn eru auðvitað mannverur í samfélagi, rétt eins og allir aðrir, og að starf þeirra mun alltaf einkennast af því. Hugmyndir Kuhns um viðmið og vísindabyltingar draga þannig að vissu leyti úr kennivaldi vísindanna. Ætlun Kuhns er þó ekki að gagnrýna vísindastarf sem slíkt heldur fyrst og fremst að lýsa því og þeim lögmálum sem hann telur það lúta. Vísindafélagsfræðin sem varð til í kjölfarið á hugmyndum Kuhns og snerist um að einblína á hegðun vísindamanna og stöðu þeirra í samfélaginu varð afar umdeild og Kuhn lagði raunar aldrei blessun sína yfir hana. Áhugi hans beindist miklu fremur að sögu raunvísinda og túlkun hennar.
Heimildir og frekara lesefni:
Erlendur Jónsson (2008). Hvað eru vísindi? Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Kuhn, Thomas S. (2015). Vísindabyltingar. Íslensk þýðing eftir Kristján G. Arngrímsson; Eyja Margrét Brynjarsdóttir ritaði inngang. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Meðal fleiri rita Kuhns má nefna:
Kuhn, Thomas S. (1957). The Copernican Revolution: Planetary Astronomy in the Development of Western Thought. Cambridge: Harvard University Press.
Kuhn, Thomas S. (1977). The Essential Tension: Selected Studies in Scientific Tradition and Change. Chicago: University of Chicago Press.
Kuhn, Thomas S. (1978). Black-Body Theory and the Quantum Discontinuity. Chicago: University of Chicago Press.
Kuhn, Thomas S. (2000). The Road since Structure. Chicago: University of Chicago Press (gefin út að Kuhn látnum).
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver var Thomas Kuhn og hvert var hans framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 7. mars 2016, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59068.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2016, 7. mars). Hver var Thomas Kuhn og hvert var hans framlag til vísindanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59068
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver var Thomas Kuhn og hvert var hans framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 7. mar. 2016. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59068>.